Fréttasafn8. sep. 2017 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hægir á hröðum vexti iðnaðar og hagkerfisins

Launþegum í iðnaði fjölgaði um 3,8% í júlí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra. Er það dágóður vöxtur. Nokkuð hefur hins vegar dregið úr vextinum í greininni undanfarið en hann mældist ríflega 7% allan seinni helming síðastliðins árs og 5,4% á fyrri helmingi þessa árs. Var vöxturinn í júlí sá minnsti sem mælst hefur í greininni síðan í upphafi árs 2015. Kemur þetta fram í nýbirtum gögnum Hagstofu Íslands.

Landsframleidsla-og-launthegar

Hægir á hagvextinum

Í heild jókst fjöldi launþega í hagkerfinu um 4,0% í júlí frá sama tímabili í fyrra. Er það einnig nokkuð hægari vöxtur en mælst hefur undanfarið. Endurspegla tölurnar að dregið hafi úr hagvexti á tímabilinu. Var hagvöxturinn þannig 3,4% á öðrum ársfjórðungi í ár, 5,2% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 7,4% í fyrra.

Líklegt að þessi þróun haldi áfram

Hagvöxtur er enn hraður og spennan talsverð í hagkerfinu. Er það m.a. sýnilegt á vinnumarkaði þar sem atvinnuleysi er mjög lítið og atvinnuþátttaka með því hæsta sem mælst hefur hér á landi. Hægari hagvöxtur er í þessu ljósi það sem hagkerfið þarf til að forðast ofhitnun.

Líklegt má telja að enn hægi á vextinum á næstu misserum m.a. vegna hægari vaxtar í þjónustuviðskiptum við útlönd en nokkuð hefur dregið úr vexti í tekjum af erlendum ferðamönnum undanfarið. Líklegt er að samhliða hægari vexti slakni á spennunni í hagkerfinu þ.e. að það hægi enn frekar á fjölgun starfa og að atvinnuleysi fari að aukast á ný.    

Enn talsvert hraður hagvöxtur

Efnahagsástandið hér á landi hefur verið talsvert úr takti við það sem hefur verið í öðrum iðnríkjum þar sem hagvöxtur hefur verið hægur og slaki í mörgum hagkerfum. Verkefni hagstjórnar hefur því verið talsvert annað hér en víðast hvar. Endurspeglast það bæði í stöðu peningamála og opinberra fjármála. Nú er hins vegar að draga saman með hagvexti hér og erlendis. Þannig var árstíðarleiðréttur hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 2,7% hér á landi samanborið við 1,7% í Bretlandi, 2,2% í Bandaríkjunum og 2,1% í Þýskalandi.

Eitt af hverjum fjórum nýjum störfum eru í iðnaði

Í heild fjölgaði launþegum í öllum greinum hagkerfisins um ríflega 8.300 á fyrri helmingi þessa árs. Af þeirri aukningu átti iðnaðurinn 2.000 eða 24%. Lætur því nærri að eitt af hverjum fjórum nýjum störfum sem fæðst hafa í hagkerfinu á tímabilinu hafi verið í iðnaði. Bendir sú tala til þess að iðnaðurinn hafi átt mjög stóran þátt í vexti hagkerfisins á tímabilinu líkt og hann hefur gert í þessari efnahagsuppsveiflu. Ríflega einn af hverjum fimm launþegum í landinu starfa í iðnaði og hefur það hlutfall verið að hækka.  

Dregur úr örum vexti í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð

Byggingariðnaði og mannvirkagerð er ein af þeim greinum hagkerfisins sem hafa verið að vaxa hvað hraðast undanfarið enda uppsveiflan í greininni ein af driffjöðrum hagvaxtarins um þessar mundir. Nú hægir hins vegar á þeim vexti þó að hann sé enn hraður. Mældist 14% fjölgun launþega í greininni í júlí en hann var að meðaltali ríflega 19% á seinni helmingi síðastliðins árs.

Endurspeglast þessi þróun í hægari vexti fjárfestinga atvinnuveganna sem var mjög hæg á fyrri helmingi þessa árs eftir hraðan vöxt í fyrra. Vöxtur fjárfestinga í íbúðarhúsnæði hefur verið mjög hraður undanfarið og mældist hann 25,4% á öðrum ársfjórðungi. Hann er samt hægari en hann mældist á síðasta ársfjórðungi síðastliðins árs en hann var þá 65,7% og 32,4% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Í tækni- og hugverkaiðnaði hefur einnig hægt á vextinum. Fjölgaði launþegum í greininni um 0,8% í júlí samanborið við 1,6% vöxt að meðaltali á fyrri helmingi þessa árs. Sömu sögu má segja af framleiðsluiðnaði en án fiskvinnslu var 0,6% samdráttur í þeirri grein í júlí eftir 1,4% vöxt á fyrri helmingi þessa árs og 5,2% vöxt á seinni helmingi síðastliðins árs. Hefur ekki greinst samdráttur í fjölda launþega í greininni síðan í upphafi árs 2010 þ.e. þegar núverandi efnahagsuppsveifla hófst. 

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI.

ingolfur@si.is, s. 8246105