Fréttasafn



11. feb. 2019 Almennar fréttir

Framboð til stjórnar SI

Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram rafrænar kosningar í tengslum við Iðnþing. Í ár verður kosið um formann og fjögur almenn stjórnarsæti. Hver félagsaðili hefur atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2018 og hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2018. Eigi síðar en hálfum mánuði fyrir Iðnþing sem haldið verður 7. mars verða sendir út atkvæðaseðlar með tölvupósti ásamt leiðbeiningum um tilhögun kosninganna. Sé þess sérstaklega óskað er unnt að senda félagsmanni upplýsingar um kosningu bréflega.

Framboðsfrestur til stjórnar SI og fulltrúaráðs SA rann út 7. febrúar. Bárust alls níu framboð til stjórnar SI en einn frambjóðenda, Eggert Árni Gíslason hjá Síld og fisk, dró framboð sitt til baka. Hér fyrir neðan er kynning á frambjóðendum.

Í kjöri til formanns SI: 

Guðrún Hafsteinsdóttir

Gudrun-Hafsteinsdottir_1549634494128Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss:

Ég er fædd inn í fjölskyldufyrirtækið Kjörís ehf. í Hveragerði sem á þessu ári fagnar 50 ára afmæli sínu. Ég hef setið þar í stjórn í tuttugu og sex ár ásamt því að gegna þar ýmsum stjórnunarstöðum.

Ég var kjörin í stjórn Samtaka iðnaðarins vorið 2011 og kjörin formaður á Iðnþingi árið 2014. Í dag eru ríflega 1400 fyrirtæki sem mynda Samtök iðnaðarins. Þetta eru fyrirtæki úr ólíkum greinum iðnaðar, af öllum stærðum og gerðum, alls staðar á landinu. Oft og tíðum getur verið vandasamt að feta götuna svo öllum líki enda erum við ólík á margan hátt. Það hefur þó sjaldan verið mikilvægara en einmitt nú að við finnum þann sameiginlega þráð sem er í gegnum allan okkar rekstur og gæta hagsmuna allra, jafnt smárra sem stórra fyrirtækja. Víðtækt samráð þarf að eiga sér stað og er mér umhugað um að draga fleiri að starfi samtakanna þannig að allar raddir fái að hljóma.

Ég vil sjá Ísland sem framúrskarandi stað fyrir íslensk fyrirtæki. Að hér á landi geti iðnaður þrifist, vaxið og dafnað í sátt við umhverfi sitt og samfélag. Til að svo geti orðið þarf að standa vörð um hagsmuni íslensks iðnaðar og gæta þess að íslensk fyrirtæki starfi á jafnréttisgrunni óháð staðsetningu og starfsemi.

Síðustu fimm ár hef ég notið trausts félagsmanna SI til að leiða starf samtakanna. Ég er reiðubúin til áframhaldandi starfa fyrir íslenskan iðnað.

Í kjöri til stjórnar SI:

Agnes Ósk Guðjónsdóttir

Agnes-Osk-GudjonsdottirAgnes Ósk Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri GK snyrtistofa:

Ég hef unnið í iðnaði rúmlega 15 ár, þann tíma hef ég einnig sinnt félagstörfum í þágu iðnaðarmanna.

Ég er snyrtifræðingur að mennt með meistararéttindi og eigandi GK snyrtistofu í Mosfellsbæ. Að viðbættri iðnmenntun minni er ég með BA. gráðu í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst og hef brennandi áhuga á menntun og tækifærum í iðnaði fyrir ungt fólk.

Ég sit í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningamálaráðuneytisins þar sem vettvangur breytinga inna menntakerfisins er. Ég sit í stjórn Tækniskólans og stjórn Félags íslenskra snyrtifræðinga þar sem ég hef beina tengingu við grasrót félagsmanna innan SI.

