Fréttasafn14. mar. 2019 Almennar fréttir

Hagvaxtarskeið komið á endastöð

„Það er augljós viðsnúningur frá fyrra ári. Það eru skýr merki um kólnun hagkerfisins í þessari könnun, og niðurstöðurnar eru í takt við þau skilaboð sem við höfum fengið frá okkar félagsmönnum á síðustu mánuðum. Hér hefur ríkt mjög langt hagvaxtarskeið í sögulegu samhengi, en nú er það komið á endastöð,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í frétt Þórodds Bjarnasonar, blaðamanns, í ViðskiptaMogganum í dag um niðurstöður nýrrar árlegrar könnunar sem framkvæmd er fyrir Samtök iðnaðarins, en könnunin byggir á svörum tæplega 300 félagsmanna samtakanna í framleiðsluiðnaði, byggingar- og mannvirkjaiðnaði og hugverkaiðnaði. 

Blikur á lofti

Í frétt ViðskiptaMoggans kemur fram að samkvæmt könnuninni telja mun færri aðstæður í efnahagslífinu góðar til atvinnurekstrar í febrúar þegar könnunin var framkvæmd en á sama tíma á árunum 2016 til 2018. Í könnuninni kemur fram að 70% fyrirtækja telja sig ekki skorta starfsfólk sem er talsverð aukning frá fyrra ári þegar um helmingur var í sömu stöðu. „Þegar skoðað er hverjir vilja fækka starfsfólki þá eru það heilt yfir í kringum 15%. En það áhugaverða er að stóru fyrirtækin sjá frekar fyrir sér fækkun starfsfólks en hin. Um 40% stórra fyrirtækja segjast þannig geta séð fyrir sér að segja upp fólki á næstu 12 mánuðum, sem er mikil breyting.“ Spurður um ástæður þessa viðsnúnings segir Sigurður að óvissan á vinnumarkaði sé vissulega meiri en hún hafi verið um nokkurt skeið, og leiki stórt hlutverk, en einnig komi annað til, eins og staðan í ferðaþjónustu til að mynda. „Þannig að heilt yfir eru blikur á lofti.“ 

Breytir miklu að aflétta óvissu

Þegar blaðamaður spyr Sigurð hvað þurfi að gerast til að þróunin haldi ekki áfram niður á við á næsta ári segir hann að staðan á vinnumarkaði skipti þar miklu máli og að miklu breyti að aflétta þar óvissu. „Það sama á við um stór félög í ferðaþjónustu, eins og flugfélögin. Þar ríkir ákveðin óvissa sem þarf að aflétta sömuleiðis. Ég held að þegar þetta tvennt er orðið ljóst, þá skipti það miklu máli. Óvissan er alltaf slæm, því þá heldur fólk að sér höndum, einkaneysla dregst saman og framkvæmdum er frestað.“ Þá segir Sigurður að nú sé góður tímapunktur fyrir hið opinbera að fjárfesta til að dempa áhrifin af kólnuninni. „Hið opinbera ætti að nýta tækifærin sem gefast nú á næstu árum til framkvæmda.“

ViðskiptaMogginn / mbl.is, 14. mars 2019.

Morgunbladid-14-03-2019