Fréttasafn



24. okt. 2017 Almennar fréttir

Frambjóðendur sammála um að einfalda þurfi regluverk

Það eru flestir frambjóðendur flokkanna sammála því að einfalda þurfi regluverk og gera það gagnsærra. Þá voru nánast allir flokkar sammála um að lækka eigi tryggingagjaldið nema Píratar sem hafa ekki gert ráð fyrir breytingum. Þetta kom fram á fundi Samtaka iðnaðarins með fulltrúum flokkanna í Kaldalóni í Hörpu í síðustu viku. Áður en umræður um starfsumhverfi hófust sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, að atvinnulífið vilji eiga gott samstarf við stjórmálin og hann tryði því að það væri gagnkvæmt. „Við viljum leggja okkar af mörkum til þess að bæta samfélagið, leggja fram lausnir við krefjandi úrlausnarefnum og vinna að aukinni samkeppnishæfni Íslands með stjórnvöldum hverju sinni landsmönnum öllum til heilla. Ég vona að flokkarnir allir séu sammála um að auka samkeppnishæfni Íslands þó þá greini um leiðir að því marki.”

Sigurður sagði jafnframt að starfsumhverfi, innviðir, menntun og nýsköpun mynda saman grunn að öflugu atvinnulífi og þá um leið mannlífi um land allt og að umbætur í þessum málaflokkum væru forsendur aukinna lífsgæða og vaxtar.

Aðstæður til að lækka tryggingagjald

Sigurður hóf umræðurnar á því að spyrja Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, Samfylking, hvort hennar flokkur muni einfalda regluverk og draga úr álögum á fyrirtæki? „Já við höfum sett okkur það að það séu aðstæður til þess núna að lækka tryggingagjald til dæmis, ef að það er einhvern tímann. En auðvitað þarf einkaframtak að hafa eðlilegan ramma. Regluverkið þarf þar af leiðandi að vera einfaldara.”

Ekki hækka álögur á fyrirtæki

Katrín Jakobsdóttir, VG, sagði að þegar rætt væri um regluverk þá skipti máli að það sé gagnsætt og skiljanlegt þannig að það þjóni því hlutverki sem því er ætlað að þjóna. „Það er mín reynsla eftir að hafa starfað á Alþingi í 10 ár að þá er mjög margt sem er hægt að einfalda. Regluverk á að vera skýrt og gagnsætt svo við skiljum af hverju reglurnar eru settar því þær eru auðvitað settar til að þjóna atvinnulífinu, almenningi, neytendum og svo framvegi. Hvað varðar álögurnar þá höfum við talað fyrir því að vera ekki að hækka álögur á fyrirtæki og talað fyrir lækkun tryggingagjalds. En við teljum líka mikilvægt að tryggingagjaldið dugi fyrir markmiðinu um lengingu fæðingarorlofs. Við teljum að það sé svigrúm fyrir hvort tveggja.”

Mikil tækifæri að einfalda regluverkið vegna tækniframfara

Helgi Hrafn Gunnarsson, Píratar, sagði að flokkur hans vildi að sjálfsögðu einfalda regluverkið. „Það virðist vera markmið sem allir ættu að vera sammála um. En það er í grundvallaratriðum gott að fólk hafi aðgengi að því hver er tilgangur regluverksins og sömuleiðis að það eigi auðvelt með að koma sér út í rekstur og iðnað án þess að hafa reynsluna fyrir, þá getur regluverkið oft verið fyrir fólki. Það er nauðsynlegt að einfalda það eftir fremsta megni. Það eru líka sérstaklega mikil tækifæri til þess núna, hreinlega vegna tækniframfara. Það er margt sem hægt er að gera öðruvísi heldur en hefur verið gert og við eigum að nýta öll þau tækifæri sem við getum. Hvað varðar tryggingagjaldið sérstaklega við höfum verið þeirra skoðunar að sé það gjald sem eigi að vera í gegnum tollheimtuna. Þetta eru aðrar kosningarnar sem ég man að við vorum spurð út í tryggingagjaldið, sem var 2013. Þá var talað um það að atvinnuleysi hefði minnkað svo og svo mikið og þess vegna eigum við að lækka tryggingagjaldið. En tryggingagjaldið þjónar ákveðnum tilgangi og það er hægt að mæla þann tilgang. Það er hægt að mæla þarfir þess yfir ákveðið tímabil og reikna það út og endurstilla eftir þörfum svo það þurfi ekki að vera pólitískt bitbein.”  

Einn mánaðarlegur gjalddagi í skattkerfinu í staðinn fyrir 300 

Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, var spurður hvort það væri raunhæft að einfalda regluverk? „Já, við eigum einhverjar hillumetra af skýrslum hvernig við getum gert það. Það er dæmigert fyrir stjórmálin við greinum hlutina í drep en framkvæmum aldrei. Það eru mjög einfaldir þættir sem er hægt að taka út tiltölulega hratt, eins og til dæmis að geta snúið leyfisveitingaferli við. Við bönnum í dag allt sem er sérstaklega ekki leyft. Það má einfaldlega snúa þessu við og segja að við gerum ákveðnar kröfur til starfsemi en það þurfi ekki að sækja um leyfi nema það sé þeim mun viðkvæmari starfsemi. Við getum afmarkað verulega leyfisveitingaferlið hjá fyrirtækjum með því að segja einfaldlega, það er nóg fyrir þig að lýsa yfir að þú hafir hafið starfsemi í þessari grein og þú gerir þér grein fyrir hvaða kröfur eru gerðar.” Þorsteinn nefndi einnig skattkerfið. „Við erum með tæplega 300 gjalddaga. Það er búið að greina þetta og það er ekkert vandamál að hafa einn mánaðarlegan gjalddaga í skattkerfinu. Og svo mætti áfram telja.”

Einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja hratt

Bergþór Ólason, Miðflokkurinn, fékk þá spurningu hvað þarf til að koma þessu til framkvæmda? „Ég held að þurfi nú fyrst og fremst skilning á því í stjórnmálunum að þessir hagsmunir atvinnulífsins séu raunverulegir, það skiptir máli. Það er gríðarleg vinna sem fer í þetta hjá fyrirtækjum landsins að halda utan um þessa hluti. Ég held að einfaldleikinn sé eitthvað sem við öll ættum að hafa að markmiði að ná í gegn á næstu misserum. Við sjáum atriði eins og byggingareglugerð sem hefur verið að vinda ofan af í smá skrefum jafnt og þétt undanfarið. En það er ennþá nokkuð í að hún verði þannig að ásættanlegt verði. En meginlínan er sú að við verðum að ganga til þess og við verðum að gera það hratt að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja.”

Vill Miðflokkurinn lækka álögur á atvinnulífið? „Já, við höfum talað fyrir því að lækka tryggingagjaldið og á þeim nótum sem var samið um í janúar 2016. Það er atriði sem við teljum algjört lykilatriði. Tryggingagjaldið hækkaði auðvitað gríðarlega í kjölfar bankahrunsins og staðan er ennþá sú að tryggingagjaldið er hartnær 30% hærra heldur en það var 2007.”

SI2017_2_Starfsumhverfi

Hér er hægt að horfa á myndband sem sýnt var áður en umræðurnar hófust: myndband

Hér er hægt að nálgast upptöku af fundinum í heild sinni:

https://www.youtube.com/watch?v=CpBVsdNft2s#action=share