Fréttasafn4. sep. 2020 Almennar fréttir

Framhaldsaðalfundur SI

Framhaldsaðalfundur Samtaka iðnaðarins, Iðnþing, verður haldinn föstudaginn 18. september kl. 10.00–12.00, í Norðurljósum í Hörpu.

Dagskrá:

Lagabreytingar
Önnur mál

Aðrir lögbundnir dagskrárliðir voru teknir fyrir á aðalfundi samtakanna þann 30. apríl sl.

Í ljósi samkomutakmarkana og sóttvarnarráðstafana er nauðsynlegt að skrá sig á fundinn fyrir 16. september svo hægt verði að gera viðeigandi ráðstafanir í salnum.

Ef spurningar vakna vinsamlegast sendið fyrirspurn á mottaka@si.is.

Tillaga að breytingum á lögum Samtaka iðnaðarins

Lagðar eru til breytingar á 2. gr., 10. gr., 19. gr. og IX. kafla laga SI.

Lagt er til að við 2. mgr. 2. gr. laga SI, er varðar meginhlutverk Samtaka iðnaðarins, bætist nýr málsliður sem hefur það markmið að tryggja betur aðildarhæfi Samtaka iðnaðarins í málum er varða hagsmuni félagsmanna, bæði gagnvart stjórnsýslu og dómstólum.

Tillagan hljóðar svo: Standa vörð um hagsmuni félagsmanna og koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart opinberum aðilum og öðrum stofnunum, samtökum og fyrirtækjum í þeim málum sem hagsmuni þeirra varða. Í því felst m.a. að samtökin geta komið fram fyrir hönd félagsmanna, eins eða fleiri, fyrir dómstólum og stjórnsýslunefndum í málum sem varða sameiginlega jafnt sem einstaklingsbundna hagsmuni þeirra.

Einnig er lagt til gera breytingar á 10. gr. laga SI og er lagt til að 4. mgr. falli brott. Ákvæðið felur í sér undanþágu frá meginreglunni um að félagsmenn fái atkvæðamagn í hlutfalli við greitt félagsgjald fyrir næstliðið ár. Falli ákvæðið niður gildir meginreglan að fullu sem er til til þess fallið að einfalda framkvæmd kosninga.

Ákvæðið sem fellur brott hljóðar svo: Nýir félagsaðilar sem ganga í SI á milli funda fá atkvæðamagn í samræmi við lágmarks félagsgjald, þar til þeir hafa greitt hærra félagsgjald.

Því næst er lagt til að gera breytingar á 2. og 4. mgr. 19. gr. laga SI með það að markmiði að skerpa á reglum um missi kjörgengi. Lagt er til að tilkynning um úrsögn úr Samtökum iðnaðarins leiði til þess að einstaklingur missi kjörgengi sitt og sæki einstaklingur kjörgengi sitt til félagsaðila sem hefur sagt sig úr samtökunum þá missir einstaklingur kjörgengi við tilkynningu félagsaðila um úrsögn.

Lagt er til að við 2. mgr. 19. gr. bætist svohljóðandi málsliður: Einstaklingar sem tilkynnt hafa um úrsögn sína úr Samtökum iðnaðarins sem og þeir einstaklingar sem starfa hjá eða sitja í stjórn hjá félagsaðila sem hefur tilkynnt um úrsögn missa kjörgengi sitt frá því tilkynning berst Samtökum iðnaðarins skv. 7. gr.

Ennfremur er lagt til að aftan við 1. málsl. 4. mgr. 19. gr. laga SI bætist „skal stjórnarmaður þegar víkja úr stjórn.“ Hljóðar þá 4. mgr. svo: Ef stjórnarmaður forfallast varanlega eða missir kjörgengi á milli Iðnþinga skal stjórnarmaður þegar víkja úr stjórn. Tekur sá sæti hans er næstur var að atkvæðafjölda við síðasta stjórnarkjör og skal hann ganga úr stjórn þegar kjörtímabili þess stjórnarmanns lýkur, sem hann tók sæti fyrir.

Að lokum er lagt til að í IX. kafla laga SI bætist nýtt ákvæði sem veiti samtökunum formlega heimild til að stofna og/eða standa að stofnun félaga eða fyrirtækja sem samræmast markmiðum Samtaka iðnaðarins eða styðja við starfsemi samtakanna. Samtök iðnaðarins hafa hingað til tekið þátt í uppbyggingu fyrirtækja og sem og átt, tímabundið, í félögum og fyrirtækjum. Tímabært er að taka af skarið með heimild samtakanna til slíkra athafna í lögum SI.

Tillagan hljóðar svo: Samtök iðnaðarins hafa heimild til að stofna félag eða félög sem verða í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfseminnar. Þá er samtökunum einnig heimilt að standa að stofnun eða gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Tilgangur slíkra félaga þarf að samræmast markmiðum Samtaka iðnaðarins eða styðja við starfsemi samtakanna, þar á meðal ávöxtun fjármuna þeirra.

Félagsmönnum er heimilt að gera breytingartillögur við ofangreindar tillögur um lagabreytingar, með því að tilkynna stjórn SI þar um eigi síðar en átta dögum fyrir Iðnþing. Þá er stjórninni skylt að upplýsa félagsmenn um slíkar breytingartillögur eigi síðar en fimm dögum fyrir Iðnþing.