Fréttasafn



29. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Gerbreytt staða skerðir svigrúm stjórnvalda

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að gerbreytt staða ríkissjóðs kunni að skerða svigrúm stjórnvalda til að beita ríkisfjármálunum til að bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og fjölga þannig störfum og auka hagvöxt á næstu árum. 

Tilefni fréttar Morgunblaðsins er áætlun fjármálaráðuneytisins að skuldir hins opinbera kunni að hækka úr 28% í 47% milli áranna 2019 og 2021 og að árin 2022-2025 sé svo útlit fyrir áframhaldandi hallarekstur. Í fréttinni kemur fram að áður hafi verið greint frá því í Morgunblaðinu að ráðuneytið áætli að hallinn geti numið um 490 milljörðum á rekstrargrunni í ár og á næsta ári og spáð sé miklum samdrætti í landsframleiðslu. 

Samkeppnishæfnin höfð að leiðarljósi

Ingólfur segir í fréttinni mikilvægt að stjórnvöld hafi samkeppnishæfnina að leiðarljósi í aðgerðum sínum á næstunni því með sterkri stöðu á því sviði sé öflug viðspyrna hagkerfisins best tryggð. Hann segir að hagfræðingar séu almennt sammála um að við aðstæður sem þessar sé rétt að auka ríkisútgjöld og þannig lyfta undir eftirspurn í hagkerfinu. Það hjálpi aftur til við að halda uppi atvinnustiginu og styðji fyrirtækin við að komast í gegnum erfiðleikatímabilið. Með auknum ríkisútgjöldum sé dregið úr dýpt niðursveiflunnar. Ingólfur segir vinnumarkaðsúrræði, á borð við hlutabótaleiðina, af hinu góða og til þess fallin að koma í veg fyrir atvinnuleysi og halda tengingu starfsfólks við fyrirtækin. „Áherslan þarf hins vegar að vera rík við þessar aðstæður á aðgerðir sem skapa hagkerfinu sterka viðspyrnu, þ.e. aðgerðir sem skapa störf og hagvöxt. Þar er um að ræða aðgerðir á borð við aukna hvata til nýsköpunar, auknar innviðaframkvæmdir, aðgerðir til að efla starfsumhverfið og menntakerfið.“ 

Brúarlán skila sér seint og illa

Ingólfur segir í fréttinni að við þessar aðstæður sé afar mikilvægt að vinna hratt til að bjarga störfum og fyrirtækjum en hraðanum fylgi hins vegar hætta á sóun fjármuna. Hann segir ágæta reynslu af verkefnum á borð við hlutabótaleiðina og átakið allir vinna frá eftirhrunsárunum nýtist hins vegar vel við þessar aðstæður. Hvað varðar boðuð lánaúrræði á borð við brúarlánin hafi þau skilað sér seint og illa, enda þótt þau hafi verið lengi í farvatninu. „Það er mikilvægt að bregðast snöggt við. Fyrirtækin þola ekki að vera lengi án tekna en hafa talsverðan kostnað á móti. Það eru liðnar um 9 vikur síðan þetta úrræði var kynnt og enn er ekki ljóst hvenær fyrirtækin geta nýtt sér það.“

Á ekki að bregðast við hallarekstri með niðurskurði og skattahækkunum

Í fréttinni kemur fram að það sjónarmið hafi heyrst úr atvinnulífinu að hægt hafi gengið að vinda ofan af skattahækkunum eftirhrunsáranna, alls á annað hundrað. Þegar Ingólfur er spurður hversu raunhæft sé að skattar verði lækkaðir næstu misseri bendir hann á að opinber rekstur verði ósjálfbær á tímabilinu og til að ráða bót á því sé mikilvægt að ekki verði farin sama leið og eftir hrunið en þá hafi ríkisstjórnin brugðist við hallarekstri með niðurskurði og verulegum skattahækkunum. „Það er ekki rétt meðal í sjálfu sér til þess að koma hagkerfinu af stað. Við viljum fara í aðgerðir sem efla samkeppnishæfnina og stækka þannig hagkerfið, og í leiðinni skattgrunn ríkissjóðs, sem leiðir þá til þess að ríkissjóður verður sjálfbær á ný.“

Morgunblaðið, 29. maí 2020.