Fréttasafn9. okt. 2018 Almennar fréttir Umhverfis og orkumál

Grænar lausnir í loftslagsmálum munu koma frá iðnaði

Í Speglinum á RÚV var fjallað um loftslagsmál og þær fyrirætlanir stjórnvalda að Ísland verði kolefnishlutlaust fyrir árið 2040. Meðal viðmælenda var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir segir þessar fyrirætlanir sýna að við séum komin af stað. „En ég held það sé þrennt sem skiptir máli varðandi iðnaðinn og atvinnulífið, í fyrsta lagi þá hefur iðnaðurinn fylgst náið með þróuninni en jafnframt gripið til aðgerða til þess að draga úr losun. Í öðru lagi þá er það þannig að lausnir við þessum vanda munu koma frá iðnaði. Þá er ég að vísa í eitthvað sem við getum kallað grænar lausnir eða græna tækni. Í þriðja lagi, sem að er auðvitað áhugavert fyrir okkur sem hér búum, er að Ísland getur verið fyrirmynd annarra þjóða þegar kemur að þessum málum, við höfum náð góðum árangri í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa samhliða góðum hagvexti og auknum lífsgæðum þannig að við höfum ekki verið að skera niður eða draga úr hagvexti eða lífsgæðum heldur höfum við náð að samtvinna þetta tvennt. Við getum hæglega byggt á okkar reynslu og þekkingu og miðlað því þá til annarra þjóða og þannig lagt okkar af mörkum til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum.“ 

Grænar lausnir einn helsti vaxtarsproti atvinnulífsins

En getur iðnaðurinn bætt í? „Við getum sannarlega gert það og fyrirtæki í SI hafa verið að sýna þessum málum áhuga, ég vil tíl að mynda nefna að útblástur Co2 frá álverunum hefur dregist saman um þrjá fjórðu frá árinu 1990. Aðrir eru líka að vinna í sínum málum, við sjáum það að Samtök iðnaðarins eru í samstarfi við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð um ákveðna vitundarvakningu meðal félagsmanna og líka bara til þess að hjálpa þeim því ég skynja ekki annað en að allir séu af vilja gerðir.“ 

Hann segir að grænu lausnirnar séu og verði einn helsti vaxtarsproti atvinnulífsins. Evrópusambandið hafi til dæmis lagt mikla áherslu á endurnýjanlega orkugjafa og varið fé til nýsköpunar í tækni sem geti dregið úr losun. „Við höfum dæmi um slík fyrirtæki hér á landi, sjáum það að Carbon Recycling til dæmis sem framleiðir metanól úr Co2, fyrirtæki eins og Etactica sem framleiðir mæla til að mæla raforkunotkun og þannig hjálpa fyrirtækjum að stýra betur orkunotkun og draga úr henni, við sjáum fyrirtæki eins og Klappir, grænar lausnir, sem hefur verið að selja þjónustu ekki bara hér á landi heldur erlendis sem er þá eins og grænt bókhald fyrir fyrirtæki til þess að gera fólk og fyrirtæki þá meðvitað um áhrifin. 

Lykill að árangri að stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman

En geta samtökin gert eitthvað til að stuðla að byltingum eins og þeim sem kallað er eftir í skýrslunni? Er eitthvað sem stjórnvöld geta gert fyrir þau til að liðka fyrir slíku? „Þetta mun auðvitað gerast yfir tíma og það er horft á einhver ár, jafnvel áratugi í því samhengi, þá er ég að tala um kannski 2030, 2040, eitthvað svoleiðis. Það sem skiptir máli í þessu, við sjáum það að í öðrum löndum hafa stjórnvöld og atvinnulíf tekið höndum saman í þessum málum og ég held að það sé lykillinn að árangri. Í því sambandi væri mjög áhugavert ef stjórnvöld hér á landi og atvinnulíf gætu náð saman til dæmis með því að miðla þessari þekkingu sem við búum yfir, orkuþekkingunni, hvernig við höfum náð að hagnýta endurnýjanlega orkugjafa, miðla því til annarra þjóða og eins að hvetja til nýsköpunar í grænni tækni og miðla þeirri tækni þá annað vegna þess að við megum ekki gleyma því að hvert land getur ekki bara hugsað um sig heldur er það auðvitað allur heimurinn sem er undir.“

Jákvætt skref að stofna loftslagssjóð

En hvað telur hann að iðnaðurinn sé að leggja mikla fjármuni í loftslagsaðgerðir núna og hvað gæti hann lagt mikið fé í málaflokkinn? „Ég þori ekki að fullyrða neitt um tölur í því en við sjáum það að iðnfyrirtæki hafa fjárfest talsvert mikið í nýsköpun og tæknimálum á þessu sviði, framlagið er auðvitað mikið þar og ég held að það sé sannarlega svigrúm til þess að gera betur og þess vegna líka er þetta skref stjórnvalda að stofna loftslagssjóð mjög jákvætt því það hvetur til nýsköpunar í grænni tækni, með því að taka höndum saman getum við náð árangri.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á umfjöllunina í Speglinum.