Fréttasafn



12. feb. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Framboð til stjórnar SI

Framboðsfrestur til stjórnar Samtaka iðnaðarins auk fulltrúaráðs Samtaka atvinnulífsins rann út síðastliðinn föstudag 7. febrúar. Alls bárust sjö framboð til stjórnar SI. Í ár er kosið um fjögur almenn stjórnarsæti.

Framboð til stjórnar: 

Baldur Stefánsson, stjórnarformaður Algalíf hf.

BaldurKæri félagi. Ég hef verið stjórnarformaður Algalíf hf. síðan 2022, en félagið sérhæfir sig í framleiðslu örþörunga með ljóstillífun. Framleiðsluaðferðin byggir á því að nýta græna íslenska endurnýjanlega orku á stórum skala og er félagið í örum vexti. Í gegnum störf mín fyrir Algalíf hef ég m.a. kynnst ágætlega starfsemi orkumarkaða á Íslandi og tel mikilvægt að halda áfram að bæta umgjörð og uppbyggingu orkugeirans. Þá hef ég komið að ýmsum verkefnum í íslenskum hugverkageira og er í dag einnig formaður stjórnar gervigreindartæknifyrirtækisins OZ Sports Inc.

Ég hef að aðalstarfi undanfarin 20 ár starfað við fyrirtækjaráðgjöf og fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi og erlendis og komið að fjölmörgum fyrirtækjaráðgjafarverkefnum á því tímabili. Á árunum 2004 til 2008 var ég verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og árið 2008 einn af stofnendum fjármálafyrirtækisins Arctica Finance, og meðeigandi og verkefnastjóri þar til ársins 2016. Ég tók að mér starf framkvæmdastjóra Beringer Finance á Íslandi árið 2016 og sat jafnframt í framkvæmdastjórn Beringer Finance fjárfestingarbankans, sem þá var með starfsemi í Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum og Íslandi. Kvika banki keypti árið 2017 starfsemi Beringer Finance á Íslandi og settist ég í framhaldinu í framkvæmdastjórn Kviku banka og tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar bankans. Árið 2022 stofnaði ég fjárfestinga- og ráðgjafafyrirtækið Hamra Capital Partners, ásamt Sveini Heiðari Guðjónssyni, Bjarka Logasyni og Kviku banka, og er þar framkvæmdastjóri í dag.

Þá hef ég m.a. tekið þátt ýmsum í lista-, menningar- og félagsstörfum, bæði sem tónlistar- og umboðsmaður (einn af stofnendum hljómsveitarinnar Gus Gus árið 1995) og framleiðandi (einn af stofnendum Iceland Airways tónlistarhátíðarinnar árið 1999). Einnig hefur ég setið í fjölda stjórna og var á árunum 2005 til 2020 formaður meistaraflokksráðs knattspyrnudeilar KR.

Ég er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík, nam stjórnmála- og hagfræði við Háskóla Íslands og er með MBA gráðu frá IESE í Barselóna.

Ég tel að fjölbreytt reynsla mín og bakgrunnur geti nýst vel í starfi Samtaka Iðnaðarins og býð því fram mína krafta.

Hjörleifur Stefánsson, framkvæmdastjóri Nesraf rafverktaka

Ágæti viðtakandi. Ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram til stjórnarsetu í stjórn Samtaka iðnaðarins.

Ég heiti Hjörleifur Stefánsson, er fæddur 1962 og uppalin og búsettur í Keflavík, er framkvæmdastjóri Nesraf rafverktaka sem er með um 25 starfsmenn. Ég er kvæntur Sigríði Ásdísi Guðmundsdóttur myndlistakennara og eigum við 3 uppkomin börn Stefán Agnar, Sigrúnu Ýr og Hinrik Snæ.

Ég hef til fjölda ára starfað mikið að félagsmálum af ýmsum toga. Ég hef verið formaður Samtaka rafverktaka, Sart, undanfarin átta ár og er formaður rafverktakafélags Suðurnesja, auk þess er ég meðlimur í Oddfellow reglunni. Þá var ég í fjölda ára í stjórn knattspyrnudeildar Keflavíkur. .

Ég er að ljúka mínu áttunda ári sem formaður Samtaka rafverktaka sem er hámarkstími setu formanns. Fyrir Samtök rafverktaka hef ég tekið að mér fjölda trúnaðarstarfa. Er þar helst að nefna stjórn og stjórnarformennska Rafmenntar sem er menntasetur rafiðnaðarins, ég hef setið í stjórn Samtaka atvinnulífsins, samninganefnd, stjórn Nemastofu ásamt því að vera fulltrúi SI í ýmsum stjórnum og nefndum.

Mínar helstu áherslur til hagsbóta fyrir íslenskan iðnað eru menntamál og að standa vörð um iðn-löggjöfina er varðar löggildingar og starfsréttindamál.

Ég hef verið talsmaður þess að endurskoða allt iðnám þar sem við í rafiðnaðinum höfum verið í fararbroddi er kemur að endurmenntun og höfum stuðlað að því að þeir nemar sem ekki komast að í hefðbundnu iðnnámi fái tækifæri til menntunar hjá Rafmennt.

Öryggis- og vinnuvist á vinnumarkaði eru málefni sem ég brenn fyrir og hef verið þátttakandi í því að stuðla að auknu öryggi rafiðnaðarmanna á vinnumarkaði á ýmsan hátt og nú síðast komið að stofnun Öryggisskóla iðnaðarins í samstarfi Iðunnar og Rafmenntar.

Síðustu ár hef ég einnig tekið þátt í erlendu samstarfi, bæði norrænu og Evrópusamstarfi á vegum Sart.

Ég tel að við innan SI þurfum að tryggja með öllum ráðum að Evróputilskipanir séu ekki of íþyngjandi fyrir okkar smáa markað (tryggja að engar gullhúðanir séu gerðar) og leitast eftir að fá sérstöðu okkar viðurkennda í Evrópusamstarfi.

Mín helstu áhugamál eru að hlúa að börnum og barnabörnum, ferðalög á erlendri grundu, stangveiði og síðustu ár golf þar sem ég er markvisst að vinna að lækkun forgjafar.

Ég tel að með reynslu minni í hinum ýmsu stjórnum og nefndum geti ég með setu í stjórn SI lagt mitt af mörkum til framþróunar og áframhaldandi velsældar í íslenskum iðnaði.

Karl Andreassen, forstjóri Ístaks

KA.NuukÉg hef lengi starfað í bygginga- og mannvirkjaiðnaði, bæði hér á Íslandi og erlendis, og unnið við fjölbreytt verkefni. Eins starfaði ég sem ungur maður við fiskiðnað á sjó og landi, sem veitti mér verðmæta innsýn í þá iðngrein.

Menntun mín sem húsasmiður og húsasmíðameistari, ásamt námi í byggingatæknifræði og iðnrekstrafræði, hefur reynst mér mjög vel í störfum mínum, bæði innanlands og utan. Undanfarin tíu ár hef ég leitt verktakafyrirtækið Ístak, auk þess að hafa stofnað og stýrt Norðuratlantsdeild Per Aarsleff A/S í Danmörku í fimm ár og unnið í ellefu ár við erlend verkefni fyrir MTHojgaard A/S.

Í mínum störfum í stjórn SI síðustu tvö ár og eins í Mannvirkjaráði og Mannvirki, sem ég hef sinnt síðan 2015, hef ég lagt áherslu á að styðja við eflingu iðnmenntunar, heilbrigða útboðsmarkaði og stærri innviðaverkefni. Ég hef beitt mér fyrir stöðugleika á markaðnum og að stuðlað sé að heilbrigðri samkeppni með viðeigandi regluverki og eftirliti.

Ég tel mikilvægt að halda áfram að styrkja iðnaðinn okkar með sjálfbærni, nýsköpun, og bættu kynjahlutfalli. Þá þarf að bæta framleiðni í iðnaði, minnka sóun og efla hagkvæma orkuskipti, þar sem hið opinbera á að koma að með sterkum hvötum til að flýta fyrir þeirri þróun.

Allt þetta starf er mikilvægt og krefst stöðugs fókus. Ef ég næ kjöri er ég fullviss um að geta nýtt reynslu mína og þekkingu til að takast á við þau fjölbreyttu málefni sem við stöndum frammi fyrir.

Með skýrum markmiðum og hagkvæmni í huga, trúi ég því að við náum langt saman.

Sara Lind Guðbergsdóttir, framkvæmdastjóri Climeworks á Íslandi

Sara-Lind-GudbergsdottirÉg heiti Sara Lind Guðbergsdóttir og hef yfirgripsmikla reynslu af stjórnunarstörfum, stefnumótun og umbótaverkefnum. Ég er framkvæmdastjóri Climeworks á Íslandi, þar sem ég stýri tveimur kolefnisföngunarverum og vinn að stefnumótun, hagsmunagæslu og þróun nýrrar tækni í iðnaði. Áður var ég forstjóri Ríkiskaupa og leiddi þar breytingar sem skiluðu umtalsverðum árangri í rekstri, skilvirkni og starfsánægju innan opinbera geirans. Þá starfaði ég sem tímabundinn forstjóri Orkustofnunar, þar sem ég hraðaði leyfisveitingum og bætti þjónustu við atvinnulífið. Fyrstu starfsárin mín vann ég sem lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu samhliða því að sitja í samninganefnd ríkisins við kjarasamningsgerð.

Bakgrunnur minn í lögfræði, mannauðsstjórnun og breytingastjórnun gerir mér kleift að skilja áskoranir fyrirtækja út frá lagalegu og rekstrarlegu sjónarhorni. Ég hef áralanga reynslu af stjórnarsetu í félögum sem snerta atvinnulíf og opinbera stjórnsýslu, þar á meðal í Lífeyrissjóði bænda, Vinnueftirlitinu og Ljósinu. Auk þess hef ég kennt mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands og sinnt fræðslu um vinnurétt og stefnumótun fyrir fyrirtæki og stofnanir um árabil.

Ég tel mig vera öflugan talsmann fyrir íslenskan iðnað þar sem ég hef reynslu af því að leiða stór verkefni og breytingar með árangri og bý að tengslum við stjórnvöld og atvinnulíf. Ég hef unnið að því að skapa hagstæð skilyrði fyrir rekstur og veit hvernig tryggja má brautargengi hagsmuna iðnaðarins.

Ég vil að íslenskur iðnaður verði í fararbroddi í verðmætasköpun, sjálfbærni, tækniþróun og samkeppnishæfni á alþjóðlegum mörkuðum. Til að ná því þarf að styðja við nýsköpun og grænar lausnir, einfalda regluverk og flýta fyrir leyfisveitingum, tryggja nægt framboð af faglærðu starfsfólki og efla samstarf við stjórnvöld og fjárfesta. Með skýra framtíðarsýn og sterkan bakgrunn í stefnumótun og stjórnun vil ég vinna að því að gera íslenskan iðnað betur í stakk búinn til að nýta þau tækifæri sem framtíðin býður upp á. Hér er hægt að nálgast CV.

Sigrún Helgadóttir, framkvæmdastjóri Norðuráls á Grundartanga

Nordural_Sigrun_13585_croppedSamtök iðnaðarins gegna lykilhlutverki fyrir íslenskan iðnað og samkeppnishæfni hans. Mikil og þörf vinna hefur verið unnin síðastliðin ár en stór hagsmunamál, áskoranir og verkefni bíða úrlausnar á komandi misserum svo sem loftslagsmál, orkumál og tækniframfarir. Tryggja þarf að í íslenskum iðnaði sé til staðar sú þekking sem þörf er á. Þess vegna er mikilvægt að hlúa að hugviti og nýsköpun, tryggja fyrirsjáanleika og gott rekstrarumhverfi. Ég tel mikilvægt að sá fjölbreytti hópur einstaklinga og fyrirtækja sem starfar um land allt og saman skapar íslenskan iðnað, sjái sér hag í starfi samtakanna.

Ég hef starfað hjá Norðuráli frá árinu 2012 og tekið þátt í rekstri fyrirtækisins við margs konar aðstæður. Hjá Norðuráli starfa rúmlega 600 manns, frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Ég hef einnig víðtæka stjórnunarreynslu úr fjármálageiranum en áður starfaði ég m.a. hjá Kaupþingi, Kauphöllinni í Osló og Verðbréfaþingi Íslands, nú Kauphöll Íslands. Ég sit í stjórn Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og er með cand. oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Norwegian School of Management (BI).

Ég tel að þekking mín og reynsla geti komið að góðum notum við áframhaldandi stefnumótun og að styðja það frábæra starf sem starfsfólk Samtaka iðnaðarins vinnur á hverjum degi. Ég hef mikla trú á íslenskum iðnaði og vil leggja hönd á plóg við að viðhalda og styrkja samkeppnishæfni hans enn frekar, samfélaginu og okkur öllum til heilla. Þess vegna býð ég mig fram til stjórnar SI.


Sigþór H. Guðmundsson, yfirlögfræðingur Controlant hf.

