Fréttasafn



26. mar. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Gagnrýna frumvarp til nýrra persónuverndarlaga

Í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka verslunar og þjónustu, Samorku, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Viðskiptaráðs Íslands eru gerðar alvarlegar athugasemdir við drög að frumvarpi til nýrra persónuverndarlaga samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins, svokallaðri GDPR reglugerð. 

Í umsögninni kemur fram að reglugerðinni sé ætlað að hafa mjög víðtækt gildissvið og auka enn frekar réttindi einstaklinga við meðferð persónuupplýsinga en hún feli þó í sér auknar byrgðar á atvinnulífið og leiði af sér aukinn kostnað, sér í lagi í upphafi þegar fyrirtæki eru að aðlagast nýjum reglum. Því hafi innleiðing reglugerðarinnar áhrif á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og segir í umsögninni að það sé hlutverk stjórnvalda að gæta þess að ekki sé gengið lengra en þörf er á samkvæmt EES reglum og að samræmi sé á innri markaði sem íslensk fyrirtæki starfa á.

Þá segir að samtökin lýsi yfir mikilli andstöðu við að í frumvarpsdrögunum sé í mörgum tilvikum gengið lengra í innleiðingunni en þörf er á með setningu íþyngjandi sérreglna. Að sama skapi sé í frumvarpsdrögunum það svigrúm sem reglugerðin heimilar til setningu ívilnandi undanþáguheimilda fyrir atvinnulífið lítið sem ekkert nýtt. Ef af verður sé afleiðingin sú að íslensk fyrirtæki muni búa við meira íþyngjandi regluverk en samkeppnisaðilar þeirra í öðrum ríkjum. Það sé ekki í anda stefnu núverandi ríkisstjórnar sem leggi mikla áherslu í stjórnarsáttmála á að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og í því ljósi ættu athugasemdir samtakanna að fá góðan hljómgrunn.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.

Hér er hægt að lesa frétt á vef Samtaka atvinnulífsins um umsögnina.