Fréttasafn9. des. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Framlag Íslands til loftslagsmála er mikilvægt

Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs sem SI er aðili að, segir í grein sinni í Markaðnum í Fréttablaðinu að Ísland sé í sérstakri stöðu í loftslagsmálum sem snúi að orkuskiptum sem sé stærsta áskorun þjóða heims. Hann segir að byrjun síðustu aldar hafi rafvæðing landsins hafist með virkjunum fallvatna og síðar með jarðhita og nú hafi tilraunir með virkjun vindorku bæst við. Árangurinn sé sá að 100% af íslenskri raforku komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum og það sama eigi við um húshitun, 100% af orku til húshitunar komi nú frá endurnýjanlegum orkugjöfum, langmest frá jarðhita. 

Eggertvefur3

Rafvæðing einkabíla komin á fulla ferð

Eggert Benedikt segir í grein sinni að á fleiri sviðum hafi mikill árangur náðst. Losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum hafi dregist saman um ríflega fjórðung á milli áranna 2005 og 2018. Þetta hafi tekist með betri stýringu veiða, betri hönnun skipa og þróun orkusparandi veiðarfæra. Enn séu stór verkefni óleyst. Þau stærstu snúi að því skipta út því jarðefnaeldsneyti, sem enn sé notað, fyrir græna orku. Rafvæðing einkabíla sé komin á fulla ferð og verði hreinorkubílar vonandi sjálfsagður kostur á næstu árum. Orkuskipti flutningabíla og vinnuvéla taki lengri tíma. Þau muni þó væntanlega byggja á vetni, framleiddu með endurnýjanlegum orkugjöfum, eða öðru rafeldsneyti. 

Losun frá úrvinnslu úrgangs lækkar hratt

Þá kemur fram í grein Eggerts Benedikts að losun frá úrvinnslu úrgangs hafi lækkað hratt undanfarin ár, þótt enn sé margt óunnið. Losun frá landbúnaði hafi verið nokkuð stöðug í mörg ár og þar sé kröftugra aðgerða þörf. Losun frá orkusæknum iðnaði, svo sem álverum, sé brot af því sem hún væri ef framleiðslan væri knúin með kola- eða gasorku, eins og viðtekið sé í flestum öðrum löndum. Losun þessara fyrirtækja lúti takmörkunum Evrópska viðskiptakerfisins og muni því lækka jafnt og þétt á næstu árum eins og það kerfi kveður á um. 

Grænar lausnir frá Íslandi

Í greininni segir að Ísland hafi frábæra sögu að segja: „Þótt verkefnin séu næg og okkur sé lífsnauðsynlegt að takast á við þau eins hratt og mögulegt er, þá eru tækifærin líka fjölmörg. Á mörgum sviðum höfum við þegar náð afar góðum árangri. Íslensk fyrirtæki hafa öðlast dýrmæta reynslu, sem við höfum deilt með öðrum þjóðum og tekið þátt í umfangsmiklum verkefnum til nýtingar endurnýjanlegrar orku víða um heim. Ef tölur um árangur í þeim verkefnum eru skoðaðar sést samdráttur í losun, sem er meiri en sem nemur allri losun Íslands. Eðlilega þarf að fara varlega í slíkan samanburð, en víst má telja að eitt mesta framlag Íslendinga í loftslagsmálum hafi orðið á erlendri grundu. Þessi þróun heldur áfram. Fjöldi íslenskra fyrirtækja þróar nú og hefur þegar markaðssett fjölbreyttar lausnir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, meðal annars með því að nýta lausnir hringrásarhagkerfisins. Margar þessara lausna gera hvort tveggja í senn. Annars vegar hjálpa þær okkur að takast á við þau verkefni sem enn eru óleyst. Hins vegar hjálpa þær öðrum þjóðum í sinni vegferð og auka um leið útflutning frá Íslandi og þar með gjaldeyrisöflun. Grænar lausnir frá Íslandi fela í sér gríðarlega mikilvæg tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, bæði þau sem nú þegar hafa aflað sér mikilvægrar þekkingar og reynslu og eins fyrir fyrirtæki í nýsköpun. En þær geta á sama hátt orðið mikilvægt framlag Íslands til baráttunnar í loftslagsmálum á heimsvísu. Það er því til mikils að vinna að styðja við og kynna þær með öflugum og markvissum hætti.“ 

Fréttablaðið, 9. desember 2020.