Fréttasafn8. feb. 2021 Almennar fréttir

Framboð til stjórnar SI

Sjö framboð hafa borist vegna fjögurra stjórnarsæta Samtaka iðnaðarins en framboðsfrestur rann út síðastliðinn föstudag. Kosið er til tveggja ára. Kosning hefst 18. febrúar og úrslit verða kynnt á aðalfundi samtakanna 4. mars.

 

Ágúst Þór Pétursson, húsasmíðameistari og starfandi byggingarstjóri hjá Mannvit hf. 

Agust-Thor-Petursson_1612782739986Þau tvö ár sem ég hef setið í stjórn SI hafa bæði verið lærdómsrík og gefandi. Að vera fulltrúi ríflega 1.400 aðildarfyrirtækja, með mismunandi sjónarmið og þarfir, krefst víðsýni og opins huga þeirra sem mynda stjórn SI. Þess hef ég gætt og haft að leiðarljósi að samtvinna skoðanir mismunandi þarfir aðildarfyrirtækja, stórra sem smáa. 

Aldrei sem nú reynir á að iðnaði á Íslandi verði skapaðar þær aðstæður að hann geti vaxið og tryggt okkur þann hagvöxt sem þarf til að risið verði upp úr þeirri lægð sem yfir þjóðina hefur gengið síðustu misseri. Við þurfum jafnframt að hlúa vel að þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem hafa og eru að byggja sinn rekstur á þróun og nýsköpun sem er mikilvægur fyrir okkur öll til framtíðar. 

Menntamál verknámsgreina hafa einnig verið mér hugleikin. Ég sit í sveinsprófsnefnd húsasmiða og nýverið tók ég sæti í stjórn Tækniskólans. Aukin aðsókn í verknám kallar á breytingar hvort heldur sem er í kennslu eða úrbótum í húsnæðismálum skólans. Skólann þarf að styrkja og auka sveigjanleika hans á báðum sviðum.

Þekking mín og reynsla úr atvinnulífi og félagsstörfum því tengdu er yfirgripsmikil og tel ég það hafi nýst vel innan stjórnar SI. Ég lauk sveinsprófi í húsasmíði 1988 og öðlaðist meistararéttindi 1994. Ég sat í stjórn Meistarafélagi iðnaðarmanna í Hafnarfirði frá árinu 2006 og til 2019 þar af 11 ár sem formaður. Sem formaður MIH kom ég að margvíslegu starfi innan SI. M.a. kom ég að stofnun Meistaradeildar SI árið 2009 og sinnti þar formennsku um tveggja ára skeið. Þá hef ég einnig átt sæti í Mannvirkjaráði SI og setið í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins.

Þótt reynsla mín sé fyrst og fremst af mannvirkjagerð tel ég að sú reynsla sem ég bý yfir nýtist á öllum sviðum iðnaðar. Áherslur mínar verða framhald af því sem ég hef haft að leiðarljósi í starfi stjórnar SI hingað til. Að hlúa vel að þeirri fjölbreyttu flóru starfsgreina sem innan SI er, efla stuðning við þróun og nýsköpun ásamt því að auka vegsemd verknáms á Íslandi. Því óska ég eftir ykkar stuðningi til áframhaldandi setu í stjórn SI. 

 

Guðrún Halla Finnsdóttir, verkefnastjóri viðskiptaþróunar Norðuráls

11-02-Gudrun-Halla-Finnsdottir-1Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í Samtökum iðnaðarins til að standa vörð um samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, tryggja að þau njóti sannmælis og að sá skilningur speglist í hvetjandi rekstrarskilyrðum af hálfu stjórnvalda og mótun framsækinnar atvinnustefnu. Síðustu tvö ár í stjórn SI hafa verið gagnleg og fræðandi auk þess sem ég tel að stjórnin hafi staðið sig vel. Hún hefur mótað skýra stefnu um starf samtakanna og gott samstarf stjórnar og starfsfólks SI hefur skilað sér í mörgum áfangasigrum undanfarið. Þar stendur mér og mínum vinnuveitanda næst að raforkumál hafi verið tekin föstum tökum og tækifæri sköpuð og nýtt til að finna forgangsmálum okkar farveg, svo sem mikilvægi þess að lækka flutningskostnað raforku og að beita sér fyrir samkeppnishæfni orkusækins iðnaðar á Íslandi með tilliti til raforkuverðs til framtíðar. Þetta sýnir fram á hversu sterkur bakhjarl SI eru fyrir umbjóðendur sína. Nái ég kjöri þá mun ég leggja áherslu á að tekið verði mið af hagsmunum íslensks iðnaðar við uppbyggingu og rekstur raforkukerfisins og að framlag okkar til bættra umhverfismála verði sýnilegra meðal almennings.

Ég hef starfað hjá Norðuráli frá árinu 2016. Þar hef ég sinnt öllu sem viðkemur raforkusamningum fyrirtækisins, tekið þátt í að móta stefnu fyrirtækisins í raforkumálum og borið ábyrgð á losunarheimildum fyrir viðskiptakerfi ESB ásamt ýmsum verkefnum tengdum viðskiptaþróun og starfsumhverfi fyrirtækisins. Áður starfaði ég hjá raforkufyrirtækinu Southern California Edison í Los Angeles þar sem ég vann að stefnumótun og greiningu. Ég er með M.Sc. í rekstrarverkfræði frá University of Southern California í Los Angeles og B.Sc. í aðgerðarrannsóknum frá Columbia University í New York, þar sem ég lagði áherslu á fjármálaverkfræði.

 

Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma 

Jonina-Coripharma-2Coripharma var stofnað árið 2018 en byggir á styrkum stoðum þar sem það hefur keypt þróunar- og lyfjaverksmiðju Actavis á Íslandi. Félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu á samheitalyfjum sem það selur til annarra lyfjafyrirtækja í Evrópu. Hjá félaginu starfa yfir 130 manns.

Jónína er lyfjafræðingur frá Hí árið 1999 og var áður VP Commercial Operation og staðgengill forstjóra Medis, dótturfyrirtæki Teva/Actavis.

Nánari upplýsingar: http://www.linkedin.com/in/jonina-gudmundsdottir/

 

Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri Launafls í Fjarðabyggð 

SI2020_Stjorn_806A7855_1612778357566Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri Launafls frá árinu 2007. Launafl er fjölbreytt iðnfyrirtæki á Austurlandi, en bakrunnur minn í stjórnun og rekstri fyrirtækja spannar nær 40 árum. Ég var kosinn í stjórn Samtaka iðnaðarins árið 2019. Þessi 2 ár hafa verið mjög lærdómsrík og ánægjuleg. Það er mikill heiður að fá að starfa fyrir svona öflug samtök og geta lagt starfi samtakana lið á þeim skrýtnu tímum sem við búum við í dag. Landsbyggðin þarf á rödd að halda innan samtakanna og því býð ég aftur fram krafta mína í þágu alls iðnaðar á Íslandi.

Samtök iðnaðarins eru samtök sem starfa fyrir ólíkar atvinnugreinar en með það eitt að markmiði að gæta hagsmuna þeirra í hvívetna. COVID tíminn hefur sýnt okkur hvað iðnaður er mikilvægur hlekkur í hagkerfi þjóðarinnar. Skoðun mín er sú að stór og öflug samtök séu betur til þess fallin að gæta hagsmunum félagsmanna sinna, heldur en lítil og dreifð félagasamtök.

Framtíð iðnaðar verður án efa í nýsköpun og tækniþróun á komandi árum. Hlúa þarf að menntun iðnaðar með byggingu nýs Tækniskóla

og jafnframt að koma inn námsgreinum tengdum iðnaði í grunnskólum landsins til þess að fjölga þeim nemendum sem hafa áhuga á iðnnámi.

Sá faraldur sem nú geisar um gjörvallan heim með ófyrirséðum afleiðingum, ætti að kenna okkur að standa saman. Með að sameina krafta okkar þá getum við leyst þessi tímabundnu vandamál og þá er einnig mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að eiga fjölbreytt atvinnulíf sem við verðum að standa vörð um.

Ef breyta má menntastefnunni og viðhorfum samfélagsins til iðnaðar, þá er von um að vægi iðnaðar á Íslandi geti aukist til muna. Ég tel að mín áratuga reynsla úr atvinnulífinu geti því áfram nýst á þessum vettvangi. Ég óska því félagsmaður góður eftir stuðningi þínum í komandi stjórnarkjöri.

 

Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV

Iav_sigurdur-3Á yngri árum starfaði ég í áliðnaðinum, að því loknu 16 ár við verkfræðiráðgjöf og síðastliðin 15 ár í verktakaiðnaðinum. Þessi bakgrunnur og reynsla hefur nýst vel innan SI og býð mig því fram til áframhaldandi veru í stjórn samtakanna eftir fjögurra ára starf þar og síðastliðið ár einnig sem varaformaður.

