Fréttasafn



23. ágú. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hækkun stýrivaxta myndi hafa íþyngjandi áhrif á atvinnulífið

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, óttast að hækkun stýrivaxta nú myndi hafa íþyngjandi áhrif á atvinnulífið á mjög viðkvæmum tímum. Þetta kemur fram í viðtali Ásgeirs Ingvarssonar, blaðamamanns, í Morgunblaðinu. Þar segir að Samtök iðnaðarins hafi birt í morgun greiningu þar sem lagst sé gegn því að Seðlabankinn hækki í þessari viku stýrivexti til að spyrna gegn yfirstandandi verðbólguskoti. Næsti vaxtaákvörðunardagur er á miðvikudag en á fundi nefndarinnar í maí var ákveðið að hækka stýrivexti úr 1% í 1,25%.

Verðbólga fikrist nær verðbólgumarkmiðum

Í fréttinni kemur fram að verðbólga hafi tekið að hækka um mitt síðasta ár og hafi farið hæst í 4,6% í apríl á þessu ári en Samtök iðnaðarins bendi á að frá því í apríl hafi verðbólga farið lækkandi auk þess sem kannanir sýni að aðilar á markaði vænti þess að verðbólga haldi áfram að fikrast nær verðbólgumarkmiðum á komandi ársfjórðungum. Ingólfur segir að þeir kraftar sem hafi ýtt verðbólgu upp að undanförnu séu að hluta utan við áhrifasvið Seðlabankans: „Heimsmarkaðsverð á ýmsum hrávörum hefur verið á uppleið og t.d. olía hækkað verulega. Bendir margt til að um tímabundin áhrif sé að ræða og hefur m.a. verðhækkun á timbri gengið til baka að miklu leyti. Áhrif gengislækkunar krónunnar í kórónuveirufaraldrinum eru líka enn að koma fram í verðlagi, og þá hafa launahækkanir á vinnumarkaði átt sinn þátt í verðbólguþróuninni. Loks hefur dregið úr hækkun húsnæðisverðs, m.a. vegna vaxtahækkunar Seðlabankans í maí og breytinga á reglum um veðsetningarhlutfall fasteigna.“ 

Efnahagsbatinn brothættur

Þá kemur fram í Morgunblaðinu að í greiningu SI segi að hagvísar sýni að hagkerfið sé tekið að rétta úr kútnum eftir skakkaföll kórónuveirufaraldursins og dregið hafi úr atvinnuleysi. Efnahagsbatinn sé samt brothættur og staða margra fyrirtækja slæm eftir niðursveiflu undanfarinna missera. Eftirspurn hafi tekið við sér en sé ekki komin á sama stað og áður og skuldastaðan víða erfið. Þá hafi nýtt og bráðsmitandi afbrigði kórónuveirunnar aukið óvissu um efnahagsframvinduna. Ingólfur: „Og sú staðreynd að langtímavæntingar markaðarins um verðbólguhorfur eru í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans sýnir að peningastefnunefnd hefur svigrúm til að taka meira tillit til þess að styðja við efnahagsbatann með því að bíða með frekari stýrivaxtahækkun.“

Þurfum að vaxa upp úr lægðinni

Þegar Ingólfur er spurður hvort ríki og sveitarfélög gætu notað sín tæki til að hjálpa Seðlabankanum að draga úr verðbólguþrýstingi segir hann að SI hafi lengi bent á þörfina á því að peningastjórnunin og opinber fjármál gangi í takt og að SI hafi bent á fjölmargar aðgerðir í þessum málum. Eitt af því hafi verið að laga þurfi framboðshlið fasteignamarkaðarins og að sveitarfélögin dragi lappirnar þegar kemur að því að tryggja að framboð nýbygginga sé í samræmi við eftirspurn, með tilheyrandi verðhækkunaráhrifum. „Stjórnvöld þurfa að hafa það hugfast nú að við getum ekki skattlagt okkur upp úr þeim áföllum sem atvinnulífið varð fyrir í faraldrinum heldur þurfum við að vaxa upp úr lægðinni. Þar höfum við úrræði á sviði nýsköpunar, menntunar, innviða og fleiri þátta sem styrkja starfsumhverfi fyrirtækja. Höfum við m.a. bent á atriði á borð við að lækkun tryggingagjaldsins sem myndi ýta undir atvinnusköpun. Miklu skiptir að forgangsröðunin sé rétt og áhersla lögð á þær aðgerðir sem líklegastar eru til að örva hagvöxt.“

Morgunblaðið / mbl.is, 23. ágúst 2021.

Morgunbladid-23-08-2021-3-_1629727952376