Fréttasafn



9. okt. 2018 Almennar fréttir

Fjárlögin nýtt til að efla samkeppnishæfnina

Í greinargerð með frumvarpi til fjárlaga segir að lykillinn að aukinni samkeppnishæfni sé meiri framleiðni og öflugri verðmætasköpun. Samtök iðnaðarins fagna þessari sýn ríkisstjórnarinnar en framleiðni er ein af grunnstoðum sterkrar samkeppnisstöðu. Áhersla samtakanna á innviði, menntun, nýsköpun og starfsumhverfi byggir á því að þetta eru þeir þættir sem efla framleiðni og þar með lífskjör í landinu en nýlega gáfu samtökin út skýrsluna Ísland í fremstu röð um samkeppnishæfni Íslands m.t.t. þessara þátta. Þetta segir meðal annars í umsögn Samtaka iðnaðarins  sem send hefur verið fjárlaganefnd.

Áhersla á samkeppnishæfni er jákvæð

Í umsögninni segir jafnframt að fjárlög ríkisins séu mikilvægur þáttur samkeppnishæfninnar. Ríkið sé mótandi afl í innviðum, nýsköpun, menntun og starfsumhverfi og birtist áherslurnar m.a. í fjárlögum ríkisins. Með réttum áherslum í ríkisfjármálum megi auka verðmætasköpun þjóðarbúsins og hagsæld samfélagsins sem skapi grundvöll að lífskjarabótum hér á landi. Áhersla ríkisstjórnarinnar á samkeppnishæfni sé jákvæð að mati SI og samtökin séu reiðubúin að leggja sitt af mörkum í samstarfi við ríkisvaldið til þess að vinna að umbótum á því sviði til hagsbóta fyrir í íslenskt samfélag.

Vonbrigði að tryggingagjaldið lækki ekki meira

Í umsögninni segir að skattheimta á íslensk fyrirtæki sé há í alþjóðlegum samanburði og nú sú næst hæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagsáfallið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu. Skattabreytingar þessar hafa hinsvegar verið að festast í sessi síðan. Samtök iðnaðarins lýsa yfir vonbrigðum með að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gert ráð fyrir meiri lækkun tryggingagjalds en raun ber vitni. Reiknað er með að gjaldið skili ríflega 100,8 milljörðum króna á næsta ári sem er tæplega 3,5 milljörðum krónum meira en á þessu ári. Tryggingagjaldið mun því þrátt fyrir boðaða 0,25 prósentustiga lækkun skila ríkissjóði meiri tekjum á næsta ári en á þessu ári.

Orkuskipti ekki raunhæfur kostur sem stendur

Í umsögninni segir að auknar álögur á atvinnulífið í formi vörugjalda, sér í lagi olíugjalds og kolefnisgjalds, hafi verið gífurlegar sl. áramót og nú sé lagt til að hækka slík gjöld enn frekar þar sem hækkun kolefnisgjalds sendi skýr skilaboð til neytenda, atvinnurekenda og fjárfesta um að það skili árangri og borgi sig að fjárfest í tækjum og búnaði sem dragi úr losun koltvísýrings. Í umsögninni segir að mörg fyrirtæki vinni nú hörðum höndum að því að draga úr losun og leiti nýrra leiða til að ná markmiðum með því að skoða og innleiða aðra orkugjafa. Vilja félagsmenn samtakanna vinna að jákvæðri þróun í þessum efnum. Samtökin benda á að þó tækniframþróun sé hröð í þessum efnum sé það ekki svo að hægt sé að fá stærri ökutæki, vinnuvélar og sum iðnaðartæki þannig að þau nýti endurnýjanlega orkugjafa. Orkuskipti sé því ekki raunhæfur kostur sem stendur, sér í lagi fyrir iðnað og atvinnutæki sem nota svokallaða litaða olíu og möguleikar slíkra aðila til orkuskipta eru hverfandi. Þá segir að auknar álögur á atvinnulífið og hvatar sem fyrirtæki hafa ekki möguleika á að fylgja eftir séu í andstöðu við það markmið ríkisstjórnarinnar að auka samkeppnishæfni Íslands. 

Mótmæla 2,5% hækkun á áfengisgjöldum

Í umsögninni mótmæla Samtök iðnaðarins 2,5% hækkun á áfengisgjöldum til að mæta verðlagsþróun og leggja til að sú hækkun verði dregin til baka.

Of lítil aukning í viðhaldi vega 

Samtökin fagna þeirri auknu áherslu á viðhald í vegamálum sem aukningin í fjárlagafrumvarpinu endurspeglar. Aukningin er hins vegar að mati SI of lítil m.v. þá uppsöfnuðu þörf sem er til staðar. Í skýrslu Félags ráðgjafarverkfræðinga og Samtaka iðnaðarins var uppsöfnuð viðhaldsþörf þjóðvegakerfisins metin um 70 milljarðar króna. Samgönguráðherra kynnti nýlega að yfir 220 milljarða króna vantar í viðhald og nýfjárfestingar í vegakerfinu.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.