Fréttasafn11. ágú. 2016 Almennar fréttir

Gagnatengingar hamla vexti

Heildargeta þriggja sæstrengstenginga Íslands við umheiminn er aðeins 6% af heildargetu þeirra tólf strengja sem tengja annað eyríki í Evrópu, Írland.

Þegar tveir strengir við Írland til viðbótar komast í gagnið á næsta ári verður heildargeta þeirra íslensku tenginga sem landið býr við 4,3% af því sem þá verður í Írlandi.

Rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtækið BroadGroup birti á síðasta ári skýrslu þar sem gagnaversiðnaður á Norðurlöndunum var í brennidepli. Þar er bent sérstaklega á slaka stöðu Íslands og Noregs þegar kemur að sæstrengstengingum. Starfræktar sæstrengstengingar Íslands við umheiminn eru sem áður segir þrjár, en þær eru DANICE, FARICE-1 og Greenland Connect. Noregur tengist fimm sæstrengjum, en í skýrslu BroadGroup er þó bent sérstaklega á að Noregur hafi alþjóðlegar gagnatengingar á landi, margar hverjar í gegnum Svíþjóð, sem gerir stöðu Noregs umtalsvert betri en stöðu Íslands.

Því er Ísland sér á báti í þessum efnum þegar litið er til samanburðarlanda. Af Norðurlöndunum hefur Danmörk flestar sæstrengstengingar, eða 24. Því næst kemur Svíþjóð með 22 og svo Finnland með 11 sæstrengi. Írland, sem er eyríki eins og Ísland, hefur svo 12 sæstrengstengingar eins og fyrr segir.

„Það sjónarmið kemur skýrt fram í samtölum sem við hjá Samtökum iðnaðarins höfum átt við bæði innlenda og erlenda aðila í gagnaversiðnaði, að helsti hamlandi þáttur í vexti íslensks gagnaversiðnaðar sé gagnatengingar til landsins,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann segir einkum þrjá þætti skipta máli í þessu samhengi, „það er fjöldi sæstrengstenginga, gagnaflutningsgeta þeirra tenginga og verðlagning á flutningi gagna eftir strengnum.“

Staðan sé þó ásættanleg varðandi þau gagnaver sem hér eru í rekstri og eru að vaxa hratt. „Sé aftur á móti litið til þeirra miklu vaxtartækifæra sem eru í þessum geira þá eru tengingarnar stærsti hamlandi þátturinn,“ segir Almar.

Hann bendir á að fjöldi alþjóðlegra gagnatenginga skiptir gagnaversiðnaðinn, sem og fjarskiptageirann allan, gríðarlega miklu máli.

„Þær nýtast ekki bara gagnaverum heldur varða þær öryggismál fyrir land og þjóð og auðvelda að auki að draga hingað fjölbreytt verkefni sem treysta á öruggar tengingar við umheiminn,“ segir Almar.

ViðskiptaMogginn, fimmtudagur 11. ágúst 2016, blaðamaður: Jón Þórisson.

„Nýting þeirra tveggja strengja sem Farice er með í rekstri er innan við 5%“, segir Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice.

Í frétt í ViðskiptaMogganum í gær kom fram að það væri mat Samtaka iðnaðarins að Ísland væri ekki samkeppnishæft þegar kæmi að því að nýta mikil vaxtartækifæri sem uppi væru í gagnaversiðnaði.

Starfræktir eru þrír sæstrengir tengdir Íslandi. Þeir eru Danice, Farice-1 og Greenland Connect. Fram kom í fréttinni að ráðgjafarfyrirtækið BroadGroup hefði birt skýrslu á síðasta ári þar sem gagnaversiðnaður á Norðurlöndum var til umfjöllunar.

Í skýrslunni er bent á slaka stöðu Íslands og að landið sé sér á báti með fjölda sæstrengstenginga. Jafnframt kom fram að auk fjölda tenginga væru tveir aðrir þættir sem teldust hamlandi fyrir vöxt gagnaversiðnaðar hér á landi. Þeir þættir eru gagnaflutningsgeta tenginganna sem til staðar eru og verð á gagnaflutningi eftir strengjunum.

Flutningsgetan ekki vandamál

„Það sést af nýtingu strengja Farice að gagnaflutningsgetan er fjarri því að vera vandamál og að er ekki ástæða til að fjölga sæstrengjum vegna gagnamagns,“ segir Ómar Benediktsson. Hann segir að ef standi til að fá risa í notkun gagnavera á borð við Google, Apple, Facebook, Microsoft eða Amazon, sé ólíklegt að þau myndu setja upp gagnaversstarfsemi hér nema að til staðar væru fleiri strengir.

„Hins vegar myndu þeir reisa svo stór gagnaver að það væri ekki næg orka til í landinu til að starfrækja þau.“ Hann segir að þá þurfi að gera hvort tveggja, reisa virkjanir og leggja sæstreng.

Fleiri tengingar selja betur

„Ef litið er fram hjá þessum stóru fyrirtækjum þá á það að sjálfsögðu við að því fleiri tengingar því betra. Það er auðveldara að selja staðsetningu undir gagnaver með sex tengingum en þremur,“ segir Ómar. „En ekki má gleyma að það kostar mikið að leggja svona streng og það kann að laða fleiri að, en við höfum bara ekkert fast í hendi með það.“

Verðlagning hamlandi þáttur

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, bendir á að þriðji hamlandi þátturinn í vexti gagnavera sé verðlagningin á gagnaflutingum. Hann segir að innan Samtaka iðnaðarins þekki menn dæmi um að mánaðarverð á 10 gígabita gagnaflutningi frá Reykjavík til London sé fjórum til fimm sinnum hærra en á sams konar gagnaflutningi frá Osló til Frankfurt. Ef dæmi sé tekið af 100 gígabita flutningi þá geti munað ríflega 40.000 evrum á gagnaflutningi frá Íslandi en sambærilegur gagnaflutningur frá einhverju hinna landanna á Norðurlöndum.

Ómar Benediktsson segir að samanburður á verði sé snúinn og verði að vera sanngjarn. „Ef við skoðum gagnafluting með streng frá Norður-Noregi til Amsterdam er verðið áþekkt og frá Íslandi til Amsterdam. Samanburðurinn þarf að vera sanngjarn. En ef miðað er við verðlagningu milli helstu tengistöðva í Evrópu er verð á gagnaflutningi til Íslands mun hærra.“

Nýr strengur nauðsynlegur

Almar Guðmundsson segir að Samtök iðnaðarins telji að grunnskilyrðum vaxtar gagnaversiðnaðar á Íslandi verði ekki mætt nema með tilkomu gagnasæstrengs sem rekinn væri af nýjum aðila á markaði. „Þannig væri losað um einokunarstöðu á markaðnum og tryggt að verð færðist nær því sem eðlilegt teldist í nágrannalöndum.“

Morgunblaðið, föstudagur 12. ágúst 2016, blaðamaður: Jón Þórisson.