Sigþór H. GuðmundssonRegluverk og rekstrarumhverfi fyrirtækja á Íslandi er of flókið og of dýrt. Það á jafnt við um stór útflutningsfyrirtæki sem og hefðbundin iðnfyrirtæki sem þjónusta heimamarkaðinn. Óþörf blýhúðun EES-reglna hefur aukið skriffinnsku, hækkað kostnað og dregið úr samkeppnishæfni Íslands. Þeirri þróun verður að snúa við.

Samtök iðnaðarins hafa barist fyrir einföldun regluverksins, bættri innleiðingu og aukinni skilvirkni svo íslenskt atvinnulíf geti vaxið og dafnað. Þeirri baráttu vil ég leggja lið og miðla af áratugareynslu minni af milliríkjaviðskiptum, þekkingu á regluverki ólíkra landa og áskorunum nýsköpunarfyrirtækja. Ég hef setið í varastjórn SI síðastliðið ár, en býð mig nú fram til setu í aðalstjórn samtakanna. Varamennskan hefur veitt mér góða innsýn í mikilvægt starf SI og kveikt áhuga á aukinni þátttöku í hagsmunabaráttunni. Ég veit hvers samtökin eru megnug og hversu mikilvægt er að rétt fólk veljist til forystu.

Aðild að Samtökum iðnaðarins hefur reynst Controlant afar gagnleg. Við höfum notið leiðsagnar SI, bæði á tímum mikils vaxtar sem og samdráttar, og skiljum vel hlutverk samtakanna. Það hlutverk hefur sjaldan verið mikilvægara en einmitt nú, þegar óveðursský á alþjóðavettvangi hrannast upp með mögulegum tollahækkunum, álögum og öðrum viðskiptahindrunum. Ef fast er haldið um stýrið getur íslenskur iðnaður siglt fimlega í gegnum öldurótið, tryggt áframhaldandi aðgengi að erlendum mörkuðum og unnið ötullega að því að festa í sessi sem besta stöðu íslenskra fyrirtækja í síbreytilegu alþjóðlegu umhverfi.

Ég óska eftir þínum stuðningi til setu í stjórn SI.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf.

Ég hef setið í stjórn Samtaka iðnaðarins undanfarin tvö ár og óska eftir umboði þínu til áframhaldandi stjórnarsetu. Ég hef víðtæka reynslu af íslensku atvinnulífi síðastliðin 30 ár, bæði úr iðnaði og fjármálageira, sem fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Samtaka álframleiðenda sem og af vettvangi stjórnmála. Ég tel að sú mikla reynsla nýtist mér vel í baráttunni fyrir bættum starfsskilyrðum íslenskra fyrirtækja sem ég brenn fyrir.

Ég hef lengi brunnið fyrir hagmunum íslensks atvinnulífs og vil leggja áherslu á einfaldara regluverk og aukna skilvirkni af hálfu hins opinbera. Undirstaða velmegunar hér á landi felst í öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi og þar skipta hagstæð starfsskilyrði öllu máli. Hvort sem horft er til sprotafyrirtækja eða rótgróinnar starfsemi, hugbúnaðar og tæknifyrirtækja, mannvirkjageirans eða framleiðsluiðnaðar. Öll þurfum við á stöðugu rekstrarumhverfi að halda með aðgengi að öflugu og hæfu starfsfólki. Samtök iðnaðarins hafa um áratuga skeið barist fyrir bættum rekstrarskilyrðum fyrir íslenskt atvinnulíf og ég vil gjarnan leggja þeirri baráttu lið áfram með þínum stuðningi.

Ég starfa sem forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, sem á og rekur þrjú umsvifamikil fyrirtæki í byggingariðnaði, BM Vallá, Björgun og Sementsverksmiðjuna. Að auki hef ég undangengin þrjú ár unnið að undirbúningi umfangsmikillar erlendrar fjárfestingar hér á landi tengdri okkar rekstri. Ég verð að segja að mér er brugðið yfir því hversu mikið flækjustig í regluverki hefur aukist á síðastliðnum áratug.

Svifaseint og flókið regluverk kemur helst niður á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem ekki hafa fjárhagslegt svigrúm til að takast á við það. Slíkt umhverfi hamlar nýsköpun og hagvexti. Ég tel því eitt mikilvægasta hlutverk Samtaka iðnaðarins vera einföldun regluverks og að stuðla að auknum stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja. Þær áherslur gagnast öllum greinum iðnaðar, hvort sem horft er til framleiðslu, nýsköpunar, hugbúnaðar eða mannvirkjagerðar.

Ég óska því eftir þínum stuðningi til þeirra verka í stjórn Samtaka iðnaðarins.