Ég hef verið varamaður síðastliðið ár og þar af leiðandi vil ég bjóða fram krafta mína, þekkingu og vilja til að starfa áfram af heilum hug að baki iðnaðnum í landinu. Ég tel að þekking mín og reynsla úr atvinnulífinu geti áfram nýst Samtökum iðnaðarins vel. Ég álít að í stórum samtökum líkt og SI sé mikilvægt að við stjórnarborðið sitji bæði fulltrúar stærri og minni fyrirtækja og að stjórnin endurspegli þannig þá miklu breidd fyrirtækja og félagsmanna sem sannarlega eru innan SI. Fjölbreytileiki er gríðarlega mikilvægur í hraða nútímans til að ná til sem flestra og því eru áherslur á sókn í menntamálum, nýsköpun og framleiðni nauðsyn til að tryggja áframhaldandi hagvöxt. Með sterkum samtökum höfum við slagkraft til áhrifa fyrir iðnað í landinu, því óska ég eftir stuðningi ykkar í stjórnarkjörinu sem framundan er.

Áherslur mína eru að tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði, fjölga verk- og tæknimenntuðum, efla endurmenntun í iðnaði, efla stuðning við nýsköpun og þróun berjast gegn ólöglegri atvinnustarfsemi í þágu samfélagsins. 

Ágúst Þór Pétursson

Agust-Thor-PeturssonÁgúst Þór Pétursson, húsasmíðameistari:

Ég hef verið starfandi við mannvirkjagerð frá unga aldri. Lauk sveinsprófi í húsasmíði 1988 og öðlaðist meistararéttindi 1994. Fljótlega eftir sveinspróf hóf ég eigin atvinnurekstur sem óx í að verða meðalstórt verktakafyrirtæki í íbúðarframleiðslu og almennri verktöku með fjölda starfsmanna og undirverktaka. Í lok árs 2016 hætti ég eigin atvinnurekstri og hóf ég störf hjá Verkfræðistofunni Mannvit hf. Þar hef ég starfað við byggingarstjórn og eftirlit ásamt áætlunargerðum og ráðgjöf mannvirkjagerðar.

Ég hef verið félagi í Meistarafélagi iðnaðarmanna í Hafnarfirði, MIH, um langan tíma. Setið í stjórn félagsins frá árinu 2006 og frá árinu 2008 sem formaður. Ég læt af formennsku á aðalfundi félagsins þann 16.2 n.k.. Sem formaður MIH hef ég komið að margvíslegu starfi innan SI. M.a. kom ég að stofnun Meistaradeildar SI (MSI) árið 2009 og sinnti þar formennski um tveggja ára skeið. Við stofnun MSI voru fimm meistarafélög innan SI en nú í dag eru þau tólf talsins. Einungis eitt meistarafélag á landinu stendur nú utan SI.

Þá hef ég einnig átt sæti í Mannvirkjaráði SI og setið í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins.

Þekking mín og reynsla úr atvinnulífi og félagsstörfum því tengdu er yfirgripsmikil og tel ég það geti nýst vel innan stjórnar SI. Þótt reynsla mín sé fyrst og fremst af mannvirkjagerð tel ég að sú reynsla nýtist á öllum sviðum iðnaðar enda lít ég svo á að hver sá sem tekur sæti innan stjórnar SI sé kjörin til að gæta að hagsmunum allra aðildafyrirtækja en ekki einstakra greina því öll þurfum við á hvort öðru að halda.

Hljóti ég kjörgengi til stjórnar SI er það von mín að mitt framlag til starfa í ykkar þágu geti verið gott innlegg í þá fjölbreyttu flóru starfsgreina sem hlúð er að innan SI. Mikilvægt er að raddir sem flestra iðn- og framleiðslugreina fái að heyrast svo úr verður góður samhljómur. 

Daníel Óli Óðinsson

Daniel-Oli-OdinssonDaníel Óli Óðinsson, framkvæmdastjóri JSÓ Járnsmiðja:

Ég hóf störf í fjölskyldufyrirtækinu JSÓ Járnsmiðja árið 1989 og hef því unnið við járnsmíði á Íslandi í rúm 30 ár. Frá árinu 2005 hef ég starfað sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Ég hef lokið meistaraprófi í vélvirkjun og prófi í véliðnfræði. Á undanförnum árum hef ég verið virkur sem meistari fjölmargra vélvirkjanema bæði á Íslandi og í samstarfi við erlenda iðnskóla.

