Fréttasafn



19. nóv. 2014

Fjölmenni á stefnumóti á sviði áliðnaðar

Stefnumót á sviði áliðnaðar fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær, en þar komu hátt í sjö­tíu fyr­ir­tæki og stofn­an­ir sam­an til að ræða ný­sköp­un­ar­um­hverfið og hlýða á örkynn­ing­ar frá ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um um þró­un­ar­verk­efni af ýms­um toga.

Markmiðið með stefnumótinu var að fjalla um umhverfi nýsköpunar í áliðnaði og draga fram hugmyndir að samstarfsverkefnum um þarfir og lausnir sem fela í sér tækifæri til framþróunar eða verðmætasköpunar.

Stefnu­mótið hófst á er­ind­um um ný­sköp­un­ar­um­hverfi áliðnaðar­ins. Ari Kristinn Jónsson rektor HR og Ragn­ar Guðmunds­son for­stjóri Norðuráls hófu fundinn. Erindi fluttu Guðrún Sæv­ars­dótt­ir for­seti tækni- og verk­fræðideild­ar HR sem talaði um mik­il­vægi þekk­ing­ar og ný­sköp­un­ar fyr­ir áliðnaðinn, Hilm­ar Bragi Jan­us­son for­seti verk­fræði- og nátt­úru­vís­inda­sviðs HÍ sem talaði um þekk­ing­arkví­ar fyr­ir ál- og efn­isiðnað, Þröst­ur Guðmunds­son frá HRV sem fjallaði um ár­ang­urs­ríkt sam­starf ál­fyr­ir­tæk­is og tæknifyr­ir­tæk­is, Sig­urður Björns­son frá Rannís sem fór yfir fjár­mögn­un og matsaðferðir ný­sköp­un­ar­verk­efna og Guðbjörg Óskars­dótt­ir verk­efn­is­stjóri um þró­un­ar­set­ur í efni­s­tækni sem sett hef­ur verið á lagg­irn­ar við Ný­sköp­un­ar­miðstöð Íslands.

Að loknum erindum um nýsköpunarumhverfið hófust þriggja mínútna örkynningar átján fyrirtækja og stofnana á hugmyndum að samstarfi eða þróunarverkefnum. Hugmyndirnar voru síðan ræddar í smærri hópum í nokkrum stofum háskólans.

Verk­efn­in voru af ólík­um toga en snerust flest um ný­sköp­un í fram­leiðslu­ferli ál­vera, þar sem koma við sögu verk­fræðistof­ur, málmsmiðjur, vélsmiðjur og stofn­an­ir á borð við Ný­sköp­un­ar­miðstöð Íslands og há­skóla­sam­fé­lagið. En þarna voru einnig hug­mynd­ir sem lutu að úr­vinnslu áls, full­nýt­ingu í áliðnaði og sam­ræm­ingu í ör­ygg­is­mál­um.

Að stefnu­mót­inu stóðu Sam­tök iðnaðar­ins og Sa­mál, sam­tök álfram­leiðenda, ásamt ís­lenska álklas­an­um, en stefna álklas­ans var gef­in út sam­hliða stefnu­mót­inu og var hún mótuð á tveggja daga stefnu­mót­un­ar­fundi í Borg­ar­nesi í apríl síðastliðnum. Þar er einkum lögð áhersla á að efla rann­sókn­ir og þróun í sam­starfi áliðnaðar­ins, rann­sókn­ar­stofn­ana og há­skóla­sam­fé­lags­ins.

Sjá umfjöllun á mbl.is