Fjárfesting í húsnæði og innviðum rennir stoðum undir hagvöxt
Nú um stundir eru ólíkir og býsna gagnstæðir kraftar að störfum í hagkerfi okkar Íslendinga þegar verðbólga er há, vaxtakjör hafa versnað á skömmum tíma og fjármögnunarkostnaður þar af leiðandi hár. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, í setningarávarpi sínu á Útboðsþingi SI sem fram fór í Háteigi á Grand Hótel Reykjavík. Hann sagði að annars vegar sé það krafan um aðhald og að dregið verði úr útgjöldum hins opinbera til að sporna gegn hallarekstri og forðast þenslu. Hins vegar sé það óumdeilanlegt mikilvægi þess að fjárfesting í nýju húsnæði og uppbyggingu innviða sé næg og viðhaldi innviða sem fyrir eru sé sinnt af kostgæfni. „En við vitum flest að með slíkum fjárfestingum er frekari stoðum rennt undir hagvöxt og lífsgæði framtíðarinnar.“
Árni sagði að þrátt fyrir að jafnan reyni menn að finna siglingarleiðina milli skers og báru við aðstæður sem þessar, kenni sagan okkur að of oft hafi einfalda leiðin verið farin og fjárfestingar skornar niður frekar en að taka ákvarðanir sem séu erfiðari í pólitísku tilliti. Sú leið, þó auðfarin sé, endi í öngstræti eða það sem verra er, sjálfheldu. „Það er því ánægjulegt að í kortunum sé veruleg aukning milli ára í fyrirhuguðum útboðum opinberra aðila, en samhliða Útboðsþinginu gefa Samtök iðnaðarins út greiningu sína á helstu niðurstöðum þingsins í dag til samanburðar við liðið ár, sem ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur nánar. Virði áætlaðra útboða má sín þó lítils ef útboðin leiða ekki til fjárfestingar.“
Stöðugleiki fremur en magn
Þá sagði Árni í ávarpi sínu að þeim sem væru í iðnaði sé stundum legið á hálsi fyrir að hvetja um of til aukinna fjárfestinga í framkvæmdum, óháð efnahagsaðstæðum hverju sinni. Það séu jú hagsmunir félagsmanna SI að hafa úr eins miklu að moða og hægt sé. „Ég hygg að svarið við slíkum vangaveltum sé stöðugleiki fremur en magn. Það er sannast sagna erfitt að viðhalda og byggja upp mikilvægan iðnað í því alþekkta sveifluumhverfi sem íslenskur byggingariðnaður hefur mátt búa við um áratuga skeið. Miklar sveiflur í framboði verkefna og verklegum framkvæmdum er hins vegar vonandi eitthvað sem heyrir sögunni til, þó alltaf megi reikna með mun á milli ára, einkum ef óvanalega stór verkefni eru sett af stað og önnur frestast og færast á milli ára. Á hinum stafrænu tímum sem við nú loksins lifum í þessum geira fáum nú rauntölur og staðreyndir með lítilli fyrirhöfn, sem áður var erfitt eða jafnvel ómögulegt að byggja á.“
Hratt og vel að verki staðið í þágu samfélagsins alls
Árni sagði jafnframt að áætlanagerð hafi af þessum sökum almennt batnað og blessunarlega virðist opinberir aðilar nú horfa til lengri tíma í stað skemmri áður. Stöðugt flæði verkefna og aukinn fyrirsjáanleiki geri íslenskum iðnaði kleift að tryggja vinnuafl, þekkingu og nauðsynlegan tækjabúnað svo hratt og vel verði að verki staðið, í þágu samfélagsins alls. „Okkar hæfileikaríka og öfluga fagfólk í mannvirkjageiranum er reiðubúið til starfa og íslenskur iðnaður hefur alla tíð staðið að baki uppbyggingu innviða landsins í góðu samstarfi við aðrar greinar atvinnulífsins.“
Árni Sigurjónsson, formaður SI.