Fréttasafn



21. nóv. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Hætta á að Ísland dragist aftur úr í loftslagsmálum

Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni ræðir Kristján Kristjánsson við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, og Auði Önnu Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Landverndar, um loftslagsmál og veru þeirra á COP27 ráðstefnunni sem er nýlokið í Egyptalandi. 

Sigurður segir í viðtalinu að hann hafi fyllst bjartsýni við það að fara á ráðstefnuna og fara um svæðið. „Þarna er miklu meiri áhersla en ég hafði gert mér grein fyrir á aðferðir, á fjárfestingar og á nýsköpun. Það er mikill metnaður og við sjáum það að þarna eru ólík lönd með sín markmið og aðgerðir, þarna eru fyrirtæki sem eru að kynna lausnir og hvað þau hafa fram að færa og þarna eru líka fjármálastofnanir sem eru að leita að verkefnum sem að raunverulega draga úr losun. Þetta er öðruvísi en sú lýsing sem við fáum að heyra af í fréttum. Þetta snýst auðvitað mikið um samningaviðræður ríkjanna sjálfra þannig að þær sitja lokaðar inni í ca tvær vikur og náðu að lokum niðurstöðu snemma í morgun. En ráðstefnan er svo miklu miklu meira heldur en þær samningaviðræður.“ Sigurður segir að olíulöndin hafi verið áberandi á ráðstefnunni „og beittu sér mjög á hinu lokaða svæði samningaviðræðanna gegn því að það væri kveðið sterkar að orði um samdrátt í notkun jarðefnaeldsneytis eða olíu.“

Hætta á að Ísland dragist aftur úr 

Þegar umræðan í þættinum beinist að Íslandi segir Sigurður að það sem hann taki helst út úr þessu sé að mikil hreyfing sé á hlutunum úti. „Maður sér það að flest öll lönd eru komin langt og hafa mikinn metnað, búin að setja sér tímasett markmið og Ísland á bara í verulegri hættu að dragast aftur úr í þessum málum. Við vorum í fararbroddi, ekki síst vegna þess að við notum mikla endurnýjanlega orku hér og loftslagsmálin eru auðvitað nátengd á heimsvísu notkun á olíu og kolum. En við erum í hættu að dragast aftur úr. Við þurfum að sjá miklu meiri áherslu á aðgerðir, á fjárfestingar, á uppbyggingu og það að reyna að draga úr losun bæði þegar kemur að orku og eins og iðnaðarferlum. Það sem þarf að skoða þar hvort það sé rétt að ráðuneytið og embættismenn í ráðuneytinu leiki svona stórt hlutverk vegna þess að þetta er samstarfsverkefni alls samfélagsins. Auðvitað ekki bara okkar samfélags heldur alls heimsins. Það er ákveðið umhugsunarefni.“ Hann segir að líkt og embættismennirnir hafi verið lokaðir inni í samningaviðræðunum í tvær vikur „á meðan við hin vorum að kynna okkur lausnirnar, aðgerðir, fjárfestingar og nýsköpun. Ég held að það sama þurfi að gerast hér heima. Við þurfum að sjá miklu meiri áherslu á þetta og ryðja hindrunum úr vegi þannig að við náum árangri.“

Þurfum að fara úr fasa vitundarvakningar í framkvæmdir

Þá kemur fram í viðtalinu við Sigurð að þar sem lausnir séu til þurfum við að vera duglegri að innleiða og nýta okkur þær. „Þar sem þær eru ekki til þurfum við að þróa þær og hafa mjög hraðar hendur. Við þurfum að fara úr fasa vitundarvakningar, það hefur tekist mjög vel til þar, yfir í aðgerðir, framkvæmdir, fjárfestingar og svo framvegis. Fyrirtækin þekkja það til dæmis mjög vel hvernig þau geta dregið úr losun, þau rekast oft á hindranir til dæmis í regluverki eða þá þarf að þróa nýja tækni til að snúa taflinu við.“

Þarf bæði jákvæða og neikvæða hvata

Sigurður segir að hjá Samtökum iðnaðarins sé talað um græna iðnbyltingu. „Í ár höfum við helgað okkar starfsemi grænni iðnbyltingu. Það má eiginlega segja að græn iðnbylting sé ólík öðrum iðnbyltingum að því leiti að hún var sett af stað fyrir nokkrum áratugum af ríkjum heims sem vildu bæta heilsu jarðar. Aðrar iðnbyltingar urðu vegna tækni, t.d. vélaraflið, rafmagnið, færibandið, tölvur, sem hreinlega juku afköst og skilvirkni og voru þannig hagkvæmari lausnir og þess vegna innleiddar. Viðfangsefnið hér er auðvitað gera lausnirnar líka efnahagslega hagkvæmar þannig að þær verði innleiddar. Það þarf að gera með ýmsum hvötum, bæði neikvæðum hvötum, skattlagningu, en líka með jákvæðum hvötum, með því að hvetja til fjárfestinga og koma að þeim á einhvern hátt. Það erum við að sjá önnur ríki vera að gera.“

Lausnin er margþætt, ekki eingöngu að draga úr neyslu

Þegar Sigurður er spurður hvort lausnin sé ekki að draga úr neyslu segir hann: „Lausnin í þessu eins og ýmsu öðru í lífinu er margþætt, hún samanstendur af mörgum þáttum. Við þurfum að skoða það sem samfélag og temja okkur hugsun hringrásarhagkerfis og betri nýtingar og endurvinnslu og erum að ná árangri þar og við eigum eftir að ná miklu meiri lengra þar, það er engin spurning. En það eitt og sér mun ekki hjálpa til og koma okkur í mark. Við þurfum að huga að og það er viðfangsefni heimsins að huga að orkukerfum, auka vægi endurnýjanlegrar orku og síðan iðnaðarferla. Í grænu iðnbyltingunni erum við að endurhanna aðra ferla sem urðu til í öðrum iðnbyltingum, kannski á nítjándu öld. Við þurfum að endurhanna það og finna nýjar leiðir til að framleiða það sem við þurfum í daglegu lífi án jafnmikilla áhrifa og helst engra á umhverfið.“

Sigurður segir að það gæti orðið snúið að fá fólk með á þeim forsendum að með því að fara í einhverjar breytingar að þá verði lífið eftir 20 eða 30 ár verra heldur en við þekkjum í dag. „Ég er ekki viss um að margir séu tilbúnir að kaupa miða með því.“ Hann bendir meðal annars á að ef það er enginn hagvöxtur hér en hagvöxtur annars staðar í heiminum þá drögumst við aftur úr. 

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 20. nóvember 2022.

Bylgjan-20-11-2022Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.