Fréttasafn24. maí 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Framtíð grænnar tækni rædd á opnum fundi SI

Tækifæri og áherslumál fyrirtækja í grænni tækni voru rædd í morgun á opnum fundi Samtaka iðnaðarins. Íslensk stjórnvöld hafa sett háleit markmið í loftslagsmálum þar sem stefnt er að kolefnishlutleysi Íslands árið 2040 og að landiði verði laust við jarðefnaeldsneyti fyrst allra landa í heiminum. Á fundinum kom fram að nýsköpun og tækniþróun leiki lykilhlutverk í að þeim markmiðum verði náð og því sé kappsmál að tryggja að regluverkið styðji við vöxt fyrirtækja sem þróa grænar lausnir. Mikil gróska er í grænni tækni hér á landi og á fundinum kynntu tvö fyrirtæki sínar lausnir og fóru þar að auki yfir þær áskoranir sem þau hafa staðið frammi fyrir í nýsköpunarumhverfinu hér á landi. Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, var fundarstjóri.

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, opnaði fundinn og sagði frá starfi Samtaka iðnaðarins og sér í lagi vinnu í tengslum við eflingu nýsköpunarumhverfisins. Í máli hennar kom fram að SI hafi um árabil talað fyrir úrbótum í stuðningsumhverfi nýsköpunar og lagt fram ítarlegar og skýrar tillögur í málaflokknum. Þetta hafi skilað sér í auknum endurgreiðslum vegna rannsóknar- og þróunarverkefna, auknum skattfrádrætti fyrir einstaklingsfjárfesta, fjölbreyttara umhverfi vísisjóða og hærri framlögum í samkeppnissjóði.

Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og sérfræðingur í umhverfis- og orkumálum, sagði stuttlega frá forsögu Clean Tech Iceland, CTI, starfsgreinahóps innan SI sem hefur það að markmiði að auka samstarf á milli fyrirtækja í grænni tækni, auka tengslanet þeirra og veita stjórnvöldum stuðning og aðhald. Í máli Lárusar kom fram að starfsgreinahópurinn hafi legið í dvala um árabil. Hann sagði að margt mætti bæta í regluverkinu og kallaði eftir því að sá möguleiki yrði skoðaður að CTI yrði endurvakinn, hvort sem er í breyttri mynd eða sömu. Lárus lagði ríka áherslu á að aðkallandi væri að gripið yrði til aðgerða sem fyrst þar sem ríki heims megi engan tíma missa í baráttunni við loftslagsvánna.

Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Alor, og Ómar Sigurbjörnsson, sölu- og markaðsstjóri Carbon Recycling International, CRI, kynntu fyrirtæki sín og fóru stuttlega yfir þær áskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Fyrirtækið Alor hefur um árabil þróað og hannað vistvænar og sjálfbærar álrafhlöður og orkugeymslur. Stefnt er að því að fyrsta prótótýpa fyrirtækisins líti dagsins ljós í ár og að framleiðsla hefjist á næsta ári. Linda Fanney nefndi að stærsta áskorun fyrirtækisins væri lítið sem ekkert aðgengi að styrktarfé fyrir nauðsynlegum tækjabúnaði en jafnframt lagði hún til að stjórnvöld myndu endurgreiða kostnað við þróun og vöxt fyrirtækja með loftslagslausnir. CRI hefur starfað síðan 2006 en fyrirtækið grípur CO2 úr andrúmsloftinu og býr til úr því metanól. Fyrirtækið starfrækir verksmiðjur á meginlandi Evrópu og í Kína. Ómar sagði fyrirtækið þurfa aukinn stuðning stjórnvalda við útflutning, til dæmis í formi svokallaðra „export credits“.

Að erindunum loknum tóku við umræður um stöðu fyrirtækja í grænni tækni. Áhugi var meðal fundarmanna á að endurvekja hópinn Clean Tech Iceland í einhverri mynd en allir voru sammála um að slík vinna væri þörf en þyrfti að vera markviss og uppbyggileg.

Hér er hægt að nálgast hluta af glærum fundarins.

Fundur-2022_2Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.

Fundur-2022_4Lárus M. K. Ólafsson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og sérfræðingur í umhverfis- og orkumálum. 

Fundur-2022_5Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Alor.

Fundur-2022_6Ómar Sigurbjörnsson, sölu- og markaðsstjóri Carbon Recycling International.

Fundur-2022_1Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI.