Fréttasafn19. okt. 2018 Almennar fréttir Menntun

Fleiri treysta sér í að vera forseti en múrari

Í nýjasta tölublaði Fiskifrétta er viðtal Guðjóns Guðmundssonar við Ingibjörgu Ösp Stefánsdóttur, sviðsstjóra mennta- og mannauðsmála hjá SI, um nýja menntastefnu samtakanna þar sem áhersla er lögð á nauðsyn þess að efla iðnnám hér á landi. Ingibjörg Ösp segir það áhugaverða tölfræði sem endurspegli íslenskt samfélag á einhvern hátt að fleiri treysti sér til þess að bjóða sig fram til forseta Íslands en kjósa að læra múrverk.

Í viðtalinu við Ingibjörgu kemur fram að grundvallarmarkmiðið sem unnið hefur verið að innan samtakanna er að fjölga iðnmenntuðum á vinnumarkaði og fyrirtæki innan samtakanna hafa bent á að skortur á iðnaðarmönnum standi framþróun fyrirtækjanna fyrir þrifum. „Við höfum skoðað það sem við höfum nefnt kerfislægan vanda iðnmenntunar sem felst í stjórnsýslunni í kringum starfsmenntun og hvernig grunnskólanemendum er falið það verkefni að finna sínar námsleiðir jafnvel of snemma og án mikillar snertingar við atvinnulífið. Við höfum líka velt upp þeirri ímynd sem er á iðnstörfum og námsleiðum sem þeim tengjast. Við erum talsvert á eftir nágrannaþjóðum okkar hvað varðar hlutfall þeirra sem velja starfsnámsleið á móti bóknámi. Nýju atriðin í stefnunni felast meðal annars í því að ráðast að rót vandans sem margir vilja meina að liggi í grunnskólunum. Í allt of mörgum tilfellum fylgja skólarnir til að mynda ekki uppgefinni viðmiðunarstundaskrá í list- og verkgreinum. Áherslan á bóknámið er það mikil að nemendur fá hvorki kynningu né tækifæri til að snerta á verkgreinum. Ef við höfum efasemdir um að þetta geti skipt máli getum við ímyndað okkur hvernig það gengi að sannfæra börnin okkar um að það væri gaman að fara út að hjóla og kenna þeim hjólreiðar með bókinni. Það gengur náttúrlega ekki. Börnin verða að fá að snerta á hlutunum. “

Fiskifréttir, 18. október 2018. 

Fiskifrettir-18-10-2018