Fréttasafn3. okt. 2023 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Framleiðni hefur ekki vaxið í takti við launahækkanir

Í frétt Baldurs Arnarsonar blaðamanns Morgunblaðsins er Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, spurður hvort laun hafi verið hækkuð umfram innstæðu í síðustu kjarasamningum og segir hann að vísbendingar séu um það, framleiðni hafi ekki vaxið í takti við launahækkanir frá undirritun samninganna. „Við höfum bent á ýmsa þætti í því sem eru allir til þess fallnir að renna stoðum undir framboðshlið hagkerfisins. Þá til að auka framleiðni og skapa þannig grundvöll fyrir raunverulegum lífskjarabata og til að tryggja að nafnlaunahækkanir skili sér í hækkun á raunlaunum.“ 

Í fréttinni segir að með því að styðja við menntun og nýsköpun sé stuðlað að vexti fyrirtækja í greinum þar sem framleiðni er meiri og laun hærri en í öðrum greinum. Nefna megi hugverkaiðnaðinn sem dæmi um slíka grein. Jafnframt stuðli menntun og nýsköpun að aukinni framleiðni í þeim greinum sem fyrir eru. Borið hafi á skorti á starfsfólki í ýmsum greinum en menntakerfið ekki náð að anna þeirri eftirspurn. „Mikilvægt er að menntakerfið fylgi eftir slíkri þróun sem skapar þá grundvöll raunverulegra kjarabóta þar sem betur launuð störf taka við af öðrum verr launuðum,“ segir Ingólfur í fréttinni. Þá geti hið opinbera greitt götu húsbyggjenda, þar með talið með auknu framboði lóða, og þannig stuðlað að auknu framboði íbúða. Skortur á íbúðum hafi birst í verðhækkunum sem aftur ýti undir verðbólgu og hækkun vaxta. „Verðbólgan hefur verið þrálát meðal annars vegna þess að húsnæðisverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri og er vandinn þar búinn að vera framboðsskortur íbúða.“ 

Morgunblaðið, 3. október 2023.

Morgunbladid-03-10-2023