Fulltrúi SI í stefnumótun um framtíð iðnmenntunar í Evrópu
Sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sat fund Evrópusambandsins þar sem unnið var að drögum svonefndrar Herning-yfirlýsingar sem er framtíðarsýn um iðn-, tækni- og STEM-náms auk starfsnáms á árabilinu 2026-2030. Á fundinum sem var haldinn í Brussel í síðustu viku komu fulltrúar Evrópusambandsríkja, umsóknarríkja og EES-ríkja saman til að vinna að yfirlýsingunni en gert er ráð fyrir að yfirlýsingin verði formlega undirrituð af menntamálaráðherrum landanna í Herning í Danmörku í september næstkomandi.
Auk fulltrúa SI sat fundinn frá Íslandi Hilmar Harðarson fyrir hönd Alþýðusambands Íslands.
Atvinnulífið í lykilhlutverki í framtíðarsýn
Drög að Herning-yfirlýsingunni fela í sér margvísleg stefnumið og aðgerðir, m.a.:
- Að efla þátttöku í starfsmenntun, einkum í greinum sem tengjast grænni umbreytingu og stafrænum lausnum.
- Að styrkja samstarf menntakerfa og atvinnulífs um þróun vinnustaðanáms og framhaldsmenntunar.
- Að stuðla að jafnrétti til náms, óháð bakgrunni.
- Að nýta gervigreind og aðra nýja tækni í námi og kennslu með ábyrgum hætti.
- Að setja vellíðan og öryggi námsmanna og kennara í öndvegi.
Tekið verði tillit til sérstöðu Íslands
Hulda Birna segir að Samtök iðnaðarins fagni þeim megináherslum sem komi fram í drögum að Herning-yfirlýsingunni, þar sem lögð sé áhersla á að efla gæði, aðgengi og virðingu starfsmenntunar í Evrópu. Jafnframt telji samtökin mikilvægt að vandað verði til verka þegar komi að innleiðingu slíkra samninga og að tekið verði tillit til sérstöðu Íslands. Hún segir að á Íslandi sé iðn- og starfsmenntun byggð á breiðum grunni þar sem ein námsleið geti spannað fleiri fagsvið en víðast hvar erlendis. En í mörgum löndum séu starfsgreinar afmarkaðar og nám sérhæft í einum verkþætti, til dæmis gluggaísetningu eða pípulögnum, en hér á landi sé lögð áhersla á þverfaglega menntun sem mæti þörfum smárra vinnumarkaða og dreifðrar búsetu. Hulda Birna segir að þá megi einnig nefna að Ísland sé eina landið sem hafi innleitt rafrænar ferilbækur í öllum iðngreinum. Slíkt stuðli að gagnsæi í færniþróun og vandaðri eftirfylgni. Þá kalli staðbundin náttúruvá, jarðskjálftar, eldgos, breytilegur jarðvegur og harðbýli, á sértæka færni og skýrar öryggiskröfur. Það sé því ekki sjálfgefið að alþjóðleg viðmið dugi ein og sér þegar komi að faggildingu og viðurkenningu menntunar. Hún segir að Samtök iðnaðarins vilji tryggja að Ísland nýti þetta tækifæri til að efla starfsmenntun með áherslu á sveigjanleika, gæði og raunhæfa hæfniuppbyggingu sem taki mið af íslenskum aðstæðum.
Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI.