Fréttasafn



7. mar. 2019 Almennar fréttir

Hækkanir í boði kjararáðs voru fráleitar

Launahækkanir stjórnmálamanna og embættismanna á einu bretti um rúm 40% voru algjörlega út úr korti. Opinberir starfsmenn ættu aldrei að leiða launaþróunina í samfélaginu. Á Iðnþingi 2017 fordæmdi ég þessar hækkanir í boði kjararáðs og ég fordæmi þær líka hér og nú. Þær voru fráleitar. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu á Iðnþingi 2019 sem fram fór í Hörpu í dag.

Hún sagði að atvinnulífið í landinu verði að sjá um að leggja línur um launaþróunina því það verði aldrei meiri velsæld í þessu landi en verðmætasköpunin gefur tilefni til. „Allt annað er skammgóður vermir. Spyrjið bara þá sem voru launamenn fyrir 30 og 40 árum og voru í stanslausri baráttu við verðbólgu og lágt atvinnustig. Það vill enginn upplifa það aftur.“

Hér fyrir neðan er hægt að lesa ávarp Guðrúnar í heild sinni:

Forseti Íslands, ráðherra iðnaðar, nýsköpunar og ferðamála, góðir gestir.

Mig langar að segja ykkur aðeins frá föður mínum. Hafsteini Kristinssyni, sem stofnaði Kjörís árið 1969 og lést langt fyrir aldur fram árið 1993.

Pabbi var maður einkaframtaksins en hann var líka maður samstöðunnar. Hann var gagnrýninn á það Ísland sem hann ólst upp við og var ákveðinn í að breyta umhverfi sínu. Nokkuð sem hefur einkennt hugsun svo margra leiðtoga í íslenskum iðnaði í tímans rás. Fyrir stofnun Kjöríss hafði pabbi stofnað og rekið ostagerð en sá rekstur gekk ekki upp, enda við ramman reip að draga. En þótt fyrsta lota pabba í atvinnurekstri hafi ekki endað með sigri var nóg til af vilja í brjósti hans til að berjast áfram í þeim iðnaði sem hann hafði menntað sig til. En pabbi hafði lært mjólkurverkfræði úti í Danmörku. Fór einn utan og sneri tvíefldur til baka með nýja sýn á veröldina.

Til að gera langa sögu stutta tókst föður mínum að höggva skörð í einokun íslensks mjólkuriðnaðar. Við sem erum hér saman komin vitum að oft gustar um slíka menn.

Faðir minn, frumkvöðullinn og athafnamaðurinn, sá endalaus tækifæri fyrir íslenska framleiðslu og íslenskan iðnað. Hann sá fljótlega að hann gæti aldrei staðið í sinni baráttu einn og óstuddur.

Þess vegna gekk pabbi í Félag íslenskra iðnrekenda sem seinna runnu inn í Samtök iðnaðarins. Hann vissi að sameinuð stöndum vér, sundruð föllum vér.

Fyrir pabba var ómetanlegt að eiga bakland í Félagi íslenskra iðnrekenda. Ekki síst taldi hann tengslanetið sem félagið færði honum skipta sköpum.

Því engin ein manneskja breytir samfélagi. Sá sem kýs að standa í stafni þarf lið með sér til að skútan steyti ekki á skeri. Eins og enn háttar til á okkar tímum innan Samtaka iðnaðarins reyndust margir reiðubúnir fyrir hálfri öld að aðstoða unga frumkvöðulinn – hann föður minn - og leysa um leið Ísland úr þeim viðjum sem það var þá í.

Samtakamátturinn skiptir máli og samtökin okkar fagna 25 ára afmæli á þessu ári. Samtök iðnaðarins voru stofnuð í september 1993 og hófu starfsemi í ársbyrjun 1994, en þá voru sameinuð undir eina regnhlíf sex helstu samtök iðnaðar á þeim tíma, félög sem áttu sér rúmlega 60 ára sögu. Þetta voru:

- Félag íslenskra iðnrekenda,
- Landssamband iðnaðarmanna,
- Félag íslenska prentiðnaðarins,
- Verktakasamband Íslands,
- Samband málm- og skipasmiðja og
- Meistara- og Verktakasamband byggingamanna.

Höfuðmarkmiðið með stofnun samtaka okkar var að efla samstöðuna og skapa einn málsvara sem talaði einum rómi. Þannig mætti auka áhrif iðnaðar í þjóðfélaginu. Markmiðið var að bæta starfsskilyrðin, hvetja til hagkvæmni í rekstri og leggja áherslu á markvissa vöruþróun, markaðsstarf og menntamál.

Enn í dag erum við að berjast fyrir þessum málefnum en nú með sérstakri áherslu á framleiðni, nýsköpun, innviði, menntun og starfsumhverfi.

Samtök iðnaðarins er ekki einsleitur hópur – að baki okkur eru um 1.400 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Við erum ólík og leggjum því höfuðáherslu á það sem er okkur sameiginlegt - en erum um leið dugleg að hlúa að því sértæka.

Samtök iðnaðarins eru í dag stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi. Við höfum rödd sem hlust er á. Þess vegna er mér sem formanni sérstök ánægja að upplifa það mikla og góða starf sem unnið er hjá Samtökum iðnaðarins á degi hverjum. Það eru mörg handtök á bakvið það afl sem við búum yfir.

Það veitir ekki af. Því þegar ég horfi yfir salinn hér í dag – sé ég sögu margra sigra, en þeir hafa fæstir unnist baráttulaust.

Á síðasta starfsári samtakanna hafa ýmsir áfangar unnist á sviði menntunar, nýsköpunar, innviða og starfsumhverfis sem vert er að fagna. Þessa sigra má rekja beint til þrotlaus starfs Samtaka iðnaðarins. Samstöðumátturinn skilar sér. Skýr sýn, fumlaus framkvæmd og markviss eftirfylgni leiðir til raunverulegra umbóta og leggur grunn að auknum lífsgæðum.


Það segir sína sögu - að greinin okkar skapar núorðið tæp 25% landsframleiðslunnar. Ef með er tekið óbeint framlag greinarinnar til verðmætasköpunar á Íslandi er umfang hennar umtalsvert meira. Iðnaður er óumdeilt ein af megin undirstöðum íslensks efnahagslífs. Af því getum við verið stolt.

Á þeim tíma sem Samtök iðnaðarins voru stofnuð var takmarkaður skilningur á mikilvægi iðnaðarins. Einhæfni atvinnulífsins var sláandi. Margir litu svo á að Ísland væri óáhugavert til fjárfestinga, við vorum land lítillar framleiðni og samkeppnishæfnin var döpur. Öll árin frá stofnun hafa samtökin sett á oddinn að berjast fyrir bættri framleiðni og aukinni samkeppnishæfni.

En við erum minnt á það, að stöðugleikinn, sú mikilvæga forsenda öflugs iðnaðar og blómlegs efnahagslífs, er ekki sjálfgefinn í okkar efnahagslífi. Staðan á vinnumarkaði er grafalvarleg. Eftir fordæmalausa hagsveiflu sjáum við skýr merki kólnunar í hagkerfinu - í fyrsta sinn í sjö ár. Lamandi verkföll beint ofan í þessa stöðu gætu valdið miklum skaða. Um það er ekki deilt. Því er jafnvel hótað að skaða sem mest.

Krafan er sú að laun verði hækkuð langt umfram það svigrúm sem efnahagslífið veitir okkur. Það gengur auðvitað ekki upp - en þegar það er nefnt við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar þá vísa þeir oft og iðulega í að þess hafi heldur ekki verið gætt við úrskurð kjararáðs.

Og þar erum við sammála.

