Fréttasafn



1. feb. 2021 Almennar fréttir

Flýta þarf innviðaframkvæmdum með þátttöku einkafjárfesta

Árni Sigurjónsson, formaður SI, segir í rafrænu bréfi til félagsmanna Samtaka iðnaðarins það vera óskandi að þau verkefni sem kynnt voru á Útboðsþingi SI í liðinni viku komist öll á rekspöl fljótt og vel. „Við köllum jafnframt eftir viðbótarverkefnum, til að mynda framkvæmdum sem fyrirhugað er að ráðast í gegnum samstarfsverkefni hins opinbera og einkageirans, eða svokölluð PPP verkefni.“ Hann segir samgönguráðherra hafa þegar gefið tóninn hvað þetta varðar sem sé afar gleðilegt. Til að flýta verkefnum enn frekar þurfi markvisst að hvetja til og opna fyrir þátttöku einkafjárfesta, til að mynda lífeyrissjóða og sérhæfðra innviðasjóða, inn í arðbærar innviðaframkvæmdir og koma fjármagni þeirra sem fyrst í vinnu, öllum hlutaðeigandi til heilla.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa bréf formannsins í heild sinni:

Eins og nærri mátti geta fer árið 2021 af stað með krafti hjá Samtökum iðnaðarins. Sem fyrr langar mig með nokkrum orðum til ykkar að stikla á stóru í starfseminni síðustu vikur og því helsta sem framundan er.

Útboðsþing – mikil uppsöfnuð þörf fyrir innviðaframkvæmdir

Af viðburðum janúarmánaðar ber að líkindum einna hæst Útboðsþing sem haldið var í síðustu viku í samstarfi við Mannvirki - félag verktaka og Félag vinnuvélaeigenda. Þingið, sem fór að þessu sinni fram stafrænt sökum samkomutakmarkana, hefur verið árviss viðburður frá árinu 1997 en þar voru kynntar áformaðar fjárfestingar og verklegar framkvæmdir á vegum stærstu aðilanna á opinberum markaði. Að þessu sinni kynntu fulltrúar 11 opinberra aðila framkvæmdaáætlanir sem samtals nema 139 milljörðum króna, sem er 7,4 milljarði meira en kynnt var á Útboðsþingi SI fyrir ári síðan. Boðaðar framkvæmdir segja þó ekki alla söguna hvað varðar framkvæmdir á árinu.

Þetta sést glöggt þegar rýnt er í uppgjör framkvæmda liðins árs, en heildarverðmæti þeirra var um 29% lægra en boðað var á Útboðsþingi SI í upphafi árs 2020. Vóg þar þungt að framkvæmdir Isavia voru ekki nema tæpar 200 milljónir króna í fyrra samanborið við framkvæmdaáætlun upp á 21 milljarð króna. Eins og nærri má geta, hafði heimsfaraldur kórónuveiru þar augljóslega mikil áhrif. Þá var verðmæti framkvæmda Vegagerðarinnar á síðasta ári 7,6 milljörðum króna lægra en boðað hafði verið á Útboðsþingi SI 2020.

Þetta eru óneitanlega vonbrigði, einkum á tímum mikils samdráttar í efnahagslífinu. Mikil uppsöfnuð þörf er fyrir innviðaframkvæmdir víða og henta því verklegar framkvæmdir hins opinbera vel til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu og störf, sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda um þessar mundir. Við þreytumst ekki á að minna á að fjárfesting í dag sé hagvöxtur á morgun og þar spila innviðir landsins lykilhlutverk.

Við þurfum því áfram markvissar og varanlegar aðgerðir í efnahagsmálum, sem duga til lengri tíma og leggja grunninn að sterkara efnahagslífi, svo okkur verði unnt að vinna okkur hratt og vel út úr kreppunni. Það er óskandi að þau verkefni sem kynnt voru í liðinni viku komist öll á rekspöl fljótt og vel og við köllum jafnframt eftir viðbótarverkefnum, til að mynda framkvæmdum sem fyrirhugað er að ráðast í gegnum samstarfsverkefni hins opinbera og einkageirans, eða svokölluð PPP verkefni. Samgönguráðherra hefur þegar gefið tóninn hvað þetta varðar sem er afar gleðilegt. Til að flýta verkefnum enn frekar þarf markvisst að hvetja til og opna fyrir þátttöku einkafjárfesta, til að mynda lífeyrissjóða og sérhæfðra innviðasjóða, inn í arðbærar innviðaframkvæmdir og koma fjármagni þeirra sem fyrst í vinnu, öllum hlutaðeigandi til heilla.

Leikjaiðnaður í mikilli sókn

Þá stóðu Samtök leikjaframleiðenda (IGI) í síðustu viku fyrir afar áhugaverðum opnum rafrænum fundi um framtíðarhorfur og tækifæri í tengslum við uppbyggingu tölvuleikjaiðnaðar hér á landi. Óhætt er að segja að íslenskur tölvuleikjaiðnaður sé í mikilli sókn og fjárfesting í iðnaðinum að aukast töluvert milli ára en sex íslensk sprotafyrirtæki í leikjaiðnaðinum fengu nýja fagfjárfestingu á árinu frá bæði innlendum og alþjóðlegum fjárfestum. Mikil tækifæri eru til aukins vaxtar hérlendis í leikjaiðnaðinum sem býr til verðmæt störf og stöðugt auknar gjaldeyristekjur. Því er brýnt að stíga áfram stór skref í átt að bættu starfsumhverfi hugverkaiðnaðar og nýsköpunar.

Af vettvangi stjórnar – raforkumál og Iðnþing

Stjórn Samtaka iðnaðarins fjallaði sérstaklega um raforkumál á fundi sínum í janúar, en margt hefur breyst til betri vegar í umhverfi raforkumála á undanförnum árum, ekki síst frá útgáfu raforkuskýrslu SI í árslok 2019. Orkumálin eru í stöðugri skoðun af okkar hálfu og í liðnum mánuði var birt skýrsla um forsendur tekjumarka og gjaldtöku innlendra dreifiveitna á raforku sem ráðgjafafyrirtækið Analytica vann fyrir Samtök iðnaðarins. Að okkar mati er þessi úttekt mikilvægt gagn í alla opinbera umræðu um virðiskeðju raforku og samkeppnishæfni íslensks raforkumarkaðar í alþjóðlegu samhengi. Höfum við komið skýrslunni á framfæri við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Orkustofnun þar sem skorað er á þessa aðila að bregðast við þeim ábendingum og tillögum sem þar koma fram.

Þá fjallaði stjórn um fyrirhugað Iðnþing sem fer fram þann 4. mars nk. Sem fyrr verður vandað til verka og dagskrá vafalítið áhugaverð, en hún verður nánar kynnt fljótlega. Í tengslum við Iðnþing fer fram aðalfundur Samtaka iðnaðarins þar sem m.a. verður gerð grein fyrir rekstri liðins árs og kosningu lýst um fjögur stjórnarsæti. Kjörgengir eru einstaklingar sem eiga aðild að SI og þeir sem sinna daglegum stjórnunarstörfum eða sitja í stjórn hjá félagsaðila. Þegar hefur verið auglýst eftir framboðum en þau verða að hafa borist eigi síðar en 5. febrúar nk. til skrifstofu Samtaka iðnaðarins.

Framundan – Kynning Innviðaskýrslu og Menntadagur atvinnulífsins

Af öðrum viðburðum sem eru framundan langar mig sérstaklega að benda ykkur á Menntadag atvinnulífsins undir yfirskriftinni Færni framtíðar, sem fram fer fimmtudaginn 4. febrúar kl. 9.00-10.00 í Sjónvarpi atvinnulífsins. Um miðjan mánuð munum við svo í samstarfi við Félag ráðgjafaverkfræðinga (FRV) gefa út og kynna nýja skýrslu um ástand innviða landsins og framtíðarhorfur. Afar áhugavert verður að bera þessa nýju skýrslu saman við stöðu mála eins og hún blasti við okkur árið 2017, þegar fyrsta innviðaskýrslan kom út og vakti mikla athygli. Engum blöðum var að fletta að innviðir landsins höfðu verið fjársveltir um árabil og skuldum þannig velt yfir á framtíðina. Uppsöfnuð viðhaldsþörf fyrir utan nýframkvæmdir var á þeim tíma metin 372 milljarðar króna, mest í vegakerfinu og flutningskerfi raforku. Stjórnvöld hafa þó tekið verulega við sér og forgangsraðað fjármagni í þágu innviðauppbyggingar en stóra spurningin er hvort nóg er að gert. Ég hvet ykkur eindregið til að fylgjast vel með þessum viðburðum, sem og öðrum á okkar vegum.