Fréttasafn25. ágú. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Hagkerfi drifið af hugverki

GUÐRÚN HAFSTEINSDÓTTIR er ein af eigendum Kjöríss og var formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins í sex ár. Hún hefur rætt mikið um mikilvægi þess að grunnur verðmætasköpunar í landinu verði breikkaður og segir mikilvægt að Ísland snúi hægt og rólega frá auðlindadrifnu hagkerfi yfir í hagkerfi drifið af hugviti. 

Ég hef talað fyrir hugvitsdrifnu hagkerfi, þar sem við nýtum færni og visku mannshugans til að byggja undir verðmætasköpun og ný atvinnutækifæri.

Guðrún tók við sem forstjóri Kjörís aðeins 23ja ára að aldri. Faðir hennar, Hafsteinn Kristinsson mjólkurfræðingur, var meðal stofnenda fyrirtækisins, en hann varð bráðkvaddur 59 ára gamall. Kjörís hefur verið rekið í rúma hálfa öld sem fjölskyldufyrirtæki og hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir fagmennsku í rekstri, ráðdeild og vöruþróun. Guðrún segir vöruþróunina hafa skipt höfuðmáli í rekstrinum. „Við leggjum mikla áherslu á vöruþróun og viðskiptavinirnir gera líka kröfu um nýjungar á ísmarkaði. Við erum að setja um 20 til 30 nýjar vörur á markaði á ári. Það er alltaf mikið í gangi og viðskiptavinirnir taka nýjungum vel,“ segir Guðrún. 

Hjá Kjörís er starfsmaður í fullu starfi sem sér um vöruþróun og leiðir vinnu vöruþróunarhóps. „Við höfum haft þann háttinn á að hafa alltaf opinn hugmyndbanka þar sem allir starfsmenn og raunar gestir hússins geta stungið miða í kassann með sínum hugmyndum að nýjum vörum. Allar hugmyndir sem okkur berast, hvort sem það er á samfélagsmiðlum, í gegnum tölvupóst, hugmyndabankann eða hvernig sem er þá tökum við þær allar fyrir. Engin hugmynd er of vitlaus til að fá ekki einhverja rýni. Þetta vil ég meina að sé lykillinn að því að við séum enn á lífi eftir 51 ár í rekstri. “ 

GudrunHafsteins_806A4581

Þarf mikla aðlögunarhæfni 

Guðrún segist þakklát og stolt yfir að hafa fengið að veita Samtökum iðnaðarins formennsku undanfarin ár. „Ég er stolt af því að hafa fengið að leiða þessi stærstu samtök atvinnurekenda á landinu undanfarin ár.“ Hún segist líka vera stolt af því að hafa fengið að vera talsmaður þessara flottu fyrirtækja en í samtökunum eru 1.400 fyrirtæki og ekki síður af seiglunni í íslenskum atvinnurekendum. „Það er aðdáunarvert hvernig þeir reka sín fyrirtæki frá degi til dags í ótryggu umhverfi þar sem starfsskilyrðum er stundum breytt með einu pennastriki og engum fyrirvara; fasteignagjöld eru hækkuð og enginn skilur af hverju, nýr skattstofn búinn til í einni hendingu, gríðarlegar launahækkanir undanfarin ár og fleira í þeim dúr,“ lýsir Guðrún. „Það er einstakt að sjá hvernig íslenskir atvinnurekendur kljást við þessi úrlausnarefni sem er kastað í þá frá degi til dags því hér er ekki stöðugt starfsumhverfi. Það þarf ofboðslega aðlögunarhæfni til,“ segir Guðrún og bætir við að í sínu fyrirtæki sé sífellt verið að bæta á opinberum gjöldum. „Það verður til þess að það verður nánast ómögulegt að skipuleggja sig fram í tímann.“ „Þetta reddast - vonandi“ Guðrún segir að það sé ekki hægt að treysta endalaust á þær auðlindir sem okkur eru gefnar frá náttúrunnar hendi til verðmætasköpunar. „Ég hef talað fyrir hugvitsdrifnu hagkerfi, þar sem við nýtum færni og visku mannshugans til að byggja undir verðmætasköpun og ný atvinnutækifæri. En slíkt gerist ekki yfir nótt. Það þarf að búa í haginn. Stjórnvöld þurfa að vera framsýn og byggja undir hagvöxt til lengri tíma. Það er ekki hægt að treysta á að gos í Eyjafjallajökli veki áhuga ferðamanna á Íslandi né á loðnugengd eða að allt í einu fáum við milljónahóp ferðamanna sem aldrei áður hefur litið til landsins.“ 

