Fréttasafn



29. sep. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Starfsumhverfi

Fjötrar á atvinnulífið að mestu heimatilbúnir

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir  í viðtali Gísla Freys Valdórssonar í ViðskiptaMogganum að þeir fjötrar sem lagðir séu á íslenskt atvinnulíf séu að mestu heimatilbúnir. Það ætti þó að auðvelda hinu opinbera að einfalda regluverk og gera starfsumhverfi fyrirtækja einfaldara, skilvirkara, hagkvæmara og stöðugra. Í viðtalinu ræðir Gísli Freyr við Sigurð um nýja skýrslu SI þar sem lagðar eru fram 26 umbótatillögur til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja. 

„Það er hægt að leysa mikla krafta úr læðingi með því að gera starfsumhverfi fyrirtækja einfaldara, skilvirkara, hagkvæmara og stöðugra. Þessi skýrsla verður til eftir samtal við grasrótina, sem eru iðnfyrirtæki af öllum stærðum og gerðum innan Samtaka iðnaðarins. Starfsemi þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem eru innan samtakanna er vissulega ólík en þegar kemur að starfsumhverfi þeirra, regluverki hér á landi og samskiptum við hið opinbera eiga þau fjölmargt sameiginlegt og því er hægt að tilgreina þau atriði sem betur má fara – líkt og við gerum í þessari skýrslu.“ Sigurður nefnir í viðtalinu að iðnaðurinn sé tilbúinn til að leysa stór verkefni, til dæmis verkefni sem snúa að grænu iðnbyltingunni. „Með umbótum í starfsumhverfinu skapast aðstæður fyrir nýsköpun og auknar fjárfestingar, sem er einmitt það sem þarf til að metnaðarfull markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland verði að veruleika,“ segir hann og bætir við að samhliða því sé horft til þess með útgáfu skýrslunnar – og þeirri vinnu sem vonandi fylgir á eftir – að auka verðmætasköpun í samfélaginu.

Með því að einfalda kerfið er ýtt undir stöðugra og betra umhverfi

Sigurður segir í viðtalinu að horfa þurfi til stærri myndar þegar rætt sé um þessi mál og nefnir sem dæmi hvernig stefnumótun sé framkvæmd, hvernig lagaumhverfi sé uppsett, hvernig leyfisveitingum sé háttað, hvernig gjaldtöku og skattheimtu sé háttað og svo framvegis. „Það er töluvert fjallað um stöðugleika í skýrslunni en hann er mjög mikilvægur í þessu. Í stöðugu umhverfi verða meiri fjárfestingar og það gerir fyrirtækjum þá kleift að gera áætlanir fram í tímann. Þannig verða til fleiri störf og aukin verðmæti. Það hefur margt áunnist á síðustu árum í þeim efnum en það er verðugt verkefni til lengri tíma að viðhalda stöðugleika og byggja enn frekar undir hann. Þess vegna er mjög áhugavert að sjá hvernig stefnumörkun stjórnvalda og umbætur geta haft áhrif. Með því að ráðast í umbætur og einfalda kerfi var lagður grunnur að því að hugverkaiðnaður gat vaxið gífurlega og orðið útflutningsstoð – sem hann er orðinn. Þetta er gott dæmi um raunverulegar umbætur sem skila árangri. Það var gagnrýnt mjög að Nýsköpunarmiðstöð var lögð niður og verkefni hennar færð annað. Þetta var þó dæmi um einföldun á kerfinu í heild sinni sem með öðrum aðgerðum stjórnvalda hjálpaði til í stóra samhenginu og ýtti undir stöðugra og betra umhverfi fyrir nýsköpun í landinu.“ Sigurður segir að huga mætti að frekari hagræðingu í ríkisrekstrinum og fækkun stofnana í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari. Hann nefnir sem dæmi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem til varð með sameiningu tveggja stofnana og hefur bætt það umhverfi sem hún starfar í til muna. 

Morgunblaðið / mbl.is, 28. september 2022.

Rás 2

Einnig er rætt við Sigurð í síðdegisútvarpi Rásar 2 um skýrsluna.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið.

Rás 2, 28. september 2022.

VidskiptaMogginn-28-09-2022