Fréttasafn



28. mar. 2025 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Grænvangur fest sig í sessi sem lykilvettvangur samstarfs

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, er áfram formaður stjórnar Grænvangs sem kosin var á ársfundi sem haldinn var í síðustu viku. Aðrir í stjórn eru Anna Margrét Guðjónsdóttir hjá Evris, Björn Helgi Barkarson hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Guðmundur Þorbjörnsson hjá EFLU verkfræðistofu, Hera Grímsdóttir hjá Orkuveitunni, Jóna Þórey Pétursdóttir hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Ríkarður Ríkarðsson hjá Landsvirkjun, Sveinbjörn Finnsson hjá forsætisráðuneytinu, Sigríður Margrét Oddsdóttir hjá Samtökum atvinnulífsins og Rafn Helgason hjá utanríkisráðuneytinu. Forstöðumaður Grænvangs er Nótt Thorberg.

Í ávarpi Sigurðar í ársskýrslu Grænvangs kemur fram að Grænvangur hafi orðið fimm ára á síðasta ári og að á þessum fimm árum hafi hann fest sig í sessi sem lykilvettvangur fyrir samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í loftslagsmálum og grænum lausnum. Hann segir í ávarpinu að starfið hafi verið farsælt, bæði innanlands og erlendis og ekki síst vegna góðs samstarfs við Íslandsstofu. Í gegnum það samstarf hafi tekist að miðla þeim frábæru lausnum sem Ísland búi að á erlendri grundu. 

Íslenskt hugvit og grænar lausnir vekja athygli utan landsteinanna

Þá kemur fram í ávarpinu að síðasta ár hafi verið viðburðaríkt fyrir Grænvang. „Við fylgdum Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Danmerkur, í hennar fyrstu ríkisheimsókn. Í þeirri ferð undirritaði Grænvangur viljayfirlýsingu við systursamtök okkar, State of Green. Það er til marks um það hversu langt við erum komin. Með því samstarfi styrkjum við tengsl okkar við alþjóðlegt nýsköpunar- og þekkingarnet sem eykur bæði áhrif okkar og möguleika til að styðja við loftslagsmarkmið. Það er nefnilega þannig að íslenskt hugvit og grænar lausnir vekja athygli utan landsteinanna.“

Aðkoma forseta Íslands lyftistöng fyrir Grænvang

Í ávarpinu þakkar Sigurður forseta Íslands en í sömu ríkisheimsókn hafi hún tilkynnt að hún myndi taka að sér hlutverk verndara Grænvangs. „Hún sýnir með því þann metnað og áhuga sem hún hefur á loftslagsmálum og þeirri áskorun sem felst í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðkoma hennar er lyftistöng fyrir starf Grænvangs og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir.“  Hann segir að starfið sé stöðugt í mótun og það sé ánægjulegt að sjá hversu virkt bakland Grænvangs sé.

Nýsköpun og fjárfestingar lykilþættir

Sigurður segir í ávarpinu að framundan séu spennandi tímar. Nýsköpun og fjárfestingar séu lykilþættir í vegferðinni að kolefnishlutleysi. Ísland hafi þegar náð eftirtektarverðum árangri og fjöldi grænna lausna sé nú þegar í notkun. Samhliða sé unnið að nýjum lausnum sem verði innleiddar á komandi árum. „Það er okkar hlutverk að tala fyrir þessum lausnum, hvetja til aðgerða og halda áfram að skrifa söguna af grænum árangri.“ 

Mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi loftslagsmála

Jafnframt segir Sigurður að það séu líka óvissutímar og í því alþjóðlega umróti sem við stöndum nú frammi fyrir sé mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi loftslagsmála. Græn orka og orkuskipti snúist ekki aðeins um loftslagsmál heldur einnig um orkuöryggi og sjálfstæði þjóða. „Þessir þættir eru mikilvægir hverri þjóð. Við segjum þessa sögu bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Með því að miðla grænum lausnum og íslensku hugviti hjálpum við öðrum að ná sínum markmiðum á sama tíma og við styrkjum ímynd landsins og stuðlum að auknum útflutningi.“ 

Hér er hægt að nálgast ársskýrslu Grænvangs og lesa ávarpið í heild sinni.