Fréttasafn



28. feb. 2017 Almennar fréttir Nýsköpun

Formlegt samstarf til að efla samfélag sprotafyrirtækja

Lykilaðilar í stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja á Norðurlöndunum komu saman á fundi í Kaupmannahöfn í síðustu viku og skrifuðu undir stefnulýsingu sem rammar inn áður óformlegt samstarf. Stefnuyfirlýsingin var samþykkt af hátt í 20 aðilum sem fóstra umhverfi nýsköpunar á Norðurlöndunum, þ.á.m. Icelandic StartupsSlush sem er ein stærsta tækniráðstefna Evrópu, SUP46 frá Stokkhólmi og The Nordic Web sem er ein helsta fréttaveita um fjármögnun og starfsemi sprotafyrirtækja á Norðurlöndunum. Þessu stefnumiðaða samstarfi er ætlað að vera vettvangur fyrir aukna tengslamyndun, miðlun þekkingar, skilgreinda árangursmælikvarða og styrkja enn frekar ásýnd og ímynd norræna tækni- og sprotaumhverfisins á alþjóðavísu.

Undanfarin ár hefur Icelandic Startups unnið markvisst að því að efla samstarf íslenska sprotasamfélagsins við hin Norðurlöndin í því skyni að auka aðgengi að erlendu fjármagni, laða að erlenda sérfræðinga og styðja alþjóðlega sókn sprotafyrirtækja. Undir því flaggi hefur m.a. verið farið með yfir 70 íslensk sprotafyrirtæki til staða á borð við San Francisco, New York, Shanghai og annarra borga sem taldar eru vera mekka frumkvöðlastarfs. 

Hópurinn hefur farið fram undir myllumerkinu #NordicMade frá árinu 2015 eftir að samstarfinu var formlega hrint af stað með bjölluhringingu í OMX Kauphöllinni í New York. Átakinu er ætlað að safna saman á einn stað fréttum af fjármögnun og starfsemi norrænna sprotafyrtækja og vekja athygli alþjóðlegra fjárfesta og fjölmiðla. „Við munum kanna möguleikann á því að ráða einstakling til að stýra sameiginlegri starfsemi okkar og koma á fót sérstakri stjórn skipaðri fulltrúum allra Norðurlandanna,“ segir Neil Murray, stofnandi og ritstjóri The Nordic Web í viðtali við Business Insider Nordic.

Formlegt samstarf miðar m.a. að því að

  • Vekja áhuga erlendra sérfræðinga á að starfa á Norðurlöndunum
  • Bæta aðgengi sprotafyrirtækja að fjármagni
  • Styðja alþjóðlega sókn sprotafyrirtækja
  • Samræma vinnuaðferðir og miðla þekkingu
  • Byggja upp samfélag sprota á Norðurlöndunum undir einum hatti

 

Næsti fundur samstarfsaðilanna verður haldinn 26. apríl í Osló og hefur ákveðnum verkþáttum verið útdeilt á meðal aðila fram að því. Stefnt er að því að þremur sprotafyrirtækjum frá hverju Norðurlandi verði veittur ferðastyrkur á sérstakan #NordicMade viðburði í San Francisco sem ráðgert er að fari fram í byrjun apríl. 

Nánar um NordicMade: NordicMade formalized