Fréttasafn14. okt. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Fjárfesting í nýsköpun styrkir atvinnulífið

Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum og mikill samdráttur í gjaldeyristekjum. Staðan er sú að það hriktir í tveimur stoðum gjaldeyrisöflunar, eins og við þekkjum í ferðaþjónustu og svo eru blikur á lofti í orkusæknum iðnaði. Við stöndum á ákveðnum tímamótum hvað varðar atvinnusköpun, hvernig við ætlum að skapa öll þessi störf á næstu árum og áratugum. Bráðavandinn er atvinnuleysið. Þetta segir Sigríðir Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, meðal annars í viðtali við þá Frosta og Mána í útvarpsþættinum Harmageddon. Hún segir að við þurfum að nýta þennan mótbyr ekki eingöngu í skammtímalækningar heldur til þess að fjárfesta núna í nýsköpun því þannig styrkjum við atvinnulífið og samkeppnishæfni Íslands til framtíðar og komum í veg fyrir að lenda á vegg á 8-12 ára fresti þar sem við höfum einblýnt um of á eina atvinnugrein í einu og erum þar af leiðandi ekki með nægilega styrkar stoðir undir atvinnusköpun og verðum þá fyrir þessu mikla höggi reglulega. „Það er einfaldlega þannig að ef við ætlum að halda uppi þeim lífskjörum sem við þekkjum og höfum vanist og viljum búa við til langs tíma án þess að þurfa að búa til nýtt plan hverju sinni þá þurfum við að einbeita okkur að þeim atvinnugreinum þar sem er mikil framlegð og framleiðni. Með því að fjárfesta í nýsköpun þá erum við að stuðla að þessu. Þannig sköpum við verðmæt störf, háframleiðnistörf og það er það sem við þurfum til framtíðar.“

Sigríður segir að með nýsköpun getum við styrkt núverandi atvinnugreinar ásamt því að nýjar verða til. Tölvuleikjaiðnaðurinn og líf- og heilbrigðistækniiðnaður séu dæmi um atvinnugreinar sem byggja að miklu leyti á nýsköpun. „Þarna er ekki verið að byggja eins mikið á auðlindum en við sjáum samt að mörg af okkar flottustu líftæknifyrirtækjum eru að nýta afurðir og auðlindir til að búa til meiri verðmæti. Kerecis er gott dæmi um það en þar er þorskroð, sem áður var hent, nýtt til að búa til meiri verðmæti. Við erum að tala um nýsköpun heilt yfir í íslensku atvinnulífi. Síðan eru það atvinnugreinar eins og hugbúnaðargerð og fleiri sem eru ekki háðar auðlindum né landamærum og þar eru mikil sóknartækifæri líka.“

Hækka framlög í Tækniþróunarsjóð

Spurð að því hvort einhverjar skyndilausnir séu í sjónmáli í nýsköpun til að mæta bráðaatvinnuleysinu og skapa ný störf hratt segir Sigríður að sú lausn sem blasi helst við núna til að virkja fólk til starfa og að búa til ný verðmæti sé Tækniþróunarsjóður. Metaðsókn hafi verið í sjóðinn í ágúst á þessu ári. Framlög til sjóðsins hafi verið aukin en alls ekki nóg til að taka á móti allri eftirspurninni. „Þarna mætti gefa verulega í, framlög eru að hækka á milli ára en það má gera enn meira á því sviði þannig að árangurshlutfallið verði hærra.“

Sigríðir segir að án þess að skapa ný verðmæti verða ekki til ný störf, hið opinbera geti ekki leyst þennan vanda eitt og sér, með því að fjölga opinberum störfum til að mynda eins og hefur verið í umræðunni því það muni ekki leysa neinn vanda. „Á meðan það er engin eftirspurn í ferðaþjónustu af augljósum ástæðum þá verðum við að horfa annað og það er líka skynsamlegt að gera það til lengri tíma.“

Horfa þarf á nýjar leiðir og nýjar lausnir

Þá segir hún að það þurfi líka að horfa til þeirra greina sem hafi verið að spretta upp á undanförnum árum, til dæmis kvikmyndaiðnaðar og gagnaversiðnaðar og það sé einnig mikil gróska í líf- og heilbrigðistækniiðnaði og mikil tækifæri í matvælaframleiðslu. „Tækifærin eru endalaus og við þurfum að horfa meira til þeirra og í stað þess að reyna að bjarga hagkerfinu eins og það var fyrir tveimur árum og reisa það aftur við að þá þurfum við að horfa á nýjar leiðir og nýjar lausnir.“

Snýst þetta þá aðallega um að stjórnvöld veiti meira fjármagni í alls kyns nýsköpunarsjóði? „Alls ekki eingöngu um það. Það skiptir máli hvernig við skilgreinum hlutverk hins opinbera en ríkið þarf að styðja við nýsköpun. Þetta snýst ekki alltaf um meira fjármagn heldur hvata og umbætur. Eitt dæmi um það er að nú er verið að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og það er skynsamlegt skref. Þetta á ekki að snúast um yfirbyggingu og stofnanir heldur að hreyfa við hegðun í atvinnulífi með réttum hvötum. Að stjórnvöld átti sig á mikilvægi þessarar fjárfestingar. Fjármagn til nýsköpunar er að hækka á milli ára og það er mikilvægt. Við þurfum að hreyfa okkur meira í þá átt að skapa háframleiðnistörf hér á landi og það gerist ekki á einni nóttu. Við þurfum líka að laða hingað erlenda fjárfestingu, það gæti skipt miklu máli í því að skapa ný störf.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigríði í heild sinni.