Fréttasafn3. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Fjölþætt umbrot sem snerta íslenskan iðnað

Árni Sigurjónsson, formaður SI, sendi á félagsmenn Samtaka iðnaðarins nýárskveðju sem fer hér á eftir:

Kæru félagar,

Fyrir hönd stjórnar og starfsfólks Samtaka iðnaðarins óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka ánægjulegt og árangursríkt samstarf á liðnum árum.

Það er sennilega vonlaust verk að kjarna árið 2023 með einföldum hætti, enda viðburðaríkt og merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í mínum huga einkenndist það þó einna helst af umbrotum í efnahagsmálum, alþjóðamálum og íslenskri náttúru. Þessi fjölþættu umbrot hafa beint og óbeint snert íslenskan iðnað og atvinnulíf almennt.

Efnahagsmál og vinnumarkaður

Glíman við verðbólguna, hátt vaxtastig og almennt efnahagslegt ójafnvægi hefur tekið sinn toll, bæði hjá atvinnurekendum og launþegum. Gerð skammtímasamninga á vinnumarkaði í upphafi síðasta árs hafði því miður ekki tilætluð áhrif um aukinn stöðugleika og lækkun stýrivaxta. Þar spiluðu óhagstæðar ytri aðstæður einnig inn í sem framlengdu tímabil vaxtahækkana og afleiðingar efnahagsaðgerða á heimsvísu í heimsfaraldri hafa verið langdregnari og áhrifameiri á íslenskt efnahagslíf en margir hugðu.

Nú í ársbyrjun 2024 hyllir undir langþráðan viðsnúning hvað þessi mál varðar en staðan er óneitanlega viðkvæm og lítið má út af bregða. Ánægjulegur og lofandi samhljómur er á milli atvinnurekenda og breiðfylkingu stéttar­félaga á almenna vinnumarkaðnum um að stefna að gerð langtímakjarasamninga á næstu vikum. Sameiginlegt markmið er að auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu og vinna gegn verðbólgu og háu vaxtastigi. Dag skal að kveldi lofa, en takist okkur ætlunarverkið á slíkum grunni, yrðu slíkir samningar vafalítið grundvöllur þess að verja lífskjör landsmanna og fjárfestingu í nauðsynlegri umbreytingu og framþróun. Einnig skiptir máli að mögulegar aðgerðir hins opinbera til að liðka fyrir gerð kjarasamninga hafi ekki í för með sér auknar álögur á atvinnulíf í formi skatta eða gjalda, sem eru íþyngjandi fyrir.

Það er mikilvægt að undirstrika að íslenskur iðnaður er ein af undirstöðum íslensks efnahagslífs og þrátt fyrir margvíslegar áskoranir undanfarin ár hefur sjaldan eða aldrei staðið styrkari fótum en um þessar mundir. Iðnaður skapar einn og sér ríflega fjórðung landsframleiðslunnar og stærstu vaxtartækifærin eru í iðnaði. Sá mikli árangur sem hefur náðst í okkar atvinnugreinum í óróa og óvissu síðustu ára kennir okkur að við getum aðlagað okkur vel að slíku ástandi.

Á íslenskum vinnumarkaði eru nú tæplega 50 þúsund launþegar starfandi í fjölbreyttum iðnaði, eða einn af hverjum fjórum, og iðnaðurinn skilar um 44% útflutningstekna af fjölbreyttri starfsemi á sviði framleiðslu-, hugverka- og byggingariðnaðar. Þessar tölur undirstrika umfang og mikilvægi iðnaðarins í gangverki hagkerfisins og góð niðurstaða í komandi kjaralotu sem leiðir til efnahagslegs stöðugleika er því brýn.

Blikur á lofti í alþjóðamálum

Skuggi hernaðarátaka og vígbúnaðar hvílir þungt á heimsbyggðinni um þessar mundir. Grunnt er á því góða milli stórvelda og landfræðilega pólitísk spenna hefur sömuleiðis magnast hratt á liðnum árum. Slík staða skapar óstöðugleika í heimsbúskapnum og hefur áhrif á íslenska hagkerfið sem er háð innflutningi af ýmsum toga og stöðugum útflutningstekjum. Ísland er landfræðilega einangrað og lífsgæði landsmanna byggja því á frjálsum viðskiptum við önnur lönd.