Launahækkanir stjórnmálamanna og embættismanna á einu bretti um rúm 40% voru algjörlega út úr korti. Opinberir starfsmenn ættu aldrei að leiða launaþróunina í samfélaginu. Á Iðnþingi 2017 fordæmdi ég þessar hækkanir í boði kjararáðs og ég fordæmi þær líka hér og nú. Þær voru fráleitar. Atvinnulífið í landinu – undirstaðan muniði – verður að sjá um að leggja línur um launaþróunina. Það verður aldrei meiri velsæld í þessu landi en verðmætasköpunin gefur tilefni til. Allt annað er skammgóður vermir. Spyrjið bara þá sem voru launamenn fyrir 30 og 40 árum og voru í stanslausri baráttu við verðbólgu og lágt atvinnustig. Það vill enginn upplifa það aftur.

Við ætlum hins vegar að leysa þetta. Atvinnurekendur vilja að sjálfsögðu geta greitt starfsfólki sínu góð laun og öll viljum við að fólk geti lifað góðu lífi á Íslandi. Við sitjum líka í sömu súpunni Íslendingar, sama hvað á dynur. Við getum aldrei slitið vinnumarkaðinn í sundur. Það er sameiginlegt verkefni okkar, launþega og atvinnurekenda, að sjá til þess að hér sé heilbrigt og gott atvinnulíf. Við gleymum því oft og við þurfum að muna að tala þannig. Það skiptir máli. Því nóg er af hinu.

Ekki er einvörðungu við kjararáð að sakast vegna þeirrar stöðu sem upp er komin á vinnumarkaði. Staðan á húsnæðismarkaði leikur þar stórt hlutverk enda þurfa allir þak yfir höfuðið. Ljóst er að rof hefur orðið á milli húsnæðiskostnaðar og launaþróunar vegna þess að of lítið hefur verið byggt. Þar skipta útspil ríkis og sveitarfélaga miklu máli. Samtök iðnaðarins hafa lengi barist fyrir umbótum á byggingamarkaði og áttum við okkar þátt í því að átakshópur ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins var skipaður sem lagði til umbætur í 40 liðum til að bregðast við húsnæðisvandanum. Margar þeirra snúa að vandamálum sem við höfum lengi bent á og því eru það virkilega jákvæð tíðindi að samstaða hafi náðst um lausnir.

Eitt er það mál sem valdið hefur ólgu meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins á undanförnum mánuðum. Það hefur vakið furðu okkar innan SI að Bjarg íbúðarfélag, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar hafi ákveðið að sniðganga íslenska framleiðslu á sama tíma og verkalýðshreyfingin kallar eftir hærri launum til sinna launamanna.

Hver á að versla við traust íslensk fyrirtæki sem greiða starfsfólki sínu góð laun ef verkalýðsfélögin treysta sér ekki til þess? Vilja þau ekki að við getum áfram greitt góð laun? Og hærri laun? Já, því miður fylgjast orð og athafnir ekki alltaf að á þeim bænum.

Já, ég finn þar sem ég kem þessa dagana að það er uggur í fólki - en ég ítreka - við getum leyst þetta.

Sú vísa er aldrei of oft kveðin að vali fylgir ábyrgð og með því að kaupa íslenskt þá styðjum við um leið við það samfélag sem við lifum og hrærumst í. Við styðjum við hvort annað. Þetta höfum við lagt áherslu á undanfarna mánuði í herferð sem nefnist „Íslenskt, gjörið svo vel“.

Í ávarpi til stofnfundar Samtaka iðnaðarins fyrir 25 árum síðan, sagði Haraldur Sumarliðason, þá nýkjörinn fyrsti formaður okkar, að hvati iðnaðarins til að sameinast væru ekki erfiðleikatímar í íslensku atvinnulífi -

Heldur hin mörgu mikilvægu mál sem sameinuðu þá sem að samtökunum stóðu. Þar var sleginn nýr tónn – og sá tónn á enn við í dag. Það er ekki tími til að pakka í vörn því við ætlum í sókn.