Samtök iðnaðarins þurfa að vera sterk rödd í íslensku samfélagi og stuðla að samkeppnishæfu rekstrarumhverfi fyrir íslensk iðnfyrirtæki og atvinnulíf. Samkeppnishæft og stöðugt rekstrarumhverfi, aukin áhersla á iðnmenntun og nýsköpun, einfalt regluverk og lágir vextir eru t.d. áherslur sem við ættum öll að sameinast um og beita okkur fyrir.

Ég hef brennandi áhuga á menntamálum iðnaðarmanna. Við þurfum að gera námið og starfið áhugavert fyrir ungt fólk af báðum kynjum og fjölga þeim sem hafa áhuga á að stunda iðnmenntun en um langt skeið hafa of fáir iðnaðarmenn verið að útskrifast úr skólakerfinu. Við þurfum að styrkja iðnskólana, auka sveigjanleikann í náminu og jafnframt að auka stuðning og styrki stjórnvalda og iðnaðarins við þá sem hafa áhuga á iðnnámi. Starfsumhverfi án nægjanlegs fjölda vel menntaðra iðnaðarmanna mun leiða af sér einhæft atvinnulíf sem verður ekki fært að takast á við þarfir framtíðarinnar.

Ég tel afar mikilvægt að iðnaðarmenn hafi sterka rödd í Samtökum iðnaðarins og býð mig þess vegna fram til stjórnarsetu. Ef ég næ kjöri þá mun ég leggja mig allan fram um að vinna að baráttumálum íslensks iðnaðar.

Guðmundur Skúli Viðarsson

Gudmundur-Skuli-Vidarsson_1549882719705Guðmundur Skúli Viðarsson, ljósmyndari og eigandi Myndsköpun Ljósmyndagerð ehf. og markaðsfræðingur Hertz á Íslandi: 

Eftir hefðbundna grunnskólagöngu varð iðnskólanám í prentsmíði fyrir valinu. Í stuttu máli öðlaðist ég sveins- og meistararéttindi í prentsmíði, fór síðan í  háskólanám í ljósmyndun 1984 sem lauk með BA gráðu frá Brooks Institute of Photography í Bandaríkjunum árið 1988 og stuttu síðar meistararéttindi í ljósmyndun.  Hef starfað sl. ártugi við ljósmyndun, prentmiðlun, markaðsmál og verkefnisstjórn ýmissa verkefna ýmist sjálfstætt eða í fyrirtækjum bæði hérlendis og erlendis.  

Þetta skemmtilega og fjölbreytta iðnfag hefur fært mér margvíslega reynslu og hugmyndir sem ég hef sérstaka ánægju af að miðla til annarra. Hélt fyrstu persónulegu einkasýninguna "Íslenskar kirkjur í Vesturheimi" í tilefni 1000 ára kristnitöku á Íslandi í Gerðarsafni, þar sem allar íslenskar kirkjur í Bandaríkjunum og Kanada voru ljósmyndaðar og sagði sögu þeirra. Segja má að verkefnið sé afrakstur þessa skemmtilega iðn- og listnáms.  Síðar átti ég þess kost að fara sem Fulbright styrkþegi til Bandaríkjanna í nám við háskólann í Minneapolis/St. Paul. Með þessa ólíku reynslu í iðninni og skólagöngu hef ég miðlað henni áfram sem stjórnarmaður í Ljósmyndarafélagi Íslands um árabil en félagið er 93 ára gamalt.

Sem formaður sveinsprófsnefndar í ljósmyndun hef ég líka haft sérstaklega gaman af að fylgjast með ungu hæfileikaríku fólki feta sín fyrstu spor eftir nám inn í iðngreinina með hæfileika og listfengi í farteskinu við töku sveinsprófs. Starfa einnig  í stjórn Myndhöfundasjóðs Íslands, Myndstef, sem fer með hagsmunamál höfundarréttar myndverka hinna ýmsu einstaklinga, félaga og stofnana á Íslandi.

