Fréttasafn5. okt. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Getum ekki haldið við mannvirkjum forfeðranna

„Ég vil fá að nota tækifærið og endurtaka orð mín frá Iðnþingi er ég segi að í uppbyggingu innviða virðumst við eiga erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu um verkefni sem þó ættu að vera í þágu allra landsmanna. Um leið og ég dáist að áræðni, dug og framfarahugsun þeirra sem á undan eru gengnir get ég ekki orða bundist og spyr hversu lítil erum við að geta ekki einu sinni haldið við þeim mannvirkjum sem forfeður okkar byggðu hér upp í bláfátæku landi.“ Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í ávarpi sínu í upphafi fundar Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sem fram fór í Kaldalóni í Hörpu í morgun. 

Ávarp Guðrúnar er birt hér í heild:

Innviðir eru iðnaðinum líkt og öðrum greinum efnahagslífsins lífsnauðsynlegir. Í raun er ekki hægt að hugsa sér starfsemi fyrirtækja án innviða. Þeir grundvalla lífsgæði þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvöxt framtíðarinnar. Það er því ekki að ástæðulausu að við erum hér samankomin í dag til að ræða innviði á Íslandi, ástand þeirra og framtíðarhorfur.

Með samvinnu við aðrar greinar efnahagslífsins hefur íslenskur iðnaðurinn staðið að baki uppbyggingu innviða hér á landi að stórum hluta. Flugvellir, vegir, hafnir, fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, sorp, orkuöflun og orkuflutningar, fjarskipti og fasteignir ríkis og sveitarfélaga. Þetta er allt verk iðnaðarins með einum eða öðrum hætti. Saman mynda þessir innviðir lífæðar atvinnulífsins og raunar samfélagsins alls.

Innviðir eru því á margan hátt stolt iðnaðarins og bera íslensku verkviti, hugviti, framtaksemi, dugnaði og nýsköpun glöggt vitni. Það er ekki síst í þessu ljósi sem ástand og framtíðarhorfur innviða er iðnaðinum hjartans mál.

Með uppbyggingu innviða hefur iðnaðurinn verið virkur þátttakandi í efnahagsframvindunni. Núverandi efnahagsuppsveifla er gott dæmi um slíkt. Þessi uppsveifla hefði ekki orðið ef hér væru ekki innviðir til að taka á móti þeirri miklu aukningu ferðamanna sem drifið hefur hagvöxt síðustu ára að stórum hluta.

Nýsköpun í framleiðsluiðnaði og hugverkaiðnaði, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu, með tækniframförum í orkumálum, flugsamgöngum, fjarskiptum og netviðskiptum hafa skapað tækifæri fyrir Ísland til að ná árangri. Fullyrða má að án framtaks og nýsköpunar iðnaðar m.a. við uppbyggingu innviða hefði þessi efnahagsuppsveifla ekki orðið að veruleika.

Á Iðnþingi fyrr á þessu ári var mér tíðrætt um stöðu innviða á Íslandi. Þar rifjaði ég upp hverju við sem þjóð hefðum áorkað í innviðauppbyggingu í upphafi síðustu aldar. Þá var þjóðin fátæk en samt gat hún reist með stuttu millibili mikil mannvirki  sem lögðu grunninn að því samfélagi sem við í dag lifum í og skiptu þannig sköpum fyrir þróun byggðar í okkar harðbýla landi.

Ég vil fá að nota tækifærið og endurtaka orð mín frá Iðnþingi er ég segi að í uppbyggingu innviða virðumst við eiga erfitt með að komast að sameiginlegri niðurstöðu um verkefni sem þó ættu að vera í þágu allra landsmanna. Um leið og ég dáist að áræðni, dug og framfarahugsun þeirra sem á undan eru gengnir get ég ekki orða bundist og spyr hversu lítil erum við að geta ekki einu sinni haldið við þeim mannvirkjum sem forfeður okkar byggðu hér upp í bláfátæku landi.

Við þurfum að hugsa um innviðina með mikilvægi þeirra að leiðarljósi. Á það ekki síst við um þessar mundir þegar líkur eru á því að það dragi úr hagvexti og slakni á spennunni í hagkerfinu á næstunni. Líkt og niðurstöður skýrslunnar sem hér er kynnt í dag sýna hefur skapast mikil uppsöfnuð þörf í uppbyggingu innviða hér á landi en nauðsynlegri uppbyggingu og viðhaldi hefur ekki verið sinnt víða undanfarin ár. En nú eru að skapast kjöraðstæður til að ráðast í þessa nauðsynlegu uppbyggingu. Með slíkum aðgerðum væri bæði dregið úr niðursveiflunni og byggt undir hagvöxt til framtíðar.  

Skýrslan sem hér er kynnt í dag er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins  og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Skýrslan er unnin að norskri fyrirmynd en félag ráðgjafarverkfræðinga í Noregi  hefur gefið út viðlíka mat á innviðum norska hagkerfisins síðan árið 2010. Sambærileg skýrsla hefur einnig verið gefin út í Danmörku en í báðum þessum löndum hefur útgáfan markað grundvöll að opinberri umræðu um stöðu innviða.

Aðildarfyrirtæki Félags ráðgjafarverkfræðinga önnuðust úttekt á einstökum innviðum en ritstjórn var í höndum Samtaka iðnaðarins. Rýni á köflum var gerð í Háskólanum í Reykjavík. Yfir 70 manns komu að gerð skýrslunnar með einum eða öðrum hætti og er öllum þeim fjölmörgu þökkuð vel unnin störf.

Það er von okkar að skýrslan verði til þess að skapa upplýsta umræðu um stöðu innviða íslenska hagkerfisins og leiði til úrbóta á því sviði til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag.