Fréttasafn



8. apr. 2025 Almennar fréttir Menntun

Fulltrúar frá Íslandi á alþjóðlegri ráðstefnu um iðnnám

Fulltrúar frá Íslandi sátu menntaráðstefnuna Centres of Vocational Excellence (CoVEs)  - Bridging Innovation, Education and Industry Across Borders sem fór fram í Póllandi dagana 13.-15. mars. Íslenski hópurinn samanstóð af fulltrúa frá Samtökum iðnaðarins, tveimur fulltrúum frá Borgarholtsskóla, tveimur frá Fisktækniskólanum og einum frá Rannís. Á ráðstefnunni voru auk þess fulltrúa frá Noregi, Liechtenstein og Póllandi. Markmið ráðstefnunnar var að ræða þróun iðnnáms í Evrópu, nýsköpun og tengingu við atvinnulífið yfir landamæri, með áherslu á hvernig samræma megi hæfniþætti og færniviðmið milli landa.

Fulltrúi Samtaka iðnaðarins á ráðstefnunni var Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI. Hún hélt tvö erindi á ráðstefnunni. Í fyrra erindinu fjallaði hún um uppbyggingu iðnnáms á Íslandi og hvernig það er sniðið að sérstöðu landsins, lands jarðhræringa, endurnýjanlegra orkugjafa svo og ströngum byggingareglugerðum, húshitun og almannaöryggi. Ráðstefnugestir fengu að horfa á myndband um Reykjanes sem frumsýnt var á Iðnþingi 2024. Í seinna erindinu kynnti hún starfsemi Iðunnar fræðsluseturs og hlutverk þess í raunfærnimati og sí- og endurmenntun iðnaðarmanna.

Misræmi í skilgreiningum á hæfniþáttum innan Evrópu

Á ráðstefnunni kom fram að mikill munur er á því hvernig iðngreinar eru skilgreindar innan Evrópu. Í Noregi og Póllandi eru iðngreinar brotnar niður í allt að 120 fagsvið, en á Íslandi eru löggiltar iðngreinar 43. Þetta endurspeglar bæði mismunandi menntakerfi og sérstöðu vinnumarkaða þar sem iðngreinar í stærri löndum eru sérhæfðari vegna fjölda íbúa, á meðan íslenskt iðnnám spannar fleiri fagsvið innan hverrar greinar.

Jonny Pettersen frá Fagskolen í Viken í Noregi lagði í erindi sínu áherslu á mikilvægi þess að þróa sameiginlegan evrópskan hæfnikvarða fyrir iðnnám, svipaðan þeim sem er í akademísku námi með bakkalár-, meistara- og doktorsgráðum. Slíkt kerfi myndi auðvelda samanburð milli landa og styrkja alþjóðlega viðurkenningu á iðnmenntun.

Jacek Kusmierzzyk frá Polish Chamber of Printing fjallaði um þörfina á því að fjölga konum í iðnnámi og benti á að fjölbreyttari nemendahópur væri lykilatriði í því að mæta þörfum vinnumarkaðarins.

Iðnnámskerfið í Póllandi og óformlegar menntunarleiðir

Lech Boguta, menntamálaráðherra Póllands, kynnti hvernig iðnréttindi í landinu og talaði um „non-formal qualifications“ og lagði áherslu á mikilvægi iðngreinasetra (Sectoral Skills Centres) sem væri mikilvæg í þróun og viðurkenningu hæfniþátta. Hann sagði að menntakerfi Póllands bjóði upp á fjórar mismunandi leiðir til hæfnivottunar: 

  • Frjáls markaðsmenntun (Free-market qualifications) – óreglugerðarskyld, veitt af viðurkenndum aðilum sem hluti af atvinnustarfsemi.

  • Sérgreinahæfni (Sectoral qualifications) – þróuð af atvinnugreinasamtökum og getur orðið hluti af opinberu hæfniskerfi (IQS).

  • Handverkshæfni (Craft qualifications) – veitt af iðngildum, þar með talin sveins- og meistarabréf.

  • Reglugerðarbundin hæfni (Regulated qualifications) – stjórnað af ráðuneytum, sem veita vottun í samræmi við settar reglur.

Til að styðja við þróun sérhæfðrar hæfni hafa verið stofnaðar 120 Sectoral Skills Centres víðsvegar um Pólland, sem skrá og þróa sérhæfðar menntunarleiðir innan IQS-kerfisins. Nú þegar hafa 34 ný hæfniviðmið verið skráð, m.a. í rafbílatækni, tölvuleikjaþróun, netöryggi í flugi og uppsetningu rafmagnskerfa.

Heimsókn í í Sectoral Skills Center – Finishing Works in Construction

Ráðstefnunni lauk með heimsókn í Sectoral Skills Center – Finishing Works in Construction, fræðslusetur sem býður iðnnemum á aldrinum 14–24 ára þjálfun í byggingariðnaði ásamt endurmenntun fyrir iðnaðarstarfsmenn og kennara. Í þessu hæfnisetri hefja nemendur iðnnám 14 ára og geta valið tvær leiðir, annaðhvort útskrifast með sveinspróf við 17 ára aldur, án vinnustaðanáms en með þjálfun í skóla. Eða þau geta valið að bæta við sig tveimur árum, ljúka þá tæknistúdentsprófi með 72 klukkustunda vinnustaðaþjálfun.

Helsta niðurstaða ráðstefnunnar var sú að brýnt sé að þróa sameiginlegan evrópskan ramma fyrir iðnnám, sem myndi tryggja gagnkvæma viðurkenningu á iðnmenntun milli landa. Slíkt kerfi myndi auðvelda flæði vinnuafls og auka sveigjanleika náms í Evrópu, sem yrði til hagsbóta bæði fyrir nemendur og atvinnulífið.

Image-21-

Image-17-

Image-14-

Image-18-

Image-16-

Image-20-

Image-22-

Image-24-