Framboð til stjórnar SI
Formanns- og stjórnarkjör Samtaka iðnaðarins hefst 14. apríl og því lýkur kl. 12.00 miðvikudaginn 29. apríl, daginn fyrir aðalfund samtakanna sem haldinn verður rafrænt fimmtudaginn 30. apríl kl. 10.00.
Framboðsfrestur til formanns og stjórnar Samtaka iðnaðarins auk fulltrúaráðs SA rann út 16. mars. Alls bárust níu framboð; tvö framboð til formanns stjórnar og sjö framboð til stjórnar. Í ár verður kosið um formann og fimm almenn stjórnarsæti. Í samræmi við lög Samtaka iðnaðarins fara fram rafrænar kosningar og hefur hver félagsaðili atkvæði í hlutfalli við greidd félagsgjöld ársins 2019 og hverjum heilum 1.000 krónum í greiddum félagsgjöldum fylgir eitt atkvæði. Fái félagsaðili afslátt af félagsgjöldum vegna skilvísra greiðslna reiknast fjárhæð afsláttar jafnframt til atkvæðamagns. Tekið skal fram að enn er hægt að öðlast atkvæðisrétt með því að greiða vangoldin félagsgjöld ársins 2019.
Í ár verður kosið í gegnum Þínar síður og hafa upplýsingar um fyrirkomulag kosninganna verið sendar félagsmönnum.
Í kjöri til til formanns SI
Árni Sigurjónsson, yfirlögfræðingur Marel
Ég hef starfað hjá Marel frá árinu 2009 og tekið virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað hjá félaginu bæði hérlendis og utan landsteinanna. Þetta hefur verið lærdómsríkur tími og verkefnin og viðfangsefnin hafa óneitanlega verið afar fjölbreytt. Það er í senn áskorun og forréttindi að starfa hjá íslensku félagi sem er leiðandi á sínu sviði á alþjóðamarkaði, hvort heldur sem er í meðvindi eða mótvindi.
Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins frá árinu 2016 og verið varaformaður samtakanna síðastliðin þrjú ár. Þá hef ég jafnframt setið í stjórn Samtaka atvinnulífsins sl. fjögur ár og í framkvæmdastjórn SA sl. þrjú ár. Ég er afar stoltur af starfi okkar og samtakanna síðustu árin – ég tel að við höfum áorkað miklu og höfum mikið afl til frekari góðra og nauðsynlegra verka. Þetta hefur verið ákaflega gefandi og lærdómsríkur tími og starf SI hefur að mörgu leyti tekið stakkaskiptum, bæði hvað varðar stefnu, sýnileika og þjónustu við félagsmenn sína. Ekki hefur síður verið áhugavert að hitta fjölmarga forsvarsmenn og starfsfólk okkar frábæru aðildarfélaga sem deilt hafa með okkur áskorunum sínum, afrekum og sigrum, stórum sem smáum.
Nú á þeim tímamótum þegar farsæll formaður okkar til sex ára kveður hef ég tekið þá ákvörðun að gefa kost á mér til embættis formanns Samtaka iðnaðarins. Ég hef brennandi áhuga á að leiða það góða starf sem unnið er á vettvangi samtakanna og halda áfram að gæta hagsmuna íslensks iðnaðar og atvinnulífs í hvívetna, fái ég til þess umboð frá félagsmönnum. Opin samskipti, samvinna, lausnamiðuð nálgun, yfirvegun og virðing fyrir ólíkum skoðunum eru gildi sem ég reyni ávallt að tileinka mér í störfum mínum.
Ekki þarf að fjölyrða um að núverandi efnahagsaðstæður eru afar krefjandi og fjöldi fyrirtækja eru að ganga í gegnum fordæmalausa erfiðleika. Fókusinn verður þar næstu vikur og mánuði og samtakamátturinn hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægari. Ég tel að menntun mín, starfsvettvangur og reynsla úr íslensku atvinnulífi muni hjálpa til í þeim fjölmörgu brýnu verkefnum sem bíða okkar. Því óska ég eftir stuðningi ykkar í formannskjörinu sem framundan er.
Guðlaug Kristbjörg Kristinsdóttir, stjórnarformaður Límtré Vírnets og Securitas
Ég er framkvæmdarstjóri Stekks fjárfestingarfélags, sem er stærsti eigandi bæði Securitas hf. og Límtré Vírnets hf. Ég hef sinnt stjórnarstörfum fyrir þau félög í nær tíu ár, lengst af sem stjórnarformaður, en þeirri stöðu gegni ég í dag. Einnig er ég stjórnarformaður Júpiters Rekstrarfélags, dótturfélags Kviku banka, og hef setið í stjórn þess félags frá árinu 2012. Ég lauk MBA námi frá New York University, Stern School of Business, árið 2006 með sérhæfingu í hagfræði, alþjóða fjármálafræði og tölfræðilegri fjármálafræði. Árið 2001 útskrifaðist ég með heiðurseinkunn (cum laude) í BS í viðskiptafræði með áherslu á fjármál og alþjóðaviðskipti frá sama háskóla. Á árunum 2001 til 2007 vann ég á Wall Street í New York, lengst af hjá Deutsche Bank við hrávöruviðskipti, einkum raforku og gas.
Iðnaður hefur verið mér hugleikinn frá barnæsku. Ég ólst upp á Eskifirði, og fylgdist þar með afa mínum og föður taka þátt í iðnvæðingu sjávarútvegsins. Einnig rak ég sem unglingur byggingarvöruverslun í bænum. Ég hef því séð með eigin augum hve mikilvægur iðnaðurinn er samfélaginu og hvernig framfarir á því sviði geta, ef vel er á haldið, verið öllum til heilla.
Ég trúi að við stöndum nú á tímamótum í íslenskum iðnaði. Tæknibreytingar eru örar og aðstæður til framleiðslu á Íslandi breytast hratt. Þá er mikilvægt að nýta tækifærin sem skapast, en jafnframt að standa saman um að takast á við áskoranir og verja hagsmuni íslensks iðnaðar í heild. Styrkleiki Samtaka iðnaðarins felst ekki síst í því að innan raða samtakanna eru fjölbreytt og ólík fyrirtæki og félagasamtök. Þrátt fyrir fjölbreytileikann erum við öll tengd, þjónustum hvert annað, og eigum fjölmarga sameiginlega heildarhagsmuni.
Samtök iðnaðarins hafa sýnt og sannað hve mikilvægt það er fyrir íslenskan iðnað að eiga sameiginleg samtök til að tryggja samstöðu og hagsmuni aðildafélaga sinna, í þágu íslensks samfélags.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til embættis formanns stjórnar Samtaka iðnaðarins. Það væri mér mikill heiður að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem samtökin standa frammi fyrir og ég er sannfærð um að bakgrunnur minn og reynsla muni nýtast vel á þeim krefjandi tímum sem eru framundan í íslensku efnahags- og atvinnulífi.
Í kjöri til stjórnar SI
Arna Arnardóttir, formaður Félags íslenskra gullsmiða
Ég hef starfað sem gullsmiður síðastliðin 11 ár. Ég útskrifaðist frá Tækniskólanum - skóla atvinnulífsins árið 2009 sem gullsmiður og lauk námi til meistararéttinda frá sama skóla ári síðar. Áður starfaði ég sem garðyrkjufræðingur en ég útskrifaðist frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1992. Ég hef verið formaður Félags íslenskra gullsmiða undanfarin áratug eða frá árinu 2012. Í formannstíð minni hef ég komið að margvíslegum verkefnum fyrir mitt fag og aðrar iðngreinar.
Undanfarin ár hef ég setið í starfsgreinaráði, nefnd á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem veitir ráðherra ráðgjöf um málefni starfsmenntunar fyrir handverk og hönnunargreinar. Þá sat ég jafnframt í stjórn Hönnunarmiðstöðvar og Hönnunarmars á árunum 2011- 2019.
Í stórum samtökum eins og Samtökum iðnaðarins er það mín skoðun að nauðsynlegt sé að bæði fulltrúar stærri og minni iðngreina eigi sæti við stjórnarborðið og endurspegli þannig fjölbreytileika og breidd þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum hverju sinni.
Samkeppnishæf rekstrarskilyrði Ég er þeirrar skoðunar að tryggja beri íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði en íslenskur iðnaður hefur átt undir högg að sækja í alþjóðlegri samkeppni. Þar vega auðvitað þungt skattar og gjöld en eðli málsins samkvæmt koma jafnframt aðrar breytur til. Nýjasta dæmið snýr að íslenskri raforku og sölu upprunavottorða.
Viðhorfsbreyting til iðnmenntunar Enn fremur tel ég áríðandi að gera iðnmenntun eins áhugaverða og kostur er fyrir ungt fólk en ég tel að nauðsynlegt sé að breyta viðhorfum samfélagsins til iðnmenntunar almennt. Í þessu sambandi er jafnframt nauðsynlegt að gera iðnnemum auðveldra fyrir að komast á starfssamning hjá meistara. Undanfarið hefur nefnilega borið á því að iðnnemar sem hefja nám komast ekki á samning. Það segir sig sjálft að þessi þróun verður að snúa við.
Framfylgd iðnaðarlaga – allra hagur Þá er ég þeirrar skoðunar að brýnt sé að fundnar séu raunhæfar leiðir til að framfylgja iðnaðarlögum en nú er sú staða uppi að eftirliti með ólöglegri starfsemi er mjög ábótavant. Það er allra hagur að lögunum sé fylgt eftir.
Nái ég kjöri í stjórn Samtaka iðnaðarins mun ég starfa af heilindum í þágu alls iðnaðarins. Það er mín von að mitt framlag geti orðið góð viðbót í þágu þeirrar fjölbreyttu flóru starfsgreina sem starfa innan vébanda samtakanna.
Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Dominos
Ég var kosinn í stjórn Samtaka iðnaðarins 2018 og býð fram krafta mína aftur í ár. Reynsla síðusta ára er dýrmæt í því fordæmalausa ástandi sem núna er uppi.
Fram undan er hörð barátta margra fyrirtækja og ég eins og flestir aðrir stend í storminum miðjum. Þetta er augljóslega stóra verkefnið og Samtök iðnaðarins þurfa að vera sverð og skjöldur þeirra 1400 fyrirtækja sem þar eru.
En fleiri áskoranir koma samhliða. Kjarasamningar voru brattir fyrir ári síðan, í núverandi efnahagsástandi og mótbyr eru þeir enn brattari. Þetta er olía á eldinn. Það þarf að tryggja stöðu ykkar allra eins vel og mögulegt er, vinnan þarf að vera markviss og glerhörð.
Undanfarin tvö ár hef ég tekið virkan þátt í mikilvægri hagsmunagæslu SI í gegnum stjórnarstörfin. Mörgu höfum við komið á dagskrá af okkar málum, sem dæmi er mikill samhljómur með áherslu stjórnvalda á innviðarverkefni og stefnu í nýsköpunarmálum. Þar höfum við haft áhrif með skýrri stefnu, mál sem snerta marga félagsmenn. Nýsköpun hefur sjaldan hefur verið mikilvægari en núna. Ég vil sækja fram því nýsköpun er vísir að betri framtíð okkar allra.
Ég er Borgnesingur og Akureyringur, hagfræðingur að mennt. Flutti til Bandaríkjanna eftir nám þar sem ég tók þátt í stofnun Strax sem selur farsímafylgihluti. Ég starfaði þar í 12 ár, síðustu árin stýrði ég fylgihlutadeild félagsins frá Þýskalandi með starfsstöðvar í 16 löndum. Árið 2011 var ég hluti af fjárfestahópi sem keypti Dominos og hef verið framkvæmdastjóri félagsins síðan. Ég var einn stofnenda Joe and the Juice á Íslandi, er stjórnarformaður Billboard ehf og hef setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja.
Hlutskipti mitt hefur oftar en ekki verið að ýta fyrirtækjum úr vör eða viðsnúningur í rekstri sem er hörð barátta en mjög lærdómsrík. Mér finnst hvergi betra að búa en á Íslandi og ég vil leggja mitt af mörkum til að bæta vinnuumhverfið fyrir okkur og komandi kynslóðir.
Í samantekt: Það eru mörg brýn málefni á dagskrá SI, en fyrst og fremst þurfum við að koma fyrirtækjum landsins í gegnum þann skafl sem fram undan er. Þar tel ég mig vera góðan liðsmann.
Egill Jónsson, framkvæmdastjóri framleiðslusviðs Össurar
Ég er vélaverkfræðingur og á tæplega 40 ára starfsferli mínum hef ég starfað við hönnun, framleiðslu og iðnaðaruppbyggingu. Ég var staðarverkfræðingur við byggingu Nesjavallavirkjunar en undanfarin 20 ár hef ég leitt hraða uppbyggingu framleiðslusviðs Össurar hérlendis og erlendis.
Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins síðastliðin 4 ár. Það hefur verið ánægjulegt að geta lagt öflugu starfi samtakanna lið á þessum tíma og því býð ég mig nú fram til að halda því áfram næstu tvö árin.
Samtök iðnaðarins eru málsvari fjölmargra ólíkra atvinnugreina sem hafa mismunandi þarfir en eiga jafnframt mikla sameiginlega hagsmuni. Iðnaður skapar um 1/3 af veltu fyrirtækja í landinu og það er bjargföst trú mín að hagsmunum félagsmanna sé best sinnt í stóru, öflugu félagi frekar en að dreifa kröftunum. Það yrði síst til að auka slagkraft félagsmanna.
Samtökin hafa borið gæfu til að marka og fylgja eftir skýrri málefnalegri stefnu, sem gagnast ekki aðeins íslenskum iðnaði og félagsmönnum, heldur samfélaginu öllu. Stærstu áherslumálin hafa verið menntun, nýsköpun, starfsumhverfi og innviðir og með þróttmiklu, faglegu starfi hefur samtökunum tekist að hafa mikil og góð áhrif á stefnu stjórnvalda í öllum þessu málum.
Heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir fordæmalausu ástandi með ófyrirséðum afleiðingum. Það mun reyna á okkur öll að vinna okkur í gegnum þetta erfiða ástand og mikilvægt að við sameinum kraftana um lausn á brýnum, tímabundnum viðfangsefnum. Á sama tíma megum við þó ekki missa sjónar á stefnumálum sem horfa til lengi tíma og nú er til dæmis lag til að ráðast í uppbyggingu mikilvægra innviða til að byggja á til framtíðar. Þessar nýju aðstæður minna okkur enn frekar á hve mikilvægt er að hlúa að fjölbreyttu atvinnulífi í landinu. Þess vegna þarf að leggja aukna áherslu á þróunarvinnu, nýsköpun og iðnmenntun.
Það er von mín að löng reynsla mín úr atvinnulífinu og einskær áhugi minn á að efla íslenskt atvinnulíf, öllum til hagsbóta, nýtist áfram vel á þessum vettvangi. Því óska ég eftir stuðningi félagsmanna í stjórnakjöri.
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, aðstoðarforstjóri Carbon Recycling International
Ljóst er að næstu misseri og ár munu reyna á íslenskan iðnað og er mikilvægt að Samtök iðnaðarins geti áfram unnið af krafti að hagsmunum mismunandi greina iðnaðarins og aðildarfyrirtækja samtakanna. Þar skiptir mestu að íslenskum iðnaði verði tryggð nauðsynleg viðspyrna í kjölfar þess áfalls sem nú gengur yfir. Ég vil gjarnan takast á við það verkefni innan stjórnar SI í því ölduróti sem nú gengur yfir. Í mínum störfum í gegnum tíðina hef ég unnið með fyrirtækjum á sviði verkfræðiþjónustu, framleiðslu, tækni, hugvits, nýsköpunar og verktöku. Ég hef verið virk í starfi SI frá árinu 2015, setið í stjórn Samtaka sprotafyrirtækja og Framleiðsluráðs innan SI, ásamt því að hafa tekið þátt í ýmsum verkefnum og nefndum á vegum stjórnvalda og atvinnulífs.
Þverfagleg reynsla mín, í bland við þekkingu og víðsýni, mun gagnast vel í að huga að mismunandi hliðum og þörfum bæði markaða og atvinnulífs. Áherslur mínar á sjálfbærni, arðsemi og nýsköpun ríma sömuleiðis vel við ár nýsköpunar hjá SI 2020 og mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar í nútímasamfélagi. Einnig hef ég komið mér upp sterku tengslaneti bæði innanlands og erlendis sem án efa munu geta gagnast samtökunum.
Ég er með metnað í að vinna að bættu rekstrarumhverfi fyrirtækja, styrkari og betri innviðum, ásamt því að stuðla að virðisaukningu í íslensku atvinnulífi og nýsköpun. Því sækist ég eftir stjórnarsetu hjá SI.
Mér líkar vel að takast á við ný verkefni sem ég geri ávallt af mikilli nákvæmni, jákvæðni, metnaði og fagmennsku. Einnig nýt ég þess að vinna með breiðum hópi fólks, greina og leysa vandamál og leggja mitt af mörkum til betra samfélags.
Menntun: B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá HÍ. M.Sc. í hagfræði frá HÍ. M.Sc. Renewable energy systems and policies.
Reynsla: 2004-07: VGK verkfræðistofa (nú Mannvit), tækniteiknun, innkaupastjórnun og gæðaferlar. 2007-2014: Landsbankinn, fjármögnun, endurskipulagning eigna, vöruþróun og ráðgjöf fyrir ný fyrirtæki. 2015- : Carbon Recycling International, allur rekstur (fjármögnun, mannauður, nýsköpun, framleiðsla, framkvæmdaverkefni), sölu- og markaðsmál, viðskiptaþróun. Ýmsar stjórnir, verkefni og nefndir. Nánar á Linkedin.
Steinþór Jónsson, framkvæmdastjóri Björnsbakarís
Líf mitt hefur frá því ég var ungur verið samtvinnað bakaraiðninni. Á þrettánda ári byrjaði ég að vinna í bakaríi föður míns í Álfheimum en afi minn stofnaði það árið 1959. Ég tók sveinspróf í bakstri í Danmörku árið 1995 og starfaði við bakstur í Kaupmannahöfn í kjölfarið. Ég vildi kynna mér bakstur víðar áður en ég snéri aftur heim og og vann næstu árin í Þýskalandi og Bandaríkjunum.
Fyrst eftir að ég kom heim starfaði ég í lyfjaiðnaði en árið 2003 keypti ég ásamt föður mínum Björnsbakarí – Vesturbæ og rek ég það enn í dag. Eins og allir vita hafa skipst á skin og skúrir í efnahagslífi þjóðarinnar á þessu tímabili og nauðsynlegt hefur verið að haga seglum eftir vindi. Verkefnin hafa verið fjölbreytt, reynslan verið dýrmæt og að mestu hefur reksturinn gengið vel. Starfsmannafjöldi fyrirtækisins hefur verið frá 20 til 40 á þessu tímabili. Um er að ræða hefðbundið iðnfyrirtæki sem flokkast myndi sem lítið til meðalstórt fyrirtæki, eitt af þeim sem mynda hryggjarstykkið í íslensku atvinnulífi.
Ég hef tekið virkan þátt í félagsstarfi á vettvangi Samtaka iðnaðarins. Ég hef setið í stjórn Landsambands bakarameistara, í sveinsprófsnefnd og frá 2015 í starfsgreinaráði matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina. Einnig sit ég í stjórn Menntaskólans í Kópavogi en þar fer menntun í matvælagreinum fram.
Framundan á vegum stjórnvalda er endurskoðun á tilhögun náms í iðngreinum og tel ég afar mikilvægt að rödd atvinnulífsins heyrist hátt og skýrt í því ferli öllu.
Eins og flestir vita er rekstur margra iðnfyrirtækja þungur í dag. Spilar þar inn í samdráttur í hagkerfinu, síaukin samkeppni innfluttra iðnvara, háir skattar og gjöld hins opinbera og hækkandi laun. Geyst hefur verið farið í launahækkanir og hið opinbera hefur dregið lappirnar í að létta álögum af atvinnulifinu. Allt leggst þetta á eitt og gerir fyrirtækjarekstur afar krefjandi.
Spjótin standa því í dag hvað mest á hinu opinbera.
Ég tel nauðsynlegt að í stjórn Samtaka iðnaðarins sé fjölbreytt flóra fólks, ekki síst frá minni og meðalstórum fyrirtækjum. Framundan eru tímar hagræðingar og sameininga. Ekki var hægt að segja annað eftir að hinir s.k. lífskjarasamningar voru gerðir en að ljóst væri í hvað stefndi. Það hefði ekki átt að koma nokkrum á óvart að rekstrarskilyrði iðnfyrirtækja myndu versna umtalsvert í kjölfar þeirra samninga, líkt og nú hefur komið á daginn.
Ísland er blessunarlega búið að brjóta af sér einangrun fyrri tíma og samkeppni íslenskra fyrirtækja kemur í auknum mæli erlendis frá. Það kallar jafnframt á að gætt sé sérstaklega að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og krafan er og verður ávallt að ekki séu settar óþarfa byrðar á herðar þeirra sem auka forskot erlendra fyrirtækja enn frekar. Annars verða störf einungis flutt úr landi í æ ríkari mæli en verið hefur og eru iðnfyrirtækin sérstaklega viðkvæm hvað þetta varðar. Því miður verður að heyja þessa baráttu við íslensk stjórnvöld, eins undarlega og það hljómar. Rekstrarskilyrði allra fyrirtækja verða að vera eðlileg og þar fara saman hagsmunir starfsmanna, eigenda og samfélags.
Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa
Aðstæður í dag eru óvenjulegar og það hefur fengið mig til að hugsa hvort það sem ég brenn fyrir og hef áhuga á að fá að taka þátt í fyrir ykkar hönd í stjórn SI hafi breyst.
Þvert á móti hafa þær skerpt enn frekar á því sem ég tel að er mikilvægt fyrir framtíðina. Á svona tímum eru það ekki bara skammtímaverkefnin sem skipta máli heldur líka hvernig við nýtum tækifærið og skoðum nýjar leiðir til að ná árangri til framtíðar.
Við núverandi aðstæður er það heilbrigði íslensk atvinnulífs sem kemur upp í hugann. Hvað þarf til til að halda uppi atvinnustigi í landinu? Hversu samkeppnishæf eru íslensk fyrirtæki í stóru samhengi? Samkeppnishæfnin byggir á að við séum ekki eftirbátar í alþjóðlegu samhengi. Það snýr að því að regluverkið og skattaumhverfið sé sambærilegt við samkeppnislönd okkar er snýr að kostnaði við atvinnurekstur almennt, þróunarkostnaði og sveigjanleika starfa. Þær aðgerðir sem unnið er að núna, þurfa að mótast með það í huga að þegar veiruástandið er yfirstaðið, þá séum við komin með fleiri fætur undir hraust atvinnulíf en áður.
Menntun og þjálfun í tækni- og iðngreinum er lykillinn af framtíðinni. Þar mótum við hæfni Íslands hvað varðar nýsköpun og hæfni til að nýta nýja tækni og aðferðir til hagræðingar og arðsemi. Hér vil ég að við séum hugrökk og tilbúin að fara nýjar leiðir og hugsum nýsköpun alla leið. Nýsköpun og menntun sem stuðlar að nýsköpunarhugsun er tvenna sem skiptir miklu máli.
Samstarf og skilningur milli iðngreina er lykilatriði til að breytingar náist fram í brýnum hagsmunamálum. Í starfi mínu í stjórn SI og SUT sl. tvö ár hef ég tekið eftir að við getum gert betur í að vinna saman og líka í að nýta okkur þau alþjóðlegu sambönd sem SI er þátttakandi í. Ég vil sjá meiri þátttöku og virkni aðildarfélaga í slíku starfi.
Ég er verkfræðingur að mennt og í rúmlega 25 ár hef ég starfað í upplýsingatæknigeiranum, sem á þessum tíma hefur breytt starfsumhverfi allra starfsgreina og mun gera enn frekar á næstu árum.
Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður MótX
44 ára húsasmíðameistari.
Kvæntur Lilju Björgu Guðmundsdóttir, og bý í Kópavogi ásamt þremur börnum okkar.
Ég er starfandi húsasmíðameistari á höfuðborgarsvæðinu og er stofnandi og stjórnarformaður byggingafyrirtækisins MótX í Kópavogi sem byggt hefur hundruði íbúða á undanförnum árum. Áhugmál mín eru m.a. skíði og golfiðkun og hvað eina annað sem ég fæ dellu fyrir hverju sinni.
Ég hef frá unga aldri haft mikinn áhuga á félagsstörfum og var þ.a.m. líklega fyrsti og eini verknámsnemandi Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem verið hefur formaður nemendafélags skólans. Ég hef einnig tengst margs konar félagssamtökum t.d. verið forseti Round Table á Íslandi og hef alltaf haft brennandi áhuga fyrir framgangi íslensks iðnaðar og íslenskrar framleiðslu og tel mig hafa sýnt það í mínum störfum.
Helstu áherslumál mín eru m.a.:
- Menntamál. Byggt verði ofan á þá góðu vinnu sem fram hefur farið til þess að efla verkmenntun á Íslandi.
- Vinna að því að bæta rekstarumhverfi íslensks iðnaðar og gera það samkeppnishæfara.
- Bæta skattaumhverfi íslenskra iðnfyrirtækja.
- Styðja við tækniþróun í iðnaði.