Fréttasafn12. apr. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Flestar íbúðir í byggingu eru í miðbæ Reykjavíkur

„Það eru fyrst og fremst pólitískar áherslur sem leiða fram þessa niðurstöðu. Það sýnir vel þennan markaðsbrest að af um 5 þúsund íbúðum sem eru í byggingu á höfuðborgarsvæðinu skuli um þúsund íbúðir vera í byggingu í 101 Reykjavík. Það eru næstum því jafn margar íbúðir í byggingu í póstnúmerinu og í öllum Kópavogi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu í dag þar sem Baldur Arnarson, blaðamaður, skrifar um íbúðamarkaðinn og vitnar meðal annars til greiningar sem SI hefur gert á fjölda íbúða í byggingu sem leiðir í ljós að hlutfallslega fáar íbúðir séu í byggingu á ódýrari svæðum. Sigurður segir að meðan spurnin sé mest eftir ódýrari íbúðum sé markaðurinn að byggja flestar íbúðanna á dýrari svæðum sem endurspeglist í verði. 

Fyrst og fremst þörf fyrir hagkvæmar íbúðir

Sigurður segir skekkjuna vera birtingarmynd þeirrar áherslu sveitarfélaganna, einkum Reykjavíkur, að þétta byggðina, sú uppbygging sé tímafrek og dýrari og útkoman sé viss markaðsbrestur. „Það er fyrst og fremst þörf fyrir hagkvæmar íbúðir. Það hefur verið bent á að það þarf íbúðir fyrir yngra fólk sem er að koma inn á markaðinn og fyrir tekjulága og eignalága einstaklinga. Og síðan minni íbúðir fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig. Ég fæ ekki séð að þessi þörf birtist í íbúðum í byggingu í Reykjavík. Það var stofnaður átakshópur um húsnæðis- og byggingarmarkaðinn af aðilum vinnumarkaðarins, stjórnvöldum og sveitarfélögum. Ég sakna þess mjög að sjá ekki meira frá sveitarfélögunum og heyra hvernig þau ætla að leysa þennan vanda. Þótt vissulega sé hluti nýrra íbúða hagkvæmar íbúðir get ég ekki séð að þessar tölur beini okkur í átt að lausn. Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvað er byggt og hvar.“

Áherslan á að vera á framboðshliðina

Í fréttinni er Sigurður spurður um eina af tillögum starfshóps um að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað með eiginfjárlánum ríkisins sem geti numið 15-30% af kaupverði. Sigurður segir slíka styrki geta leitt til hagstjórnarmistaka með því að ýta undir eftirspurnina, samtímis því sem hagkvæmar íbúðir skorti og að starfshópurinn einblíni á eftirspurnarhliðina en áherslan eigi með réttu að vera á framboðshliðina. „Þetta er röng forgangsröðun. Þótt fólki sé hjálpað að kaupa íbúðir er grunnvandinn sá að það vantar íbúðir. Hvaða íbúðir á fólk að kaupa fyrir alla þessa styrki? Þeir breyta því ekki að það þarf að byggja miklu meira af hagkvæmum íbúðum. Það stendur upp úr í niðurstöðum átakshópsins sem skilaði tillögum í janúar.“ 

Neðangreind mynd sem sýnir fjölda íbúða í byggingu eftir póstnúmerum birtist í Morgunblaðinu: 

MBL-Fjoldi-ibuda-i-byggingu-a-hofurborgarsvaedinu

Morgunblaðið / mbl.is, 12. apríl 2019. 

Kjarninn, 12. apríl 2019.