Fréttasafn5. jan. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Frestun á innviðafjárfestingu skerðir lífskjör

Nauðsyn á innviðafjárfestingu vegna niðurskurðar í kjölfar efnahagshrunsins birtist nú í breyttri markmiðasetningu stjórnvalda. Sé slík fjárfesting látin sitja á hakanum er hætt við að það komi á endanum niður á framleiðni og þar með lífskjörum auk sjálfbærni innviða. Þetta kemur fram í álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 sem birt hefur verið.

Í álitsgerðinni segir jafnframt að um leið krefjist hin breytta markmiðasetning þess að hugað sé að stöðugleika. Til skamms tíma hafa öll útgjöld áhrif á eftirspurn en áhrifin eru ólík og arðsöm fjárfesting sem byggir á hagkvæmri forgangsröðun mun til meðallangs tíma auka framleiðni sem aftur dregur úr framleiðsluspennu og styður þannig við stöðugleika að öðru óbreyttu. 

Innviðafjárfesting getur dregið úr þörf á aðhaldi

Einnig segir í álitsgerðinni að forgangsröðun verkefna þurfi því að endurspegla arðsemi þeirra. Mikilvægt sé að hafa í huga að framleiðni í efnahagslífinu ræður miklu um það hver framleiðsluspennan í hagkerfinu er. Aukin framleiðni dregur úr framleiðsluspennu og þar af leiðandi einnig úr þörfinni á aðhaldi. Framlögð fjármálastefna felur í sér markmið um innviðafjárfestingu sem getur, að öðru óbreyttu, haft áhrif til bættrar framleiðni til lengri tíma litið. Áhrif ólíkra innviðafjárfestinga á framleiðni eru ekki þau sömu. Fjármálaráð kallar eftir greiningu á framleiðniáhrifum þeirra verkefna sem fyrirhuguð eru, ekki síst í ljósi gagnsæis.

Þarf að forgangsraða innviðaverkefnum

Fjármálaráð benti í álitsgerð sinni um síðustu fjármálaáætlun á að til þess að mæta þörfum samfélagsins á skilvirkan hátt skuli m.a. styðjast við kostnaðar- og ábatagreiningu þegar kemur að fjárfestingarákvörðunum hins opinbera og fjármögnun þeirra. Erlendis er sú aðferð notuð kerfisbundið t.d. við ákvarðanir um fjárfestingu í innviðum og við flestar meiriháttar ákvarðanir í opinberum rekstri. Ábending fjármálaráðs í álitsgerð um síðustu fjármálaáætlun að lítið færi fyrir umfjöllun um slíka greiningu þeirra verkefna sem bíða á jafn vel við nú og þá. Arðsemismat væri til þess fallið að auka gagnsæi við ákvarðanatöku, styðja við sjálfbærni og auka framleiðni og framleiðslugetu efnahagslífsins til lengri tíma litið. Þetta á jafnvel enn frekar við nú en áður með hinni breyttu markmiðasetningu stjórnvalda sem birtist í framlagðri fjármálastefnu.

Hér er hægt að lesa álitsgerðina í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða á Íslandi.