Ein stærsta áskorun iðnfyrirtækja hefur verið skortur á vinnuafli, bæði á iðnaðar- og tæknimönnum. Ég hef lagt lóð á vogarskálarnar í tæknigeiranum þar sem ég hef stundað kennslu í HÍ, HR og Endurmenntun HÍ og reynt þannig að bæta þekkingu fólks, miðla reynslu og auka áhuga fólks fyrir tæknimenntun. Undanfarin ár hefur töluvert verið gert til að auka áhuga á iðngreinum sem hefur skilað sér í fleiri nemum og hef ég lagt málefninu lið í gegnum stjórnarsetu mína í SI. Næsta stóra verkefni þessu tengt er að koma af stað nýbyggingu Tækniskólans og bæta þannig aðstöðu nemenda.

Ég hef áhuga á að stuðla að því að iðnaður á Íslandi verði ekki undirlagður þeim miklu sveiflum sem einkennt hafa suma geira hans í gegnum tíðina. Mikil sóun og óhagræði fylgir þessum sveiflum en draga þarf úr þeim og þar spilar hið opinbera stóra rullu til sveiflujöfnunnar í gengum fjármálastjórnina og fjárfestingar. Innkoma opinberra aðila á markaðinn á síðasta ári með afgerandi hætti í kjölfar COVID áhrifa gefur vonir í þessu sambandi.

Ég vil einnig halda áfram að stuðla að heilbrigðari og betri verktakamarkaði með því að vinna að bættum leikreglum, betri laga- og reglugerðarumgjörð, betri undirbúningi verkefna sem og að bæta framleiðni og ímynd verktakageirans.

Í þessu sambandi má nefna á sl. 4 árum verkefni eins og keðjuábyrgð, kennitöluflakk, breytingar á mannvirkjalögum og byggingarreglugerð, stuðla að aukinni virkni Mannvirkis, Mannvirkjaráðs og Byggingavettvangsins, samgöngumál og uppbyggingu innviða, átakshóp um húsnæðismál, nám í jarðvirkjun, bætt útboðsþing, bætt kostnaðaráætlanagerð og vísitölumál en þessum málum hef ég lagt lið innan stjórnar SI og á opinberum vettvangi á fundum, ráðstefnum og í fjölmiðlum. Auk þess hef ég verið virkur innan stjórnar í öðrum málum sem tilheyra stjórnarborði SI og tilheyra rekstri samtakanna bæði inn og út á við.

Ég hef MSc í verkfræði og hef gegnt forystuhlutverki bæði á verkfræðistofu og í verktakafyrirtæki. Ég hef einnig stýrt stórum verklegum framkvæmdum og hef A-vottun alþjóða verkefnastjórnunarfélagsins IPMA.

 

Steinþór Jónsson, framkvæmdastjóri Björnsbakarís

Steinthor_Bjornsbakari_1612778215121

Ég hef nú í eitt ár verið varamaður í stjórn Samtaka iðnaðarins og fengið góða innsýn í verkefni stjórnar og aukinn skilning á hlutverki samtakanna. Þetta ár hefur verið krefjandi öllum rekstri en ég tel óhætt að segja að flestum fyrirtækjum er aðild eiga að samtökunum hafi tekist að halda úti góðri starfsemi, veita viðskiptavinum sínum góða þjónustu og heildin hefur sýnt fram á að íslenskur iðnaður er bæði sterkur og sveigjanlegur.

Að mínu mati stendur tvennt upp úr á liðnu ári; menntamál og kjaramál. Mikið var fjallað um menntamál iðngreina á árinu í kjölfar sjónvarpsþáttar á RÚV og náði sú umræða svo langt að reifað var hvort jafnvel ætti að leggja niður sveinsprófið. Ég sé ekki hver tilgangurinn getur verið með því. Gott iðnnám með staðfestingu á við sveinspróf er undirstaða og staðfesting gæða íslensks iðnaðar og hornsteinn í alþjóðlegri samkeppni. Kjaramálin voru í brenndidepli þegar kom að því að ákveða hvort s.k. ,,lífskjarasamningum“ skyldi sagt upp f.h. atvinnurekenda. Ekki þóttu mér samtök okkar fá mikið út úr því fjölmiðlabrölti sem upphófst í lok september og lauk með því að ekkert var aðhafst. Það er rétt að halda því ávallt og alls staðar til haga að allar forsendur fyrir þessum samningum hafa breyst og voru þær samt haldlitlar fyrir. Lítil og meðalstór fyrirtæki ráða illa við umsamdar launahækkanir og neyðast oftar en ekki til að grípa til sársaukafullra hagræðingaraðgerða, afleggja ýmsa framleiðslu/starfsemi og segja upp góðu starfsfólki. Vil ég því endurtaka það sem ég sagði fyrir um ári er ég bauð mig fram til stjórnar Samtaka iðnaðarins; slaginn þarf að taka fyrr eða síðar. Fyrirtækin verða að finna að hagsmuna þeirra sé gætt við samningaborðið og mótstaðan sé raunveruleg. Annað mál sem mér sýnist að ekki geti beðið öllu lengur að tekið sé á eru sívaxandi þyngsl hins svokallaða ,,bákns” í öllum rekstri. Alltof margir opinberir embættismenn lifa nú af því að hafa eftirlit með oft á tíðum ónauðsynlegum hlutum. Sífellt eru samdar nýjar reglugerðir sem kalla á heimsóknir embættismanna, úgáfu leyfa og stöðuga endurnýjun þeirra, oft án sýnilegrar tengingar við raunveruleikann, sem og eftirlit sem embættismenn oft með takmarkaðan skilning á eðli rekstrar virðast hafa í höndum sér hversu smásmugulegt er. Öllu þessu fylgja mikil fjárútlát fyrirtækja. Við þetta verður ekki lengur búið og tímabært er að stappa niður fótum og mótmæla.

Ætli Samtök iðnaðarins að hafa breiða skírskotun til fyrirtækja í landinu og telja sig geta verið fulltrúa allra er nauðsynlegt að forsvarsmenn samtakanna taki tillit til þarfa og sjónarmiða lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Fyrirtækja sem eru rekin af eigendum sínum og byggð upp af þeim frá grunni. Hinn sjálfstæði atvinnurekandi verður að finna að hann eigi skjól í samtökum sem þessum og að á hann sé hlustað. Lykilinn að samstöðu innan samtaka er skilningur á milli mismunandi fyrirtækja. Nauðsynlegt er því að samsetning stjórnar Samtaka iðnaðarins endurspegli fjölbreytileika samtakanna og að sem flestar greinar hafi fulltrúa í stjórn. Það er ákaflega nauðsynlegt að svo sé á meðan það er í reynd ónauðsynlegt að ein atvinnugrein sem finnst innan samtakanna hafi margar raddir við stjórnarborðið. Raddir sem flestra verða að fá að hljóma, annars er tilgangslaust að tala um samtök. Nánar.

 

Tryggvi Hjaltason, Senior Strategist hjá CCP Games

Tryggvi-Hjaltason_1612782399180Ég hef fengið að taka þátt í starfi SI undanfarin ár. Við það hef ég kynnst ótrúlegum molum og eldkláru fólki sem ég hef lært svo mikið af. Ég hef líka fengið að taka þátt í að byggja upp samfélag hugverkafyrirtækja sem í dag eiga skilvirk og uppbyggileg samtöl við stjórnmálamennina okkar og stjórnsýsluna um það hvernig hægt sé að gera Ísland enn betra.

Þetta eru forréttindi og mig langar að gefa meira af mér í þessa vinnu og á breiðari grundvelli vegna þess að ég hef séð hvernig hægt er að breyta Íslandi með auðmjúkri greiningardrifinni nálgun þar sem reynt er að virkja orku alls þessa öfluga fólks sem eru fulltrúar mörg hundruð fyrirtækja sem mynda kjarna Samtaka iðnaðarins.

Næstu tvö ár verða mikilvæg. Ný ríkisstjórn mun taka við og fyrir dyrum standa lykil sóknartækifæri í menntakerfinu, orkukerfinu, í gagnamálum, nýsköpun, skattalegum hvötum, vinnumarkaðsmálum, hvataumhverfi starfsmanna, fjármögnunarumhverfinu og áfram má telja.

Sértækari dæmi eru til dæmis að við blasir að hægt verður á næstu tveimur árum að innsigla leiðandi umhverfi á Íslandi á sviði nýsköpunar, rannsókna- og þróunar fyrir allar greinar iðnaðar og byggja undir stórsókn í menntamálum þar sem iðn- og verk-, og tæknigreinum verður gert hærra undir höfði. Dæmin eru fleiri.

Ég sit í stjórn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja ásamt því að vera formaður Hugverkaráðs. Ég starfa sem Strategist fyrir tölvuleikjafyrirtækið CCP og hef starfað fyrir fimm ráðherra í þremur ráðuneytum.

Ég tel að við okkur blasi risa tækifæri en til þess að nýta þau þarf að dýpka samfélög á milli iðngreina, styrkja enn frekar jákvætt samtal við stjórnmálamennina okkar og gera fleiri alvöru gagnadrifnar greiningar sem dýpka og vanda umræðuna. Ég vil læra meira af ykkur og reyna að beisla meira af þeirri orku til þess að Ísland verði land tækifæranna. Að beisla visku félagsmanna er ofurkrafturinn sem við sameiginlega höfum.