Fréttasafn



2. mar. 2017 Almennar fréttir

Flutningur á raforku getur verið hamlandi fyrir uppbyggingu

Í Viðskiptablaðinu í dag er viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, um komandi Iðnþing, sem haldið verður 9. mars næstkomandi. Ásdís Auðunsdóttir, blaðamaður, ræðir við Guðrúnu: „Á Iðnþinginu í ár verður kastljósinu beint sérstaklega að innviðum landsins enda eru góðir innviðir lífæð samfélagsins og lykillinn að því að hér geti þrifist bæði blómlegt mannlíf og atvinnulíf. Við munum leggja áherslu á málfundi um samgöngur og uppbyggingu auk þess að fjalla um raforku og nýjar útfærslur í orkuframleiðslu á borð við sólarorku, orkugjafa úr metani eða hvað sem er annað,“ segir Guðrún. 

Ennfremur kemur þetta fram: Að sögn Guðrúnar hefur meira starf verið unnið á þessu sviði en fólk heldur. „Já,það er verið að vinna miklu meiri vinnu en við gerum okkur grein fyrir. Ég finn það stundum að margir eru þeirrar skoðunar að í iðnaðnum sé ekki áhugi fyrir umhverfismálum en raunveruleikinn er allt annar. Við sjáum það í skoðanakönnunum sem við leggjum fyrir félagsmenn okkar að sérstaklega, eru alltaf að skora mun hærra en þær gerðu fyrir fimm til tíu árum síðan. Ég held m.a. að Parísarsáttmálinn hafi þar haft heilmikil áhrif og að öll ábyrg fyrirtæki geri sér grein fyrir því að hér er á ferðinni málaflokkur sem ekki er hægt að líta framhjá lengur.“ 

Þrátt fyrir að almenn umræða sé gjarnan á þá leið að fyrirtæki í landinu hugi ekki nægilega að umhverfinu og raforkusparnaði segir Guðrún svo ekki vera. „Iðnaðurinn þarfnast nær allur raforku og fyrirtækin eru mjög mikið að velta því fyrir sér hvernig best er farið með þau mál. Ég reyni að vera dugleg að heimsækja fyrirtæki hringinn í kringum landið og á ferðalögum mínum hef ég fengið að kynnast því hversu mikill flöskuháls flutningur raforku getur verið og hversu hamlandi hann getur verið fyrir uppbyggingu á ákveðnum svæðum á landinu. Auk þess eru nánast öll fyrirtæki að velta fyrir sér orkusparnaði og endurnýjun á tækjabúnaði með það fyrir augum að ná fram sparnaði í raforkueyðslu og þar fram eftir götunum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir að lokum.

Viðskiptablaðið, 2. mars 2017.