Framleiðsluiðnaðurinn þarf gott starfsumhverfi til að dafna
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, setti fyrsta Framleiðsluþing SI sem haldið var í Hörpu í morgun. Hér fer ávarp Guðrúnar:
Ég er alin upp við það að fara á fætur á morgnana, ganga yfir í næsta hús, dvelja þar í nokkra tíma og er ég leggst sæl á koddann minn á kvöldin að þá hef ég verið þátttakandi í því að búa eitthvað til. Ég hef lagt af mörkum. Einn daginn horfir maður á 5.000 dósir af VanilluMjúkís renna eftir færibandinu inn á frysti og næsta dag voru það 20.000 Grænir Hlunkar. Á hverjum degi í Kjörís framleiðum við frá 5.000 upp í 40.000 lítra af ísblöndum. Magnið fer eftir árstíðinni og tíðafarinu. Í litla samfélaginu mínu Hveragerði búa um 2.400 manns. Hjá okkur í Kjörís starfa 60 manns og fer starfsmannafjöldinn upp í 80 manns á sumrin. Kjörís er langstærsti vinnustaðurinn í Hveragerði fyrir utan stofnanir. Kjörís snertir nánast hvert einasta heimili með einum eða öðrum hætti. Við finnum því áreiðanlega fyrir mikilvægi okkar fyrirtækis í okkar góða samfélagi. Framleiðsla eins og okkar á sér marga aðra snertifleti. Grunnhráefni okkar er til dæmis undanrennuduft. Það fáum við frá Mjólkusamsölunni sem aftur fær það frá um það bil 15 meðalstórum kúabúum á Íslandi. Umbúðir fáum við meðal annars frá prentsmiðju Odda og Prentmeti, súkkulaði kaupum við einnig af NóaSírius, ýmsa þjónustu kaupum við af íslenskum fyrirtækjum s.s. Frostverk, Ísfrost, Ísmark og vöruna seljum við í samvinnu við íslenska verslun. Sú hugmynd föður míns að hefja ísframleiðslu í Hveragerði hefur átt þátt í því að skapa margvísleg önnur störf í nánast öllum greinum atvinnulífs. Þannig virka framleiðslufyrirtæki. Þau skapa störf og ekki bara hjá sjálfum sér.
Framleiðsluiðnaður leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans. Framleiðsluvörur tengja fólk og fyrirtæki, byggja íbúðir og atvinnuhúsnæði, flytja vörur og fólk, fæða og klæða, skapa störf og tekjur svo eitthvað sé nefnt. Segja má að afurðir framleiðsluiðnaðar umlyki okkur öll hvort sem er á heimili okkar eða á vinnustað.
Fyrsta iðnbyltingin átti sér rætur í framleiðsluiðnaði undir lok 18. aldar. Frá þeim tíma hafa tækniframfarir í þessari grein gjörbreytt heiminum og umhverfi okkar þannig að nær enginn hluti af okkar daglega lífi er ósnortinn af þeim framförum sem hefur orðið í þessari grein síðan.
Nú þegar við stöndum í fjórðu iðnbyltingunni er greinin að framleiða meiri hátæknivörur en nokkurn tímann hefur áður sést og á lægra verði en áður þekktist. Það nægir að nefna dæmi um farsímann sem er í dag öflugri tölva en stærstu tölvur voru fyrir fáeinum áratugum og fæst á mun lægra verði.
Tækniframfarir í greininni hafa byggt undir kaupmátt almennings og skapað svigrúm fyrir aukna velmegun. Þróunin hefur tengt lönd og heimshluta með hætti sem gerir það m.a. að verkum að Ísland er ekki lengur einangruð eyja í Atlandshafi heldur upplýst borgarsamfélag sem er iðandi af alþjóðlegu mannlífi.
Það er því ekki að ástæðulausu sem við erum hér samankomin í dag til að leiða hugann að mikilvægi íslensks framleiðsluiðnaðar og því hvers virði sú framleiðsla er fyrir það samfélag sem við búum nú í. Greinin er máttarstólpi og forsenda nútímasamfélags. Afurðir hennar er einn af stóru þáttunum sem greina samfélag dagsins í dag frá bændasamfélagi fortíðar. Nútímasamfélag er þannig skýr vitnisburður tækniframfara í framleiðsluiðnaði. Erum við Íslendingar í því sambandi bæði að framleiða og njóta.
„Við framleiðum á Íslandi“ er yfirskrift þessa fyrsta Framleiðsluþings SI og við getum sagt það með miklu stolti. Framleiðsluiðnaðurinn á sér langa sögu hér á landi, sögu sem stendur mér á margan hátt mjög nærri enda er ég alin upp innan þessarar greinar. Greinin hefur gengið í gegnum miklar breytingar bæði í eðli og umfangi og samanstendur af fjölbreyttri flóru fyrirtækja sem skapa mikil verðmæti fyrir íslenskt efnahagslíf.
Framleiðsluiðnaðurinn þarf gott starfsumhverfi til þess að geta dafnað. Með hraðri framþróun greinarinnar og umhverfi hennar núna á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar eru þessar þarfir að breytast. Við þurfum að vera vakandi fyrir þeim tækifærum og áskorunum sem í þessum breytingum felast og vera viðbúin því að aðlagast hratt til að tryggja samkeppnishæfni okkar á þessu sviði. Það er von mín að umræða okkar hér í dag færi okkur áfram á þessari mikilvægu og spennandi vegferð.
Þetta fyrsta Framleiðsluþing SI er hér með sett.