Fjölbreytileiki þeirra fagfélaga og fyrirtækja sem eru innan raða Samtaka iðnaðarins gera þau að öflugum talsmanni iðngreina í landinu. Þessum fjölbreytileika þarf að viðhalda og áherslur mínar væru að stuðla að auknum áhuga á iðnmenntun í landinu. Efla  tækifæri smærri fyrirtækja að taka nema á samning og greiða fyrir leiðum sem færar eru að því takmarki. Hafa áhrif á nútímavæðingu iðnmenntunar og sameina hin fjölbreyttu sjónarmið er stuðla að eflingu iðn- og háskólamenntunar í landinu til að geta af sér fjölbreytt fagfólk í öllum iðngreinum. Þessa rödd, frá rótgrónu fagfélagi sem  á sér 93 ára hefð og er innan raða SI, vil ég styrkja með því að bjóða mig fram til áframhaldandi trúnaðarstarfa innan SI.

Ykkar stuðningur til mín mun halda áfram að efla jákvæða og hugmyndaríka nálgun við málefni og verkefni stjórnar Samtaka Iðnaðarins þar sem ég lagt mitt af mörkum sl. ár.

Guðrún Halla Finnsdóttir

Gudrun-Halla-Finnsdottir_1549882735616Guðrún Halla Finnsdóttir, verkefnastjóri viðskiptaþróunar Norðuráls:

Ég hef starfað hjá Norðuráli frá árinu 2016. Þar hef ég sinnt raforkusamningum, tekið þátt í að móta stefnu fyrirtækisins í raforkumálum og borið ábyrgð á losunarheimildum fyrir viðskiptakerfi ESB ásamt ýmsum verkefnum tengdum viðskiptaþróun og starfsumhverfi fyrirtækisins. Áður starfaði ég hjá raforkufyrirtækinu Southern California Edison í Los Angeles þar sem ég vann að stefnumótun og greiningu. Ég er með M.Sc. í rekstrarverkfræði frá University of Southern California í Los Angeles og B.Sc. í aðgerðarrannsóknum frá Columbia University í New York, þar sem ég lagði áherslu á fjármálaverkfræði.

 Ég er gift og á tvö ung börn. Fimm ára sonur minn á sér þann draum heitastan að vinna við hönnun og framleiðslu og er heillaður af verksmiðju mömmu sinnar. Von mín er að hann muni alltaf hafa frelsi til þess að rækta sína hæfileika og ástríðu í samfélagi sem sér virði í öllum mikilvægum störfum, og að hann eigi þess kost að gera það á Íslandi.

Ég býð mig fram til stjórnarsetu í Samtökum iðnaðarins til að standa vörð um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, tryggja að þau njóti sannmælis og að sá skilningur speglist í hvetjandi rekstrarskilyrðum af hálfu stjórnvalda og mótun framsækinnar atvinnustefnu. Undanfarið hef ég setið í framleiðsluráði SI og kynnst þar ýmsum atriðum sem iðnaðurinn þarf að beita sér fyrir. Ég mun leggja áherslu á að tekið verði mið af hagsmunum íslensks iðnaðar við uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins og að okkar framlag til bættra umhverfismála verði sýnilegra meðal almennings.

Magnús Hilmar Helgason

Magnus-Hilmar-HelgasonMagnús Hilmar Helgason , framkvæmdastjóri Launafls ehf í Fjarðabyggð:

Til þess að iðnaður á Íslandi megi halda áfram að dafna og vaxa þarf að hlúa að honum þannig að hann geti tryggt viðunandi hagvöxt til framtíðar. Það gerum við með að skapa greininni samkeppnishæft umhverfi líkt og gerist í okkar nágrannalöndum varðandi skatta og skyldur, þannig að greinin geti haldið áfram að þróast og eflast. Menntamál hafa verið mér sérstaklega hugleikin undanfarin ár og tel ég að koma þurfi inn námsgreinunum varðandi iðnað inn í grunnskóla landsins til að opna augu unga fólksins hvað iðnaður landsins er fjölbreyttur og flottur. 

