Fréttasafn



25. jan. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Góður tími fyrir opinbera aðila að fara í framkvæmdir

„Við sem lítil þjóð getum verið afskaplega stolt af því að hér á landi hefur okkur tekist að byggja hér upp eitt besta velferðarsamfélag á byggðu bóli en það hafa verið blikur á lofti undanfarin misseri,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, í setningarávarpi sínu á Útboðsþingi SI sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær. 

Guðrún nefndi skýrslu sem SI gáfu út á haustmánuðum 2017 þar sem innviðir Íslands voru kortlagðir og sömuleiðis nauðsynlegar nýfjárfestingar og viðhald. Þar komi fram að í vissum greinum sé ástandið ágætt en í öðrum verulegt áhyggjuefni og ljóst sé að innviðir okkar hafi verið sveltir af eðlilegu viðhaldi í tæp tíu ár. Hún sagði samtökin hafa áætlað að uppsöfnuð viðhaldsþörf væri rúmir 370 milljarðar. Líkur bendi nú til að það sé að draga úr hagvexti og því séum við að fara að sigla inn í tíma sem sé góður fyrir opinbera aðila til að byggja undir stoðir hagvaxtar með opinberum framkvæmdum. Með framkvæmdum hins opinbera á sviði innviða sé byggt undir hagvöxt framtíðarinnar. Sé rétt að málum staðið skili framkvæmdir á þessu sviði sér margfalt til baka í auknum lífsgæðum þjóðarinnar.

14 þúsund launþegar í bygginga- og mannvirkjagerð

Guðrún sagði að um 5.200 fyrirtæki hafi verið starfandi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á árinu 2017 sem sé tæplega 7% allra fyrirtækja í landinu. Þá séu tæplega 14 þúsund launþegar starfandi við bygginga- og mannvirkjagerð hér landi sem sé um 7% af heildarfjölda allra launþega í landinu. Talsverð gróska hafi verið í greininni frá árinu 2012 en heildarfjöldi launþega jókst um 115% frá byrjun árs 2012 til haustmánaða 2018. Á árabilinu 2012-2018 hafi atvinnugreinin skilað 17% af heildarfjölgun launþega í hagkerfinu. Það undirstriki stóran þátt greinarinnar í hagvexti síðustu ára og aukið vægi hennar í verðmætasköpuninni hér á landi. 

Heildstætt yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir

Guðrún sagði jafnframt að í rúm tuttugu ár hafi Samtök iðnaðarins staðið fyrir því að fá opinbera aðila til að draga saman þær verklegu framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar af hendi opinberra aðila í náinni framtíð. Fyrir tuttugu árum hafi samtökin fundið þá knýjandi þörf hjá félagsmönnum að fá heildstætt yfirlit yfir fyrirhugaðar framkvæmdir svo aðilar í mannvirkjagreinum gætu aðlagað sig og skipulagt tíma sinn. „Við hjá SI erum ávallt spennt fyrir þessum degi því hann leggur á vissan hátt línurnar um það hvernig framkvæmdastiginu verði háttað næstu mánuðina.“