Fjölmenni á stefnumóti á sviði áliðnaðar
Stefnumót á sviði áliðnaðar fór fram í Háskólanum í Reykjavík í gær, en þar komu hátt í sjötíu fyrirtæki og stofnanir saman til að ræða nýsköpunarumhverfið og hlýða á örkynningar frá einstaklingum og fyrirtækjum um þróunarverkefni af ýmsum toga.
Markmiðið með stefnumótinu var að fjalla um umhverfi nýsköpunar í áliðnaði og draga fram hugmyndir að samstarfsverkefnum um þarfir og lausnir sem fela í sér tækifæri til framþróunar eða verðmætasköpunar.
Stefnumótið hófst á erindum um nýsköpunarumhverfi áliðnaðarins. Ari Kristinn Jónsson rektor HR og Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls hófu fundinn. Erindi fluttu Guðrún Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR sem talaði um mikilvægi þekkingar og nýsköpunar fyrir áliðnaðinn, Hilmar Bragi Janusson forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ sem talaði um þekkingarkvíar fyrir ál- og efnisiðnað, Þröstur Guðmundsson frá HRV sem fjallaði um árangursríkt samstarf álfyrirtækis og tæknifyrirtækis, Sigurður Björnsson frá Rannís sem fór yfir fjármögnun og matsaðferðir nýsköpunarverkefna og Guðbjörg Óskarsdóttir verkefnisstjóri um þróunarsetur í efnistækni sem sett hefur verið á laggirnar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Að loknum erindum um nýsköpunarumhverfið hófust þriggja mínútna örkynningar átján fyrirtækja og stofnana á hugmyndum að samstarfi eða þróunarverkefnum. Hugmyndirnar voru síðan ræddar í smærri hópum í nokkrum stofum háskólans.
Verkefnin voru af ólíkum toga en snerust flest um nýsköpun í framleiðsluferli álvera, þar sem koma við sögu verkfræðistofur, málmsmiðjur, vélsmiðjur og stofnanir á borð við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og háskólasamfélagið. En þarna voru einnig hugmyndir sem lutu að úrvinnslu áls, fullnýtingu í áliðnaði og samræmingu í öryggismálum.
Að stefnumótinu stóðu Samtök iðnaðarins og Samál, samtök álframleiðenda, ásamt íslenska álklasanum, en stefna álklasans var gefin út samhliða stefnumótinu og var hún mótuð á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi í apríl síðastliðnum. Þar er einkum lögð áhersla á að efla rannsóknir og þróun í samstarfi áliðnaðarins, rannsóknarstofnana og háskólasamfélagsins.