Fréttasafn



17. des. 2018 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Háir vextir koma niður á samkeppnisstöðu

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um fjármálamarkaðinn og íbúðamarkaðinn í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun. Þáttastjórnendurnir spurðu Sigurð meðal annars út í grein sem hann skrifaði í síðustu viku í Fréttablaðinu þar sem segir að í hvítbók um íslenska fjármálakerfið komi fram að útlánavextir íslensku bankanna séu mun hærri en útlánavextir banka í nágrannalöndunum þar sem greiða þarf margfalt hærri vaxtagreiðslur fyrir jafn hátt lán og að munurinn komi niður á samkeppnisstöðu og verðmætasköpun íslenskra fyrirtækja. Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Sigurður var spurður hvers vegna þetta væri svona og sagði hann það vera góða spurningu. „Í Hvítbók um framtíðarsýn á íslenska fjármálakerfið er mjög ítarleg greining á stöðunni og hugleiðingar um hvernig má bæta úr. Það er hópur á vegum stjórnvalda sem tekur hvítbókina saman svo stjórnvöld geti mótað stefnu í þessum málum en stjórnvöld ráða fjármálamarkaðnum í gegnum skattheimtu og lagasetningu og hafa því heilmikið um það að segja.“

Sigurður var spurður hvort þessi hvítbók væri ekki hvítþvottur fyrir stjórnvöld til að fegra eitthvað eða hvort þetta væri gagnrýnin framsetning á ástandinu svarar hann að um væri að ræða ítarlega og góða greiningu á stöðunni og tilmæli um það hvar helstu vandamálin liggja og hugleiðingar um hvernig megi bæta úr.

Ríki heims keppast um að bæta sína stöðu

Sigurður sagði Samtök iðnaðarins hafa ítrekað talað fyrir hagkvæmara og skilvirkara fjármálakerfi og nefndi meðal annars þrjár skýrslur sem samtökin hafa gefið út um samkeppnishæfni sem hann sagði að væri nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. „Með aukinni samkeppnishæfni verður meiri verðmætasköpun og meira til skiptanna. Það er eftirsóknarvert og öll ríki heims keppast um að bæta sína stöðu og við þurfum líka að gera það. Það eru allir að reyna að gera betur.“

Þá sagði Sigurður að það væru fjórir þættir sem mestu máli skipta fyrir samkeppnishæfnina sem eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. „Við höfum talað um það í skýrslu sem kom út í mars að bæði hagkvæmni og skilvirkni fjármálakerfisins á Íslandi sé ábótavant og það þurfi að bregðast við því á einhvern hátt. Það er mjög áhugavert að sjá að niðurstöður þessarar hvítbókar eru á sömu lund.“

45% álagning íslenskra banka

Í viðtalinu er komið inn á álagningu íslensku bankanna en í grein Sigurðar kemur fram að um er að ræða 45% álagningu á síðasta ári sem skýrist aðallega af rekstrarkostnaði sem er að helmingi launakostnaður. Hann var spurður hvort við værum að borga svona háa vexti vegna þess að rekstarkostnaður og launakostnaður bankanna sé svona mikill? „Að vissu leyti. Það eru aðallega fjórir þættir sem hafa áhrif á að vextirnir eru hærri. Það er staðreynd að stýrivextir eru hærri hér en annars staðar, efnahagslegt ástand á Íslandi er talsvert betra en annars staðar, það er velmegun og uppsveifla í hagkerfinu er meiri en annars staðar, þess vegna er það hærra. En álagning er líka hærri hér en annars staðar og það er dregið skýrt fram í hvítbókinni, eitt af því sem kemur við sögu er stærðarhagkvæmni. Þó að bankarnir séu stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða þá eru þeir mjög smáir í alþjóðlegum samanburði. Þetta eru litlir bankar, lítil fyrirtæki. En þá er líka áhugavert að skoða eins og kemur fram í hvítbókinni hvernig vaxtamunurinn er hjá smærri bönkum til að mynda á Norðurlöndunum sem eru þá af svipaðri stærð. Þá kemur í ljós að álagningin þar er talsvert minni, en hún er samt meiri en hjá stærstu bönkunum. Þannig að ef við tökum það frá þá er samt eftir munur sem er óútskýrður, þannig að vaxtamunurinn er ennþá hærri hér á landi.“

Er þetta okur? „Já kannski að einhverju leyti. Það skýrist meðal  annars af sköttum en skattlagning í íslensku bankakerfi er miklu hærri hér heldur en gengur og gerist annars staðar. Það skilar sér í auknum vaxtamun. Það eru bankarnir sem greiða en auðvitað eru það við sem greiðum þetta á endanum.“

Erlendir netbankar til landsins

Í lok umræðunnar um íslensku bankana var Sigurður spurður hver besta leiðin væri? Hann sagði að lækka bankaskattinn og bankarnir þurfi að hagræða í rekstri, velta fyrir sér starfsmannafjölda en að fjöldi starfsmanna sé hár í samanburði við eignir. Rætt var um erlenda samkeppni og vísað í fréttir þess efnis að þýskur netbanki hefði sýnt áhuga á að koma upp starfsemi hér á landi. En spurning væri hvort það væri módel sem er hagkvæmast. Sigurður sagði það án efa en þeir gætu þá ekki boið upp á alla þá þjónustu sem þarf. 

Horfa þarf til lengri tíma í íbúðauppbyggingu

Vísað var til annarrar greinar sem Sigurður skrifaði fyrir nokkru með yfirskriftinni Byggjum fleiri íbúðir. Þáttastjórnendurnir sögðu að undanfarið hafi mikið verið talað um mikinn skort á íbúðamarkaði en í fréttum um helgina væri talað við hagfræðinga sem segja að það sé offramboðs-ástand, markaðurinn væri að kólna mikið og mikið af nýjum íbúðum sem virðast vera of dýrar. Hvað er að gerast, erum við að fara fram úr okkur? „Nei, það held ég ekki. Það var lítið byggt á löngu tímabili. Við sjáum það eins og í Reykjavík þá segir spá að meðaltali hafi verið byggðar 500 íbúðir á ári 2010-2020, það er býsna lítið og lítið byggt á síðustu árum. Það var mikil uppsöfnuð þörf.“

Sigurður sagði erfitt að meta hver eftirspurnin er og það hafi áhrif ef hægist á í ferðaþjónustunni og hvort það leiðir til þess að Airbn-íbúðir fari aftur út á markaðinn eða íbúðir sem erlendir starfsmenn eru í komi út á markaðinn ef þeir fari aftur heim. Hann sagði að samtökin horfðu til lengri tíma og ef horft væri til 2050 þurfi að byggja 45 þúsund nýjar íbúðir. „Vegna þess að við verðum fleiri og verðum færri í hverri íbúð.“ Hann sagði að þá væri horft framhjá nokkrum hagsveiflum, stundum verði skortur og stundum offramboð á tímabilinu.

Sigurður sagði jafnframt að aðdragandi að byggingu íbúða væri býsna langur og tók dæmi af uppbyggingu í Úlfarsárdal, þar sem var umræða 2015 í borgarstjórn eða borgarráði að fjölga íbúðum, bygging íbúða væri að hefjast núna og væru tilbúnar á næsta eða þarnæsta ári. „Það gerist allt á löngum tíma.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.