SI hefur á undanförnum árum stuðlað að bættum hag fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem vinna á sviði þróunar og nýsköpunar hér á landi sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkar framtíð. Landsbyggðin hefur ekki átt marga aðila í stjórn SI og þess vegna býð ég fram krafta mína í þágu alls iðnaðar á Íslandi.

Undirritaður hefur verið við stjórnun og rekstur fyrirtækja í rúm 35 ár. Viðloðandi sjávarútveginn í 25 ár , en verið framkvæmdastjóri Launafls ehf síðan 2007. Launafl ehf hefur útskrifað 38 iðnema frá 2009 og er fyrirtækið mjög stolt af þeim árangri. Launafl ehf rekur vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði, bifreiðaverkstæði, byggingardeild, blikksmiðju, pípulagningardeild, tæknideild og verslun. Hjá félaginu starfa um 100 manns.

Sigurður R. Ragnarsson

Sigurdur-R.-RagnarssonSigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV:

Ég starfaði ungur að árum í áliðnaðinum og að því loknu í 16 ár við verkfræðiráðgjöf. Síðastliðin 13 ár hef ég starfað í verktakaiðnaðinum og tel að þessi bakgrunnur minn og reynsla nýtist vel innan SI og býð mig því fram til áframhaldandi veru í stjórn samtakanna eftir tveggja ára starf þar.

Ein stærsta áskorun iðnfyrirtækja er skortur á vinnuafli, bæði á iðnaðar- og tæknimönnum. Ég hef lagt lóð á vogarskálarnar í tæknigeiranum þar sem ég hef stundað kennslu í HÍ, HR og Endurmenntun HÍ og reynt þannig að bæta þekkingu fólks, miðla reynslu og auka áhuga fólks fyrir tæknimenntun. Auka þarf áhuga á iðngreinum og þar hefur töluvert verið gert á undanförnum tveimur árum sem farið er að skila sér í fleiri nemum í iðngreinum og þar hef ég lagt málefninu lið í gegnum stjórnarsetu mína í SI.

Ég hef líka áhuga á að stuðla að því að iðnaður á Íslandi verði ekki undirlagður þessum miklu sveiflum eins og verið hefur verið undanfarin misseri a.m.k í sumum geirum hans. Mikil sóun og óhagræði fylgir þessum miklu sveiflum en draga þarf úr þeim í báðar áttir og þar spilar m.a. hið opinbera stóra rullu til sveiflujöfnunnar bæði í gengum fjármálastjórnina og fjárfestingar.

Að lokum vil ég halda áfram að stuðla að heilbrigðari og betri verktakamarkaði með því að vinna að bættum leikreglum, betri laga- og reglugerðarumgjörð, betri undirbúningi verkefna sem og að bæta framleiðni og ímynd verktakageirans. Í þessu sambandi má nefna á sl. 2 árum verkefni eins og keðjuábyrgð, kennitöluflakk, breytingar á mannvirkjalögum og byggingarreglugerð, endurreisn Mannvirkjaráðs, samgöngumál og uppbygging innviða almennt, átakshóp um húsnæðismál og Íslenski byggingavettvangurinn sem ég hef lagt lið innan stjórnar SI og á opinberum vettvangi á fundum, ráðstefnum og í fjölmiðlum. Auk þess hef ég verið virkur innan stjórnar í öðrum málum sem tilheyra stjórnarborði SI og tilheyra rekstri samtakanna bæði inn á við sem og út á við.

Ég hef MSc í verkfræði og hef gegnt forystuhlutverki bæði á verkfræðistofu og í verktakafyrirtæki. Ég hef einnig stýrt stórum verklegum framkvæmdum og hef A-vottun alþjóða verkefnastjórnunarfélagsins IPMA.