Fréttasafn



31. jan. 2017 Almennar fréttir

Góð löggjöf á að vera hvati en ekki svipa segir formaður SI

Í Morgunblaðinu var birt viðtal við Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann SI, undir yfirskriftinni „Góð löggjöf á að vera hvati en ekki svipa“. Sigurður Bogi Sævarsson, blaðamaður, skrifar: 

„Á vettvangi Samtaka atvinnulífsins hefur lengi verið talað fyrir jafnlaunavottun og hugmyndinni unnið fylgi. Lögfesting vottunar sem byggist á staðli er allt annað mál. Ég hef sagt að launamisrétti er með öllu ólíðandi og við ættum öll að leggjast á eitt til að útrýma þeim launamun sem er í landinu. Það er okkar markmið,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður SA og formaður Samtaka iðnaðarins. 

Gott markmið en umdeilanleg leið 

Innan raða SA er andstaða við þær fyrirætlanir ráðherra jafnréttismála, Þorsteins Víglundssonar, sem til skamms tíma var framkvæmdastjóri samtakanna, að lögfesta svonefndan jafnlaunastaðal. „Atvinnurekendur hafa undanfarin misseri unnið að þessu markmiði í samvinnu við launþegahreyfinguna,“ segir Guðrún. „Við hefðum viljað halda þeirri vinnu áfram. Við getum tekið það til okkar að hafa ekki staðið okkur betur í því að fyrirtækin sjálf tækju upp jafnlaunastaðla. Við erum í sjálfu sér hlynnt þessum staðli en það er lögfesting sem fer fyrir brjóstið á okkur. Markmið ráðherra er gott en leiðin að því er umdeilanleg. Jafnlaunavottun verður að koma til með samráði við atvinnulífið. Slíkt hefur ekki átt sér stað. Góð löggjöf skapar hvata en á ekki að vera svipa.“ 

Í dag er útskýranlegur launamunur kynjanna 10%, óútskýrður launamunur er rúmlega 5%. Það segir Guðrún vera óþolandi. Samtals er því talað um að launamunur kynjanna sé um 15%. Skýringar á útskýranlegum launamun eru nokkrir þættir, svo sem vinnutími. „Konur vinna minna en karlar, eru frekar í hlutastörfum og í hefðbundnum kvennastörfum, eins og þau eru kölluð. Ég hef því hvatt konur til að leita út í það sem við köllum karlastörf eins og til dæmis í iðnaði þar sem hærri laun bjóðast.“ Mörg verkefni bíða í dag á vettvangi atvinnulífsins og samtaka þess. Guðrún segir fólk í fyrirtækjarekstri telja að stýrivextir í landinu séu of háir og það gagnrýni Seðlabankann fyrir að hafa ekki tekið stærri skref í vaxtalækkunum. Hátt gengi krónunnar sé einnig gríðarlega alvarlegt; íþyngjandi fyrir útflutningsfyrirtækin og svo gæti farið að starfsemi þeirra yrði flutt úr landi. Þá sé pattstaða í sjómannadeilunni alvarleg og sé farin að hafa áhrif á mörkuðum út í heimi. Eigi að síður sé mikill kraftur í hagkerfinu um þessar mundir og svo sannarlega ástæða til bjartsýni. 

Tryggingagjaldið verði lækkað 

Ný ríkisstjórn tók við völdum nú fyrr í mánuðinum. Um efni stjórnarsáttmálans segir Guðrún þar vera mörg fögur loforð en nánari útfærslu á framkvæmd þeirra vanti. Það skipti miklu að haldið verði áfram að greiða nið- ur skuldir ríkissjóðs og aflétta gjaldeyrishöftunum. „Það er einnig mikilvægt að stjórnvöld tryggi góða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, lækki tryggingargjaldið og sjái til þess að regluverkið sem atvinnulífið starfar eftir sé ekki íþyngjandi um of. Húsnæðismál ungs fólks eru enn í ólestri og það þarf að koma fram með lausnir í þeim efnum. Það þarf meiri fé í menntakerfið og síðast en ekki síst þarf að fara í miklar vegaframkvæmdir. Í þeim efnum ættum við að mínu mati að horfa til nýrra fjármögnunarleiða. Þá fagna ég því að ríkisstjórnin ætli að leggja meira til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins. Slíkt er mjög brýnt.“

Guðrún Hafsteinsdóttir er fædd árið 1970. Hún hefur starfað við fyrirtæki fjölskyldu sinnar, Kjörís hf. í Hveragerði, frá barnsaldri og er í dag markaðsstjóri þess. Frá árinu 2014 hefur Guðrún verið formaður Samtaka iðnaðarins. Þá er hún í dag varaformaður Samtaka atvinnulífsins og er formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna. 

Morgunblaðið, 30. janúar 2017.