Fréttasafn2. feb. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Flestar einkaleyfisumsóknir á sviði lífvísinda frá Össuri

63% allra einkaleyfisumsókna íslenskra lífvísindafyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarin 11 ár eru frá Össuri sem er aðildarfyrirtæki SI. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hugverkastofunnar um einkaleyfisumsóknir íslenskra lífvísindafyrirtækja sem kynnt var á málefnafundi Heilsutækniklasans í morgun.

Í tilkynningu segir að niðurstöður skýrslunnar sýni að ef litið sé vítt yfir sviðið standa íslensk lífvísindafyrirtæki sig vel við vernd uppfinninga með einkaleyfisumsóknum á alþjóðavettvangi. Fjöldi erlendra umsókna íslenskra fyrirtækja hafi haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár en þó séu vísbendingar um að þeim fari frekar fækkandi en hitt. Ef rýnt er betur í gögnin komi þó í ljós að góð staða Íslands sé fyrst og fremst til komin vegna fjölda umsókna frá einu fyrirtæki, Össuri. Ef horft er til fjölda einkaleyfisumsókna innan annarra geira en heilbrigðistækni, þ.e. lyfjageirans, líftækni og matvælafræði, séu frekar fáar umsóknir frá Íslandi miðað við samanburðarlöndin. Niðurstöðurnar gefi því vísbendingar um að íslensk lífvísindafyrirtæki þurfi að huga betur að einkaleyfavernd og að tækifæri sé til sóknar á sviði lífvísinda almennt hér á landi. Þó beri að setja þann fyrirvara að hér á landi starfi öflug lífvísindafyrirtæki sem eðlis starfsemi sinnar vegna sæki ekki mikið um einkaleyfi.

Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um fjölda íslenskra einkaleyfisumsókna á sviði lífvísinda til Evrópsku einkaleyfastofunnar EPO og Bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjastofunnar USPTO 2010-2021. Skoðaðar eru umsóknir frá fyrirtækjum í lyfjageiranum, líftækni, heilbrigðistækni og matvælafræði og fjöldi umsókna borinn saman við fjölda umsókna frá dönskum, norskum, sænskum, þýskum, svissneskum, bandarískum og kínverskum fyrirtækjum í sömu geirum. Skýrslan er gerð að fyrirmynd danskrar skýrslu sem gefin var út af dönsku hugverkastofunni 2020.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.