Hún segir gamla góða íslenska hugarfarið, sem oft hafi fleytt okkur langt, ekki blíva í þessu efni. „Þetta er svo ríkt í okkur, að hlutirnir muni bara reddast. En hlutirnir gerast ekki að sjálfu sér. Það sá það til dæmis enginn fyrir árið 2008 að Eyjafjallajökull myndi gjósa og við springa út sem einn vinsælasti ferðamannastaður heims í kjölfarið – sem svo kom okkur í gegnum efnahagshrunið. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að vera með öll eggin í sömu körfunni og því sjáum við svo vel núna nauðsyn þess að byggja fleiri stoðir undir íslenskt atvinnulíf. Nú erum við líklega að sjá fram á einn mesta samdrátt síðustu hundrað ára.“ 

Guðrún gagnrýnir þó stjórnvöld fyrir að vera svifasein. „Við hefðum átt að vera löngu búin að ráðast í fjárfestingar og innviðauppbyggingu sem eru ekkert nema fjárfesting í hagvexti framtíðarinnar. Við hefðum átt að nýta undanfarin ár í að byggja undir innviði ferðaþjónustunnar, innviði iðnaðarins, eins og flutningskerfi raforku sem við sáum í lok síðasta árs hrynja eins og spilaborg vegna óveðurs. Við viljum öll að blómlegt atvinnulíf þrífist um allt land, en mörg svæði eiga ekki möguleika – hvorki á að stækka kökuna né á því að skapa ný tækifæri því innviðir eru ekki til staðar.“ 

Hún segir dapurt að fámenn þjóð eins og sú íslenska skuli geta eytt ómældum tíma í að rífast um útfærslu þegar langflestir eru sammála um framkvæmdina. „Við getum rifist endalaust um staðsetningar, hvort eigi að leggja línur í jörð eða loft, hvort eigi að leggja veg í gegnum þennan skóg eða hinn, hvort spítali eigi að rísa á þessari þúfu eða hinni – á meðan gerist ekkert. Nema það jú, að innviðirnar verða eldri, gamaldags og þjóna svo ekki nútíma atvinnulífi né lífi þegna þessa lands þegar á það er kallað.“ 

Allt snýst þetta um að vera skrefi framar í samkeppninni, sem nú er ekki bara íslensk heldur alþjóðleg.

Nýsköpun er hluti lausnarinnar 

Aftur að hugvitsdrifnu atvinnulífi, nokkuð sem Guðrúnu er mjög hugleikið. Hún segir nýsköpun skipta höfuðmáli í samfélaginu. „Nýsköpun eykur samkeppnishæfni okkar á eiginlega öllum sviðum. Ég þekki það úr mínu fyrirtæki, sem og öðrum, að maður þarf alltaf að vera á tánum; brydda upp á nýjungum, finna nýjar og hagkvæmari leiðir og lausnir til að selja vörur og þjónustu. Þetta á við jafnt um sprotafyrirtæki sem og þau sem eiga sér lengri sögu. Allt snýst þetta um að vera skrefi framar í samkeppninni, sem nú er ekki bara íslensk heldur alþjóðleg. Af þessum sökum höfum við talað fyrir því að breikka þennan grunn verðmætasköpunar eins og mér er svo tíðrætt um.“ 

„Nú byggir íslenskt atvinnulíf á þremur grunnstoðum, iðnaði, ferðaþjónustu og sjávarútvegi – næsta stoð á að vera byggð á hugviti. Samkeppnin er harðari og alþjóðlegri, umhverfis - og loftslagsmálin kalla á breyttar venjur, breytta neytendahegðun og breytta framleiðsluhætti. Nýsköpun er að minnsta kosti hluti lausnarinnar. Þá ríður á að við búum til umhverfi sem hlúir að þeirri auðlind sem mannshugurinn er,“ segir Guðrún. 

Sem dæmi um verðmæta atvinnugrein sem hefur sprottið upp úr hugviti nefnir hún öflugan, íslenskan leikjaiðnað. „Hver hefði trúað því fyrir þrjátíu eða fjörutíu árum að fleiri hundruð manns ynnu við tölvuleikjaiðnað á Íslandi? Og ég get nefnt fleiri dæmi, líftækniiðnaðinn, lyfjaiðnaðinn, fyrirtæki á borð við DeCode, Össur, Marel – þetta eru greinar sem byggjast á hugviti. Íslendingar eru líka mjög framarlega á mörgum sviðum í umhverfis - og loftslagsmálum og við trúum því að við getum lagt heilmikið af mörkum í átt að grænum lausnum á því sviði. Það gerum við með hugviti. Öll vestræn ríki eru að glíma við svipaðan vanda, því við erum að eldast. Sú þróun er að verða mjög hröð. Ég trúi því að lausnirnar liggi í þessa veru.“

VIÐTAL Ólöf Skaftadóttir

LJÓSMYNDIR Baldur Kristjánsson

Tímarit Samtaka iðnaðarins um nýsköpun.

Timarit-SI_forsida_