Fréttasafn11. feb. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Frumvarpsdrög um virkjunarkosti vindorku óþörf að mati SA og SI

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins segja frumvarpsdrög um virkjunarkosti vindorku, mál nr. 19/2021, vera óþörf. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna sem send hefur verið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Í umsögninni segir að ætlunin sé að fella hugsanlega virkjunarkosti vindorku undir ferli svokallaðrar rammaáætlunar samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ætlunin sé að nýting vindorku verði óheimil á öllum friðlýstum svæðum og á svæðum sem hugmyndir geta verið uppi um að verði friðlýst og að nýting vindorku á langstærstum hluta landsins verði háð mati verkefnisstjórnar rammaáætlunar og samþykki ráðherra. Einungis á örlitlum hluta landsins verði nýting vindorku heimil án þessa mats og sérstöku samþykki umhverfis- og auðlindaráðherra. Samtökin leggjast eindregið gegn þessum áformum.

Samtökin telja að með skipulagslögum nr. 123/2010 og landsskipulagsáætlun ásamt aðal- og deiliskipulagsáætlunum sveitarfélaga og einnig með lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 ásamt náttúruverndarlögum nr. 60/2013 sé fullkomlega tryggt í lögum að vindorkuver verði ekki reist nema að öllum ítarlegustu umhverfissjónarmiðum sé gætt. Frumvarpsdrögin séu því óþörf.

Víkja til hliðar sjálfbærri þróun samfélagsins til langs tíma

Samtökin hafa áður lýst því yfir og ítreka í umsögninni að nauðsynlegt sé að endurskoða lög nr. 48/2011 með hliðsjón af því að rammaáætlun hafi áður verið sameiginlegt verkefni tveggja ráðuneyta og að umsjón laganna væri betur komið með að vera á hendi tveggja ráðuneyta, þ.e. að atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra öðlist jafngildan sess á við umhverfis- og auðlindaráðherra. Í umsögninni segir að þegar rammaáætlun hafi verið sameiginlegt verkefni tveggja ráðuneyta var betur horft til allra sjónarmiða. Með lögunum hafi umsjón með rammaáætlun flutt til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, verkefnisstjórn skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra sem síðan velji í faghópa og skilgreinir verkefni þeirra og hverjir vinna nauðsynleg verkefni. Þetta hafi þýtt að ekki hafi náðst sátt um niðurstöður verkefnisstjórnarinnar eins og nauðsynlegt sé og að ekki sé litið jafnt til efnahagslegra og félagslegra þátta við mat virkjunarkosta heldur sé megináhersla á náttúruverndarsjónarmið. Sjálfbærri þróun samfélagsins til langs tíma hafi þannig verið vikið til hliðar.

Hér er hægt að nálgast umsögnina.