Í fyrstu stefnuyfirlýsingu Samtaka iðnaðarins var lögð áhersla á að tryggja frelsi í viðskiptum Íslands við aðrar þjóðir. Frumherjarnir hvöttu til virkrar þátttöku Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi og töldu brýnt að slíkt samstarf yrði metið fordómalaust. Þetta er enn í dag ein aðaláhersla samtakanna. Alþjóðlegt samstarf er fámennri þjóð nauðsynlegt og í frjálsum viðskiptum við umheiminn liggja okkar tækifæri.

Fyrir 25 árum varaði iðnaðurinn líka við hættunni á útþenslu hins opinbera og enn höfnum við opinberri forsjá í atvinnulífi. Það er ekki hlutverk hins opinbera að stýra eða stjórna atvinnulífinu en við erum ávallt tilbúin í samstarf við opinbera aðila um stefnumótun og leiðsögn.

Góðir Iðnþingsgestir!

Það er ekki bara að Samtök iðnaðarins fagni 25 ára afmæli á þessu ári, Samtök atvinnulífsins fagna 20 ára afmæli og Landssamtök lífeyrissjóða fagna 50 ára afmælis lífeyriskerfisins. Það hefur mikið áunnist á þessum tíma. Alvöru árangur sem við þurfum að standa vörð um.

Nýverið var úthlutað úr nýstofnuðum Framfarasjóði iðnaðarins. Stjórn SI ákvað að styrkja þróunarverkefni um nám í jarðvinnu í samstarfi við Félag vinnuvélaeigenda. Ekkert slíkt nám er til á Íslandi í dag en ljóst er að námsbraut sem þessi kemur til með að auka framleiðni í greininni og veita góðan alhliða grunn fyrir þá sem koma til með að starfa við jarðvinnugerð í framtíðinni.

Kæru gestir,

Á 25 árum hefur margt áunnist sem styrkir umgjörð iðnaðar og atvinnulífs á Íslandi. En allt er í heiminum hverfult og það eru blikur á lofti. Líkt og í árdaga samtakanna þarf að stórauka tekjur íslenskra fyrirtækja og samfélagsins í heild og stækka þannig kökuna sem er til skiptanna.

Grundvöllur atvinnustarfsemi á Íslandi hefur löngum hvílt á nýtingu ríkulegra náttúruauðlinda til lands og sjávar. Ýmislegt bendir til þess að ekki verði lengra gengið í þeim efnum. Upp þarf að renna tími annarrar nýtingar. Við þurfum að nýta betur þá auðlind sem felst í menntun og þekkingu. Nýsköpun sem felst í að breyta hugmyndum í verðmæti, er lykillinn að hagvexti í framtíðinni. Fjarlægð við umheiminn og fámennið verður íslenskum iðnaði áfram talsverð áskorun. Tæknibreytingar á sviði iðnaðar hafa hins vegar rofið að stórum hluta þá einangrun sem Ísland bjó við fyrir fáeinum áratugum og breytt því í það alþjóðlega samfélag sem það er í dag. Með áframhaldandi framförum á sviði iðnaðar og samkeppnishæfu starfsumhverfi greinarinnar getum við tryggt landsmönnum áfram lífsgæði eins og þau gerast best.

Það verður ekki best gert með því að lama samfélagið með verkföllum. Það verður gert með raunsæi, skynsemi og sanngirni við samningaborðið. Það verður gert með samtakamætti atvinnurekenda og launþega og með virðingu fyrir framlagi hvors annars. Það verður allavega ekki gert með gömlu aðferðinni; með því að fella gengið, eða með höfrungarhlaupi ólíkra stétta.

Ég vitnaði til föður míns í upphafi ræðu minnar, hann fór ungur til náms erlendis og sneri tvíefldur til baka með nýja sýn á veröldina. Það má kannski segja að hugsun hans hafi kristallast í hugsun Einars Benediktssonar skálds er hann mælti „Hér er verk að vinna“.

Þau orð eiga við á Íslandi í dag, sem og alla aðra daga!