Framboð til stjórnar SI
Framboðsfrestur til stjórnar Samtaka iðnaðarins auk fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins rann út í gær 9. febrúar. Alls bárust sjö framboð til stjórnar SI. Í ár er kosið um fjögur almenn stjórnarsæti.
Framboð til stjórnar:
Ágúst Þór Pétursson, byggingarstjóri Mannvit hf.
Mér hefur hlotnast það traust að hafa verið kjörin til stjórnarsetu í Samtökum iðnaðarins frá árinu 2019. Það hafa verið viss forréttindi og ánægja þessi fjögur ár að hafa fengið tækifæri á að kynnast fjölbreytilegri flóru iðnaðar um allt land og leggja mitt á vogaskálarnar í þeirri viðleitni að tryggja íslenskum iðnaði samkeppnishæf rekstrarskilyrði. Að vera fulltrúi ríflega 1.400 aðildarfyrirtækja, með mismunandi sjónarmið og þarfir, krefst víðsýni og opins huga þeirra sem mynda stjórn SI. Þess hef ég gætt og haft að leiðarljósi að samtvinna skoðanir mismunandi þarfir aðildarfyrirtækja, stórra sem smáa.
Menntamál verknámsgreina hafa einnig verið mér hugleikin. Ég sit í sveinsprófsnefnd húsasmiða og í umboði stjórnar SI hef ég setið í stjórn Tækniskólans frá árinu 2021.
Þekking mín og reynsla úr atvinnulífi og félagsstörfum því tengdu er yfirgripsmikil og tel ég það hafi nýst vel innan stjórnar SI. Ég lauk sveinsprófi í húsasmíði 1988 og öðlaðist meistararéttindi 1994. Ég sat í stjórn Meistarafélags iðnaðarmanna í Hafnarfirði frá árinu 2006 og til 2019 þar af 11 ár sem formaður. Sem formaður MIH kom ég að margvíslegu starfi innan SI. M.a. kom ég að stofnun Meistaradeildar SI árið 2009 og sinnti þar formennsku um tveggja ára skeið. Þótt reynsla mín sé fyrst og fremst af mannvirkjagerð tel ég að sú reynsla nýtist á öllum sviðum iðnaðar enda lít ég svo á að hver sá sem tekur sæti innan stjórnar SI sé kjörin til að gæta að hagsmunum allra aðildafyrirtækja en ekki einstakra greina því öll þurfum við á hvort öðru að halda.
Þá hef ég einnig átt sæti í Mannvirkjaráði SI og setið í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins. Hljóti ég kjörgengi til stjórnar SI enn á ný er það von mín að mitt framlag til starfa í ykkar þágu geti verið gott innlegg í þá fjölbreyttu flóru starfsgreina sem hlúð er að innan SI. Mikilvægt er að raddir sem flestra iðn- og framleiðslugreina fái að heyrast svo úr verður góður samhljómur.
Guðrún Halla Finnsdóttir, verkefnastjóri viðskiptaþróunar Norðuráls
Gleðilegt er að sjá hversu mörg félög, fyrirtæki og einstaklingar sjá hag í því að vera aðili að Samtökum iðnaðarins. Alltaf fjölgar í hópnum og starfsfólk SI hefur í nægu að snúast við að efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar í þágu samfélagsins alls. Enda er iðnaður vægast sagt mikilvægur íslensku samfélagi þar sem hann býr til 45% útflutningstekna og 22% starfa á landinu.
Nú er ég að ljúka mínu öðru kjörtímabili í stjórn SI og hef haft mikla ánægju af því að koma að stefnumótun og veita stuðning við frábært starf SI. Starfsfólk SI vakir og sefur yfir að veita félagsmönnum framúrskarandi þjónustu, beita sér í öflugu hagsmunastarfi, ásamt því að stuðla að ásýnd SI sé sem sterkust.
Íslenskur iðnaður stendur frammi fyrir áskorunum loftlagsbreytinga eins og heimsbyggðin öll og munum við ekki láta okkar eftir liggja þegar kemur að orkuskiptum og öðrum nauðsynlegum skrefum. Því þarf að tryggja að atvinnulífinu verði gefið nægt svigrúm til að finna bestu lausnirnar sjálft en jafnframt með stuðningi stjórnvalda. Nauðsynlegt er að tryggja næga raforku til að stuðla að orkuskiptum landsins alls en einnig hlúa að starfsgreinum sem eru undirstaða áframhaldandi hagvaxtar og góðra lífskjara.
Ég hef starfað hjá Norðuráli frá árinu 2016. Þar hef ég sinnt öllu sem viðkemur raforkusamningum fyrirtækisins, tekið þátt í að móta stefnu fyrirtækisins í raforkumálum og borið ábyrgð á losunarheimildum fyrir viðskiptakerfi ESB, ásamt ýmsu öðru. Áður starfaði ég hjá raforkufyrirtækinu Southern California Edison í Los Angeles þar sem ég vann að stefnumótun og greiningu.
Mér er annt um að Íslandi takist vel til í áskorunum næstu ára og þar mun íslenskur iðnaður leika lykilhlutverk. Ég tel að þekking mín á núverandi starfi SI og reynsla mín í orkumálum geti komið að gagni og býð ég mig þess vegna fram til áframhaldandi setu í stjórn SI.
Karl Andreassen, forstjóri Ístaks
Ég hef starfað lengi í bygginga- og mannvirkjageiranum bæði hér á landi sem og erlendis og náði einnig að starfa í fiskiðnaði, bæði á sjó og landi.
Ég er menntaður húsasmiður og húsasmíðameistari í grunninn og bætti síðar við mig byggingatæknifræði og iðnrekstrafræði. Þessi menntun hefur nýst mér vel í mínum störfum hér heima og erlendis þar sem að ég hef bæði menntað mig og starfað.
Síðustu 8 ár hef ég leitt verktakafyrirtækið Ístak, en þar á undan var ég starfandi hjá Per Aarsleff A/S í Danmörku þar sem að ég stjórnaði Norðuratlants-deild þess fyrirtækis í 5 ár. Einnig starfaði ég í 11 ár fyrir MTHojgaard í Danmörku í erlendu deild þeirra við ýmis verkefni í fleiri löndum.
Ég hef mikinn hug á eflingu iðnmenntunar og fjölbreyttum námsleiðum til endurmenntunar eftir þá menntun. Allt með það að markmiði að skapa iðnaðinum öflugu iðnaðar- og tæknifólki til starfa.
Ég horfi til stærri innviðaverkefna hér á landi og uppbyggingu fyrir samfélagið á sem hagkvæmastan hátt. Taka þátt í að minnka þær stóru sveiflur sem að einkenna oft markaðinn og fá eins heilbrigðan markað og heilbrigða samkeppni eins og unnt er með réttu regluverki og eftirliti og þroskuðum útboðsmarkaði.
Eins tel ég það vera mikla áskorun fram undan í öllum iðnaði, að minnka sóun og stuðla að hagkvæmri leið til orkuskipta. Hér er ég á þeirri skoðun að hið opinbera þurfi að koma sterkt inn með raunverulega hvata til að flýta fyrir hagkvæmum orkuskiptum í takt við þróun á tækjum og búnaði í hvert sinn.
Allt þetta sem að ég er að lista upp er að sjálfsögðu verið að vinna að á vegum hinna ýmsu ráða innan SI og hef ég sjálfur starfað í Mannvirkjaráði SI og setið í stjórn Mannvirkis síðan 2015, þar sem flest af þessum málefnum eru tekin fyrir.
Ef ég næ kjöri, er ég viss um að kröftum mínum muni vera vel varið innan stjórnar SI og trúi því að bakgrunnur minn, eigi eftir að nýtast þar vel í þeim fjölbreyttu málefnum sem þar koma upp á borð. Með hagkvæmni og skýrum markmiðum náum við langt.
Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri Launafls í Fjarðabyggð
Ég hef starfað sem framkvæmdastjóri Launafls frá árinu 2007. Launafl þjónar fjölbreyttum hópi viðskiptavina, allt frá einstaklingum að stóriðju. Ég hef víðtæka reynslu í stjórnun og rekstri fyrirtækja í um 40 ár.
Ég var kosinn í stjórn Samtaka iðnaðarins árið 2019. Þessi 4 ár hafa veitt mér einstaka sýn á hvað iðnaður landsins er fjölbreyttur og ennfremur burðarás hagkerfis okkar. Þess vegna býð ég aftur fram krafta mína í þágu alls iðnaðar á Íslandi.
Samtök iðnaðarins eru með svo ólíkar atvinnugreinar innan sinna vébanda og sjónarmið hverrar greinar allt öðruvísi en annarra. Þrátt fyrir það er það með ólíkindum hvað starfsfólk samtakanna sinnir vel sínu starfi og gætir hagsmuna hverrar greinar af kostgæfni.
Nú er hugverkaiðnaðurinn orðin fjórða stoð útflutnings að viðbættum iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum síðan. Skoðun mín er sú að stór og öflug samtök séu betur til þess fallin að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, heldur en lítil og dreifð félagasamtök.
Framtíð iðnaðar veltur mikið á því hvernig tekst að fá fleiri nemendur til að stunda iðnnám, en einungis er um 15% sem velja iðnnám. Nýr Tækniskóli myndi gjörbreyta þessu, en vísa hefur þurft um 1.300 nemum frá skólanum s.l. 2 ár. Grunnur að öflugum iðnaði er sá að byrja þarf kennslu í grunnskólum landsins í námi tengdum iðnað og hef ég nýlega viðrað þessa skoðun mína við mennta- og barnmálaráðherra að námskrá varðandi slíkt þurfi að breytast.
Sköpum áfram öflugan iðnað og þar tel ég að reynsla mín geti nýst vel á þeim vettvangi. Í komandi stjórnarkjöri óska ég félagsmaður góður eftir stuðningi þínum.
Stefán Örn Kristjánsson, framleiðslustjóri Össurar
Ég er vélaverkfræðingur og hef undanfarin 20 ár starfað hjá Össuri. Í dag ber ég ábyrgð á framleiðslustarfsemi Össurar á Íslandi, Skotlandi og í Mexico. Í störfum mínum hjá Össuri hef ég tekið þátt í að koma vörum af þróunarstigi yfir í framleiðslu og sölu og tel mig búa yfir ágætis reynslu og þekkingu á þeim áskorunum sem fylgja því að reka nýsköpunar- og framleiðslufyrirtæki á Íslandi og í alþjóðlegu umhverfi.
Í heimi alþjóðavæðingar er mikilvægt fyrir íslenskan iðnað að tryggja samkeppnishæfni með því að leita stöðugt nýrra tækifæra til aukinnar framleiðni og bættra gæða. Öflugur iðnaður hér á landi getur haldið áfram að vaxa og dafna með stöðugu rekstrarumhverfi, frjóum jarðvegi nýsköpunar, fjárfestingum í sjálfvirkni og síðast en ekki síst öflugri menntun.
Samtök iðnaðarins eru málsvari fjölmargra ólíkra atvinnugreina sem hafa mismunandi þarfir en eiga jafnframt mikla sameiginlega hagsmuni. Samtökin gegna lykilhlutverki við að hlúa að hagsmunum fjölbreytts íslensks iðnaðar, viðhalda sterkri ímynd og þjónusta félagsmenn. Samtökin hafa borið gæfu til að marka og fylgja eftir skýrri málefnalegri stefnu, sem gagnast ekki aðeins íslenskum iðnaði og félagsmönnum, heldur samfélaginu öllu. Undanfarið ár hef ég kynnst af fyrstu hendi því öfluga starfi sem SI sinnir í þágu íslensks iðnaðar, sem 1. varamaður stjórnar, og hef sannarlega áhugann og metnaðinn fyrir því að ljá samtökunum krafta mína og reynslu.
Ég býð mig fram til stjórnar Samtaka iðnaðarins með von um að leggja málefnum fjölbreytts íslensks iðnaðar lið.
Vignir Bjarnason, verkefnastjóri ofnviðhalds hjá Elkem Ísland
Ég hef starfað við iðnaðarstarfsemi á Grundartanga frá árinu 2014. Fyrst sem tæknimaður hjá vélsmiðjunni Hamri (HD í dag) og svo sem verkefnastjóri ofnviðhalds hjá Elkem Ísland. Þessi tími hefur kennt mér það að betur þarf að huga að menntamálum tengdum iðngreinum á Íslandi. Skortur á iðnaðarmönnum í flestum greinum er viðvarandi og oft erfiður. Mörg fyrirtæki í þessum geira eiga í erfiðleikum með að manna stöður sem losna.
Því tel ég afar mikilvægt að vinna að menntamálum tengdum iðnaði. Auka þarf kynningu á iðngreinum fyrir grunnskólanemum og bæta ímynd iðngreina út á við. Þannig væri hægt að fjölga nemendum sem velja iðngreinar.
Með framboði mínu er ég að bjóða fram krafta mína í þessa vinnu. Ég vil hjálpa til við að auka veg iðngreina á Íslandi og bæta þannig það umhverfi sem svo margir starfa í.
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf.
Ég hef lengi brunnið fyrir bættum starfsskilyrðum íslensks atvinnulífs og hef mikinn áhuga á að bjóða fram krafta mína í stjórn Samtaka iðnaðarins í þeim tilgangi. Það eru fjölmörg tækifæri til að einfalda regluverk og draga úr miklu skrifræði sem aukist hefur til muna á undanförnum árum. Ég hef víðtæka reynslu af íslensku atvinnulífi síðastliðin 30 ár, bæði úr iðnaði og fjármálageira, sem fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Samtaka álframleiðenda sem og af vettvangi stjórnmála.
Ég snéri aftur til starfa í íslenskum iðnaði eftir 10 ára fjarveru fyrir þremur árum þegar ég tók við starfi forstjóra Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. Félagið á og rekur þrjú umsvifamikil fyrirtæki í byggingariðnaði, BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna. Ég verð að segja að mér er brugðið yfir því hversu mikið flækjustig í regluverki hefur aukist á síðastliðnum áratug. Ég tel að eitt mikilvægasta hlutverk Samtaka iðnaðarins horft til næstu ára sé einföldun regluverks og að stuðla að auknum stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Þær áherslur gagnast öllum greinum iðnaðar, hvort sem horft er til framleiðslu, nýsköpunar, hugbúnaðar eða mannvirkjagerðar.
Ég óska því eftir þínum stuðningi til þeirra verka í stjórn Samtaka iðnaðarins