Uppgangur þjóðernisöfga og popúlistískra afla í Evrópu eykst og útbreiðsla þeirra er hröð, sem eru ógnvænleg tíðindi. Á sama tíma á Evrópusambandið, okkar mikilvægasta markaðssvæði útflutnings, í margháttuðum erfiðleikum og aukinnar ósamstöðu gætir meðal aðildarríkjanna í mikilvægum málum. Samkeppnishæfni iðnaðar í Evrópu hefur á undanförnum árum átt verulega undir högg að sækja í samkeppni við Bandaríkin og Kína, og er nú svo komið að samdráttur er í ýmsum geirum iðnaðar í álfunni. Er meðal annars um að kenna óhóflegu regluverki og letjandi skattkerfum. Þetta er þróun sem þarf að snúa við ef efla á hagvöxt og glæða framfarir og nýsköpun í álfunni á ný.

Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá gildistöku EES-samningsins, sem opnaði okkur aðgang að innri markaði Evrópusambandsins með frjálsu flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns. Þó hægt sé að deila um ýmislegt sem þessu samstarfi hefur fylgt er ávinningurinn af EES-samningnum fyrir okkur Íslendinga ótvíræður og mikilvægt að standa áfram vörð um tilvist hans og eðlilega þróun, hvað sem líður umbrotum í evrópskum stjórnmálum.    

Óblíð náttúruöfl, húsnæðismál og orkuskortur

Jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesi eru tíð um þessar mundir, sem ógna byggðarlögum og mikilvægum innviðum eins og við fengum að reyna í lok ársins 2023. Skriðuföll og snjóflóð eru sömuleiðis tíð, að líkindum vegna breytinga á veður- og tíðarfari.

Þessi staða kallar á nýja nálgun í áhættumati náttúruvár og viðhaldi og uppbyggingu innviða. Íslenskur iðnaður hefur látið myndarlega til sín taka í þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í vegna þessa, m.a. við gerð varnargarða af ýmsu tagi víða um land og nú síðast í Svartsengi og Grindavík. Þar hafa hendur verið látnar standa fram úr ermum og stjórnvöld tekið erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir með atbeina Alþingis og vikið til hliðar regluverki sem hefði tafið aðgerðir um mánuði eða ár.

Þá beinir þessi erfiða staða frekara kastljósi að stöðu húsnæðismála og þeim skorti sem er til staðar á nýju íbúðarhúsnæði í landinu, sem er eitthvað sem Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á mörg undanfarin ár. Stór og jákvæð skref hafa verið tekin í rétta átt til úrbóta í húsnæðismálum í góðu samstarfi ríkis og iðnaðar en betur má ef duga skal hjá sveitarfélögunum til að koma aðgerðum á fulla ferð. Vænti ég að mikilvægum áföngum verði náð hvað þetta varðar á árinu.

Enn brýnna og alvarlegra mál er sú staða sem komin er upp í orkumálum þjóðarinnar eftir kyrrstöðu um árabil. Telja má víst að á liðnu ári hafi stjórnvöld og almenningur loksins vaknað til vitundar um þá ógnvænlegu stöðu sem komin er upp í orkuöflun í landinu. Evrópa er búin að ganga í gegnum orkukreppu og orkuskort allt frá innrás Rússa í Úkraínu en það var engin haldbær ástæða fyrir því að Ísland þyrfti að ganga í gegnum slíkt hið sama. Möguleg umbrot í Svartsengi og úr sér gengið flutningskerfi raforku á stórum hluta landsins auka enn á þetta neyðarástand.

Þriðja veturinn í röð eru skerðingar á afhendingu raforku og tjónið vegna tapaðra útflutningstekna er mælt í tugum milljarða. Einnig hefur verið bent á að þröng staða í raforkumálum hamlar atvinnuuppbyggingu um allt land. Í stað þess að ráðast að rótum vandans og auka framboð á grænni endurnýjanlegri orku er nú fyrirhugað að fara í kerfi handstýringar, sem SI hafa varað eindregið við. Gæta þarf hagsmuna almennings og atvinnulífs í þessum efnum og tryggja með skynsömum hætti forgang heimila þegar kemur að raforkuöryggi. Vilji og stefna ráðherra orkumála er skýr og afgreiðsla rammaáætlunar á Alþingi á árinu var mikilvægt skref, en stjórnkerfið virðist ekki svara kallinu.

Við Íslendingar erum í einstakri stöðu að skapa ný atvinnutækifæri og ný störf, ekki síst í hugverkaiðnaði og á grunni hinna grænu umbreytinga, sem myndu stuðla að bættum lífskjörum og velferð þjóðarinnar allrar. Við eigum gnægð náttúruauðlinda sem við höfum nýtt á sjálfbæran hátt í áratugi. Sú staðreynd setur okkur í ákjósanlega og eftirsóknarverða stöðu, til að mynda þegar kemur að öflun nýrrar orku til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta á Íslandi og nýrra tækifæra í iðnaði. Þau mál þola enga bið.

Í fararbroddi í 30 ár

Við sameiningu sex helstu félaga og samtaka iðnaðar; Félags íslenskra iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna, Félags íslenska prentiðnaðarins, Verktakasambands Íslands, Sambands málm- og skipasmiðja og Meistara- og verktakasambands byggingamanna, á haustmánuðum 1993 tóku Samtök iðnaðarins formlega til starfa í ársbyrjun 1994. Við fögnum því 30 ára afmæli Samtaka iðnaðarins í ár með margvíslegum hætti.

Ný heildarsamtök iðnaðarins var stórt og mikilvægt skref í framþróun atvinnugreinarinnar hér á landi. Fram að því, hafði helstu verkefnum og hagsmunamálum iðnrekenda og iðnaðarmanna verið sinnt á víð og dreif og eðlilega gekk misjafnlega að ná árangri í helstu stefnumálum iðnaðar og undirgreina hans. Við sameininguna var sett á oddinn að Samtök iðnaðarins töluðu einni röddu, en það hafði veikt stöðu iðnaðarins gagnvart stjórnvöldum að vera ekki samstíga, þó ekki væri ágreiningur um lykilmálin. Höfuðmarkmið hinna nýju samtaka var að auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu, vinna að bættum starfsskilyrðum, hvetja til hagkvæmni í rekstri og leggja áherslu á markvissa vöruþróun, markaðs­starfsemi og menntamál.

Enn þann dag í dag, 30 árum síðar, er þetta að meginstefnu til, kjarninn í starfsemi Samtaka iðnaðarins. Með árunum hafa fleiri samtök, meistarafélög og iðnfyrirtæki gengið til liðs við Samtök iðnaðarins og innan þeirra eru nú um 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Stefna og skipulag samtakanna hefur þó reglulega tekið breytingum í takt við þróun í atvinnu- og efnahagslífi, því annars er hætt við að starfsemin þjónaði ekki lengur hlutverki sínu. Í hverjum mánuði bætast við nýir félagsmenn og aðrir kjósa að stíga frá borði af margvíslegum ástæðum. Iðnaðurinn er afar kvik og víðfem grein og fjölbreytileiki hans er raunar mikill styrkur fyrir hagkerfið.

Fjöldi og fjölbreytni félagsmanna okkar gefur samtökunum okkar mikinn styrk en um leið er það áskorun að standa vörð um hagsmuni sem kunna að vera ólíkir. Í öllu starfi samtakanna er lögð áhersla á það sem er sameiginlegt, um leið og tekið er tillit til sértækari mála einstakra aðildarfyrirtækja. Markmið okkar er að gera ávallt betur í dag en í gær. Samtök iðnaðarins eru og verða hreyfiafl og málsvari iðnaðar á Íslandi.

Ég ítreka óskir mínar um farsæld, gæfu og gleði ykkur til handa á árinu sem við hefjum nú og hlakka til að efla áfram samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í þágu samfélagsins alls í góðu samstarfi við ykkur.

Með góðri kveðju,

Árni Sigurjónsson.