Fjölmennur fundur um gæðastjórnun í byggingariðnaði
Það var fjölmennur fundur sem Mannvirkjaráð SI og IÐAN fræðslusetur héldur í morgun í Húsi atvinnulífsins þar sem fjallað var um gæðastjórnun í byggingariðnaði þegar hátt í 100 manns mættu. Á fundinum sem er annar í fundaröð um gæðastjórnun í byggingariðnaði var fjallað um hlutverk iðnmeistara, byggingarstjóra og hönnunarstjóra út frá gæðastjórnun. Fundarstjóri var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI. Heyra mátti á fundarmönnum að mikil ánægja væri með þá tvo fundi sem búið er að halda í fundaröð SI og IÐUNNAR. Næsti fundur verður haldinn 30. janúar í húsakynnum IÐUNNAR.
Fundurinn í morgun var sendur út beint frá Facebook SI.
Notkun gæðakerfis er hjálpartæki við góða stjórnun
Kristján Aðalsteinsson, málarameistari hjá Litagleði, sagði frá þeim skrefum sem hann tók við innleiðingu á gæðakerfi í fyrirtæki sínu. Hann lagði áherslu á að krafa mannvirkjalaga hafi ekki verið ástæða þess að hann tók upp gæðakerfi í hans fyrirtæki, ástæðan hafi einfaldlega verið sú að honum finnst notkun gæðakerfis einfaldlega vera hjálpartæki við góða stjórnun. Strax fyrsta árið eftir innleiðingu gæða- og tímaskráningarkerfis skilaði það sér í auknum ábata fyrirtækisins sem nam tæplega einum árslaunum starfsmanns.
Hér er hægt að nálgast glærur Kristjáns.
Í lokaúttekt byggingarfulltrúa fari fram virkniskoðun gæðakerfis byggingarstjóra
Ágúst Þór Pétursson, húsasmíðameistari hjá Mannviti, talaði um gæðakerfi SI en að jafnframt séu fleiri sem bjóða gæðakerfi. Ágúst vissi dæmi þess að fyrirtæki sem hefðu fengið vottuð sín gæðakerfi fyrir og um 2015 hefðu fengið innköllun á gæðakerfum sínum til virknisskoðunar 2016 en síðan þá hefðu engar skoðanir eða eftirlit farið fram. Það komi þó væntanlega til með að breytast frá og með áramótum við innleiðingu byggingargáttar MVS. Ágúst teiknaði upp gæðakerfi og fór yfir helstu möppur og skjöl sem hann sem byggingarstjóri þarf að hafa í sínu gæðakerfi. Hann vill að í lokaúttekt byggingarfulltrúa fari einnig fram virkniskoðun gæðakerfis byggingarstjóra því eins og staðan er í dag er þessi virkniskoðun ekki framkvæmd með reglubundnum hætti.
Hér er hægt að nálgast glærur Ágústs.
Ávinningur vottaðs gæðakerfis mikill og fjármunum vel varið
Sigríður Magnúsdóttir, arkitekt hjá Teiknistofunni Tröð, sagði frá stofnun Teiknistofunnar Traðar árið 1990. Frá upphafi hafi það verið markmið eigendanna að gera vel og gott gæðakerfi hjálpi arkitektum að vinna í skapandi verkefnum. Sigríður útskýrði þetta á þann hátt að gæðakerfið hjálpi til við að skilgreina þarfir og væntingar viðskiptavinarins og þannig geti hönnuðurinn beitt sér innan rammans sem búið er að koma sér saman um. Teiknistofan fékk ISO 9001 gæðakerfi vottað í febrúar 2010 og að viðhalda þurfi vottuninni á 6 mánaða fresti. Reglulega spyrji eigendur teiknistofunnar sig hvort það borgi sig að verja tíma og fjármunum í að viðhalda ISO vottuninni. Niðurstaðan hefur fram á þennan dag verið sú að ávinningurinn sé það mikill að þessu tíma og fjármunum sé vel varið. Sigríður fór einnig yfir það að í byggingarreglugerð kemur hugtakið hönnunarstjóri 36 sinn fyrir og í framhaldi af því fór hún yfir nokkrar greinar reglugerðarinnar er snúa að hönnunarstjórum.
Hér er hægt að nálgast glærur Sigríðar.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var fundarstjóri.
Kristján Aðalsteinsson, málarameistari hjá Litagleði.
Sigríður Magnúsdóttir, arkitekt hjá Teiknistofunni Tröð.