Fréttasafn24. maí 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Hætta á að markmið um uppbyggingu íbúða náist ekki

Í ljósi mikilla vaxtahækkana undanfarið og nú síðast hækkun Seðlabankans um 1,25 prósentustig auk fyrirhugaðra aðgerða stjórnvalda um lækkun á endurgreiðslu er mikil hætta á að markmið um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á árunum 2023-2032 náist ekki. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein á Vísi með yfirskriftinni Hinn breiði pensill Seðlabankans

Ingólfur segir að vaxtahækkanir séu tæki sem Seðlabankinn geti beitt til að ná niður verðbólgu en vaxtatækið sé hins vegar eins og að mála með breiðum pensli – þetta sé ekki mjög nákvæmt stýritæki. Vaxtahækkanir bankans hafi þannig óæskilegar hliðaverkanir við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku efnahagslífi. Hækkun vaxta dragi úr íbúðauppbyggingu þegar hið gagnstæða sé það sem þarf. Þannig sé lagður grunnur að því að við lendum aftur í því ástandi sem hóf þessa miklu verðbólgu sem nú sé við að etja, þ.e. að ekki verði byggt í takti við þörf. Afleiðingin verði líkt og við þekkjum - verðhækkanir húsnæðis, verðbólga og hærri stýrivextir.

Í greininni kemur fram að á skömmum tíma hafi stýrivextir bankans farið úr 0,75% í 8,75%. Ljóst sé að þessi mikla hækkun fjármagnskostnaðar við íbúðabyggingar vegi þungt hjá fyrirtækjum sem séu í uppbyggingu íbúða. Framkvæmdatími sé um eða yfir 2 ár og enn lengri ef tekið sé tillit til þess að nú sé sölutregða að leiða til þess að tíminn frá því að til kostnaðar sé stofnað við íbúðauppbyggingu hjá verktaka þar til hann fái greiðslu fyrir sölu hafi lengst á tíma hratt hækkandi vaxta.

Ingólfur segir að viðbúið sé að áhrif hækkunar stýrivaxta á framboð íbúða verði verulegt. Mikilvægt sé að tekið verði á þessum hliðaráhrifum hækkunar stýrivaxta. Samtök iðnaðarins hafi bent í því sambandi á að skortur á réttu lóðaframboði og skipulagi fyrir fleiri íbúðir hafi átt stóran þátt í þeim vanda sem skapaðist á íbúðamarkaði og leitt til þess ójafnvægis framboðs og eftirspurnar sem síðan leiddi til verðbólgu og hærri vaxta. Þá segir hann að Samtök iðnaðarins hafi bent á að fyrirhuguð lækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% muni hækka kostnað við húsbyggingar og dragi úr uppbyggingu og framboði nýrra íbúða. Munu áhrifin á framboð nýrra íbúða koma fram eftir 2-3 ár. Aðgerðin muni hækka verð íbúða, auka verðbólgu og leiða til hærri vaxta. 

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni. 

Vísir, 24. maí 2023.