Fréttasafn2. des. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Fjórða stoðin er hugverkaiðnaður sem hefur skotið rótum

Í nýrri greiningu SI sem nefnist Fjórða stoðin: Hugverkaiðnaður kemur fram að ný stoð hafi skotið rótum í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins því gjaldeyristekjur hugverkaiðnaðarins séu orðnar umtalsverðar. Um sé að ræða grein fyrirtækja í upplýsinga- og fjarskiptaiðnaði, lyfja-, líftækni- og heilbrigðisiðnaði og öðrum hátækniiðnaði. Greinin sé byggð á hugviti og nýsköpun og ljóst að mikil tækifæri séu í greininni til frekari vaxtar.

Í greiningunni kemur fram að aukin fjölbreytni og fleiri stoðir geri hagkerfið minna háð gengi í einstökum atvinnugreinum og þannig sé dregið úr sveiflum. Þess vegna sé eftirsóknarvert að fjölga stoðunum en áður var gjaldeyrisöflun þjóðarinnar að mestu borin uppi af sjávarútvegi. Þrátt fyrir sveiflur og að mörgu leyti óhagstæð efnahagsleg skilyrði hér á landi tókst að fjölga stoðunum, fyrst með uppbyggingu orkusækins iðnaðar og síðan með vexti í ferðaþjónustu. Hingað til hafi því gjarnan verið talað um þrjár stoðir og svo annan útflutning en rétt sé að tala um fjórar stoðir auk annars.

Vöxtur í gjaldeyristekjum hugverkaiðnaðar undanfarið gefur vonir um að þessi fjórða stoð gjaldeyrisöflunar muni vaxa enn frekar þegar fram í sækir. Nýleg þróun í heimsfaraldri kórónuveiru og áhrif hennar á íslenskt efnahagslíf undirstrikar þörfina fyrir að fjölga eggjunum í hinni íslensku efnahagslegu körfu en hagkerfið var orðið mjög háð ferðaþjónustu fyrir tíma veirunnar. Þörf er á enn frekari vexti í fjórðu stoðinni, hugverkaiðnaði, til að tryggja aukna efnahagslega velmegun hér á landi.

Fjorda-stodin-Mynd-1

 

Í greiningunni kemur þetta meðal annars fram:

· Fjórða stoð gjaldeyrisöflunar þjóðarbúsins hefur myndast. Um er að ræða sterka stoð hugverkaiðnaðar sem í fyrra skapaði 135 ma.kr. gjaldeyristekjur eða 10% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. Umfang greinarinnar myndar grunn aukins stöðugleika og hagvaxtar litið til framtíðar.

· Gjaldeyrisöflun hugverkaiðnaðar hefur aldrei verið meiri en á síðasta ári. Mikill vöxtur hefur verið í gjaldeyristekjum greinarinnar á síðustu árum sem sýnir að mikil tækifæri eru á þessu sviði til að fjölga störfum og auka velmegun hér á landi. Gjaldeyristekjur greinarinnar námu 78 ma.kr. árið 2013 og hafa því aukist um 74% frá þeim tíma á föstu gengi. Hlutdeild greinarinnar í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur hækkað á sama tíma en hún mældist 7,4% árið 2013.

· Reikna má með því að gjaldeyristekjur greinarinnar hafi aukist enn frekar í ár og að umfang hennar í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hafi aldrei verið meiri. Byggir það m.a. á tölum um gjaldeyristekjur á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins. Reikna má með því að heildar gjaldeyristekjur greinarinnar í ár nemi 140 mö.kr. og að hlutdeild greinarinnar í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins verði 14,8%. Verður greinin líklega sú þriðja stærsta í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins í ár á eftir sjávarútvegi og ál- og kísiljárnframleiðslu.

· Umtalsverð tækifæri eru í hugvitsdrifinni gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Þróun í gjaldeyrissköpun greinarinnar síðustu ár sýnir það. Samkeppnishæfni hugverkaiðnaðar hefur batnað undanfarið, m.a. vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar hér á landi. Líkur eru á að framundan sé góður vöxtur í þessari grein.

· Framleiðni er há í hugverkaiðnaði. Greinin skapar jafnframt hálaunastörf, en laun í hugverkaiðnaði eru hærri en almennt gerist í hagkerfinu.

Fjorda-stodin-Mynd-2


Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni.