Fréttasafn



5. feb. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Halda hagsmunum Íslands á lofti bæði til austurs og vesturs

„Útflutningur leggur grunninn að okkar lífskjörum og því skiptir svo miklu máli fyrir okkur hér á landi að vera með greiðan aðgang að mörkuðum,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI,  í Speglinum á RÚV um tollastríð í kjölfar yfirlýsinga Bandaríkjaforseta um hækkun á tollum m.a. á vörum frá Evrópusambandinu.

Í Speglinum kemur fram að Evrópa sé mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar iðnaðarvörur en bandaríski markaðurinn sé vaxandi. „Allt ál sem að framleitt er hér á landi fer til Evrópu meira og minna og það eru býsna háar fjárhæðir, árið 2023 sem eru nýjust tölur eru ríflega 300 milljarðar af tæplega 400 milljarða útflutningi til ESB landa en það ár fluttum við iðnaðarvörur til Bandaríkjanna fyrir um 40 milljarða. Við þurfum að hafa það í huga að Bandaríkin eru að verða mikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur og þá er ég að horfa til hugverkaiðnaðar. Við erum að sjá það til dæmis að lækningavörur og -tæki er það sem við flytjum mest af út til Bandaríkjanna þegar kemur að iðnaðarvörum. Síðan eru það matvæla-, drykkjar- og landbúnaðarvörur. Það er því ýmislegt sem telur. En áhygjurnar eru þær að tollum og áformum um tolla er svarað annars staðar með þá því að leggja á tolla og það getur þá haft víðtækari áhrif og þá áhrif á stærri hluta af okkar útflutningi.“

Versta sviðsmyndin að lenda á milli tollamúra Bandaríkjanna og Evrópu

Sigurður segir í Speglinum að það sé ólíklegt að Ísland lendi á milli tollamúra beggja vegna Atlantshafsins sem loki þá bæði Bandaríkja- og Evrópumarkaði. „En sú sviðsmynd er sannarlega til. Það væri sennilega versta sviðsmyndin sem að við gætum hugsað okkur. Sú sviðsmynd er mjög ólíkleg. Ekki síst vegna þess að íslensk stjórnvöld, við og fleiri sinnum hagsmunagæslu og reynum eins og hægt er að útiloka þá sviðsmynd.“

Þegar þáttastjórnandi spyr hvað þurfi að gera til að sporna við því svarar Sigurður: „Það þarf auðvitað að halda hagsmunum Íslands á lofti bæði til austurs og vesturs, það skiptir gríðarlegu máli að stjórnvöld geri það. Þétta raðirnar. Við höfum til dæmis gert það á vettvangi Samtaka iðnaðarins með samtölum við Norðurlöndin sem eru auðvitað okkar bandamenn þegar kemur að Evrópu og við höfum átt fundi sérstaklega með systursamtökum okkar NHO í Noregi. Noregur er í sömu stöðu og Ísland hvað þetta varðar. Síðan höfum við átt mjög gott samstarf við utanríkisráðuneytið hérna heima. Utanríkisráðuneytið og íslensk stjórnvöld eru að vinna að hagsmunagæslu fyrir Ísland. Við höfum líka á fundi á vettvangi EFTA og eins með framkvæmdastjóra alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO.“

Matvæli, lyf, lækningavörur og -tæki flutt frá Íslandi til Bandaríkjanna

Sigurður segir að við séum að flytja matvæli í stórum stíl til Bandaríkjanna þegar sé horft til sjávarútvegsins. „Sjávarfang auk annarra matvæla, drykkjar- og landbúnaðarvara. Síðan eru þetta lyf í vaxandi mæli sem að er sérstakt að ætla að hætta aðgang að fyrir Bandaríkin og svo lækningavörur og -tæki sem að maður hefði haldið að væri eitthvað sem Bandaríkjamenn þyrftu á að halda. Þetta eru dæmi um atriði sem ég held að þurfi að útskýra og sé verið að gera.“

Verið að vinda ofan af alþjóðavæðingu og færa framleiðslu til

Sigurður er spurður hvort væri hægt að finna aðra markaði fyrir þessar vörur: „Það veltur á ýmsu og það sem að er aðeins snúið, þó útflutningstölurnar til Bandaríkjanna séu mun lægri en það sem við sjáum austur um haf að þá er þetta oft mjög stór hluti af framleiðslu einstakra fyrirtækja og þess vegna skiptir svo miklu máli að aðgangurinn sé greiður því þetta getur haft svo mikil áhrif á einstök fyrirtæki og þar með á verðmætasköpun hér á landi. Það er meiri óvissa en verið hefur og við erum auðvitað að sjá það að það er verið að vinda ofan af alþjóðavæðingu sem fór af stað seint á síðustu öld og við og aðrir hafa notið góðs af því. En nú er verið að snúa því við. Það er verið að færa framleiðslu til í raun aftur til Vesturlanda frá löndum eins og Kína.“ 

Viðnámsþróttur samfélaga er farinn að skipta meira máli

Sigurður segir að það sé margt að breytast. „Aukið spennustig í heiminum spilar líka inn í. Þannig að viðnámsþróttur samfélaga er farinn að skipta meira máli. Aðgengi að vörum undir ólíkum og krefjandi aðstæðum, vörum á tímum heimsfaraldur kórónuveiru, hvernig það raungerðist. Hugsunarhátturinn er mikið að breytast á síðustu árum og við erum að sjá hvernig það er að raungerast.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í Speglinum frá mínútu 00:05.57.

RÚV, 4. febrúar 2025.