Hagvaxtarhorfur versna
Hagvaxtarhorfur hafa farið hratt versnandi undanfarið. Endurspeglast það í hagspám. Hagstofan birti í síðustu viku þjóðhagsspá sem hljóðaði upp á 1,7% hagvöxt í ár sem er 0,8 prósentustiga lækkun frá fyrri spá stofnunarinnar fyrir árið sem birt var í nóvember í fyrra. Seðlabankinn lækkaði einnig hagvaxtarspá sína fyrr í þessum mánuði úr 2,7% niður í 1,8%. Báðar þessar stofnanir spá nú auknu atvinnuleysi, þ.e. úr 2,7% í fyrra í 3,1-3,3% í ár. Það er í fyrsta sinn síðan 2010 sem atvinnuleysi eykst á milli ára.
Ekki lengur hraður hagvöxtur í alþjóðlegum samanburði
Ef spár Hagstofunnar og Seðlabankans rætast fyrir árið er um að ræða minnsta hagvöxt sem mælst hefur síðan 2012 eða síðan hagkerfið byrjaði að taka við sér í þeirri uppsveiflu sem nú er að taka enda. Um er að ræða talsvert minni hagvöxt en spáð er á heimsvísu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir, svo dæmi sé tekið, 3,5% hagvexti í heiminum í ár. Spáir stofnunin því að hagvöxtur í iðnríkjunum verði 2,0% í ár sem er nokkuð hægari vöxtur en á síðasta ári þegar hann var 2,3%. Hagvöxtur hér á landi er því að fara undir meðaltal helstu ríkja heims eftir að hafa verið yfir því undanfarin ár.
Merki hægari vaxtar má sjá víða - hægir á vexti einkaneyslu
Ástæða fyrir lækkun hagvaxtarspár Hagstofunnar er minni vöxtur í öllum helstu liðum þjóðhagsreikninga, þ.e. einkaneyslu, samneyslu, fjárfestingum og útflutningi. Einkenni hægari vaxtar eru því víða í þjóðarbúskapnum um þessar mundir.
Gögn um þróun kortaveltu heimilanna sýna að hægt hefur verulega á vexti einkaneyslu. Nýjustu tölur fyrir desember 2018 og janúar 2019 sýna samdrátt á föstu verði í kortaveltu á milli ára þriðja mánuðinn í röð. Mældist samdrátturinn í janúar tæplega 4% frá janúar í fyrra. Veruleg breyting hefur orðið í þessum þætti efnahagsmála á einu ári en í janúar í fyrra mældist ríflega 11% raunvöxtur í kortaveltu.
Kortavelta heimilanna endurspeglar vel þróun einkaneyslu. Ofangreind umbreyting í takti kortaveltunnar sýna það að heimilin eru að bregðast við breyttum efnahagsaðstæðum, versnandi efnahagshorfum og aukinni óvissu, m.a. vegna stöðu kjarasamninga með því að halda að sér höndum í neyslu sinni. Hugsanleg er að í þessu ljósi séu spár bæði Seðlabankans og Hagstofunnar um vöxt einkaneyslu of háar en Seðlabankinn spáir 4,0% vexti einkaneyslu í ár og Hagstofan 3,6% vexti.
Fjárfestingar í innviðum halda uppi hagvextinum
Samtök iðnaðarins hafa að undanförnu sagt að nú séu kjöraðstæður í efnahagsmálum til að fara í innviðafjárfestingar en með því er bæði milduð niðursveiflan í hagkerfinu og byggt undir hagvöxt til lengri tíma. Sterkir innviðir, eins og samgöngur, er forsenda öflugs atvinnulífs.
Þeir tveir þættir fjárfestingar sem eru að vaxa í ár samkvæmt spá Hagstofunnar er fjárfesting í innviðum, þ.e. íbúðarhúsnæði og fjárfesting hins opinbera. Þessir tveir þættir eru að halda uppi vexti fjárfestinga í hagkerfinu um þessar mundir og raunar í fyrra líka. Einnig er vöxtur í þessum þáttum að standa undir hagvextinum um þessar mundir að hluta. Þannig er að raungerast það sem Samtök iðnaðarins hafa verið að berjast fyrir. Svigrúm og innistæða eru hinsvegar fyrir því að gera enn betur á þessu sviði. Með því væri unnið betur á uppsafnaðri þörf sem myndaðist á þeim tíma uppsveiflunnar þegar fjárfestingarstigið í hagkerfinu var mjög lágt og rennt enn frekari stoðum undir hagvöxt í nútíð og framtíð.