Fréttasafn



14. feb. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Starfsumhverfi

Grafalvarleg staða ef álverið í Straumsvík lokar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um óvissuna um stöðu álversins í Straumsvík í þættinum Harmageddon í gærmorgun. Þar segir Sigurður að staðan sé grafalvarleg. „Það er auðvitað mikill þungi í því þegar bæði forstjóri Ísal, Rannveig Rist, og svo forstjóri Rio Tinto á sviði álframleiðslu segja beint út að það sé raunverulegur möguleiki á lokun.“

Þáttastjórnendur spyrja út í raforkuverðið og segist Sigurður halda að það sé ekki rétt að álverið sé að fá ódýrt rafmagn. „Álverið í Straumsvík er fyrsti viðskiptavinur Landsvirkjunar. Álverið er búið að vera starfandi í hálfa öld. Við fórum yfir það í fyrra hver efnahagslegu áhrifin og ábatinn sem hefur orðið eftir á Íslandi af stóriðjunni nemur 1.150 milljörðum uppsafnað, þannig að þetta eru engar smá tölur. Mikið af því er raforkusala. Þetta segir okkur það að alla vega hefur verið ábati af þessu.“

Álverin að skila heilmiklu til samfélagsins

Sigurður segir að þegar Landsvirkjun var stofnuð og álframleiðsla hófst á Íslandi hafi verið tekin pólitísk ákvörðun á sjöunda áratugnum um að fjölga eggjunum í körfunni. „Því þá vorum við mjög háð sjávarútvegi. En það átti að fjölga stoðunum, að virkja fallvötnin og framleiða orku til að framleiða verðmæti og auka útflutning.“  Hann segir að áður höfum við verið með öll eggin í sömu körfu en það sé alls ekki þannig lengur.

Þáttastjórnendurnir nefna að í dag sé sagt að það eina sem við fáum út úr álverunum séu störfin, þar séu launþegar sem séu einhver hundruðir í hverju álveri og afleidd störf í fyrirtækjum í kring sem þjónusti álverin en allur hagnaður sé bókfærður með þeim hætti að það sé ekkert eftir hér heima og þau greiði enga skatta. Sigurður segir það ekki rétt. „Þeir greiða heilmikla skatta. Skattgreiðslur álversins í Straumsvík til Hafnarfjarðarbæjar hefur numið tæpum 500 milljónum 2018 svo það munar auðvitað um það. Innlendur kostnaður, hvort sem það eru laun, launatengd gjöld, skattar, kaup á vörum og þjónustu í samfélaginu nema um 11 milljörðum á ári. Bara frá þessu álveri, fyrir utan raforkuna.“

Hann segir þetta auðvitað ekki vera neinar smá tölur. „Bak við þessar stóru tölur eru auðvitað fjölmörg störf, miklu fleiri heldur en bara þessi sem eru í álverinu. Það eru líka fjölmörg fyrirtæki, sérstaklega í nærsamfélaginu sem byggja sína afkomu á viðskiptum við álverin. Þannig að umsvifin eru auðvitað heilmikil og þess vegna eru fyrirtækin eða þessi orkuiðnaður auðvitað að skila heilmiklu til samfélagsins.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.