Fréttasafn



11. nóv. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Hátt raungengi áskorun fyrir atvinnulífið

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Innherja á Vísi um hækkun raungengis krónunnar að raungengi á mælikvarða launa varpi ljósi á þróun samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum með tilliti til launakostnaðar. Um sé að ræða vísitölu sem sýni þróun hlutfalls launakostnaðar á framleidda einingu hér á landi og löndum helstu samkeppnisaðila mælt í sömu mynt. En í fréttinni segir að í gögnum Seðlabanka Íslands komi fram að raungengi miðað við laun hafi hækkað um 14% á fyrstu ársfjórðungi ársins og um 6% á öðrum ársfjórðungi.

Raungengi krónunnar er sögulega hátt

Ingólfur segir í frétt Innherja að tölur Seðlabankans sýni að raungengi krónunnar standi sögulega hátt um þessar mundir og hafi hækkað „allnokkuð“ í þessari uppsveiflu. Raungengið sé um 26% yfir meðaltali síðustu tveggja áratuga á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hafði þá hækkað um 35% frá því að hagkerfið byrjaði að taka við sér í þessari uppsveiflu. „Raunar stóð það óvenju hátt við upphaf uppsveiflunnar í samanburði við hvar það hefur almennt staðið við upphaf uppsveiflu í íslensku hagkerfi. Undanfarnar vikur hefur raungengið hins vegar lækkað aðeins vegna gengislækkunar krónunnar en hefðbundið er að lækkun á raungengi krónunnar sé fyrst og fremst í gegnum lækkun nafngengis krónunnar sem leiðir þá til aukinnar verðbólgu og minni kaupmáttar. Þrátt fyrir lækkun krónunnar undanfarnar vikur stendur raungengi krónunnar enn hátt.“

Hátt raungengi gerir íslenskum fyrirtækjum erfiðara að vaxa

Ingólfur segir jafnframt í Innherja að hátt raungengi krónunnar og þar með erfið samkeppnisstaða þeirra innlendu fyrirtækja sem helst séu að keppa við erlend geri íslenskum fyrirtækjum erfiðara fyrir að vaxa um þessar mundir. „Samkeppnisstaðan hefur vegið að markaðshlutdeild þeirra og þar með vexti. Í hratt vaxandi markaði kemur þetta minna að sök en nú þegar samdráttur eða hægur vöxtur hefur tekið við af vexti í nokkrum af okkar helstu viðskipalöndum. Þannig hefur undanfarið farið saman þung samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum með tilliti til launakostnaðar og versnandi horfur á mörgum af okkar helstu mörkuðunum. Þetta lýsir alvarlegri stöðu ekki síst í ljósi þess að nú hægir talsvert á hagvexti hér á landi samkvæmt spám og í því ljósi mikil þörf á góðum vexti þessara fyrirtækja litið til næstu missera. Mikilvægt er að hagstjórnaraðilar og ekki síst aðilar vinnumarkaðarins líti til þessarar stöðu þegar verkefnið er að skapa stöðugleika og raunverulegar kjarabætur fyrir heimilin í landinu.“ 

Í frétt Innherja er einnig rætt við Unu Jónsdóttur, forstöðumann Hagfræðideildar Landsbankans, og Jón Bjarka Bentsson, aðalhagfræðing Íslandsbanka.

Vísir/Innherji, 9. nóvember 2022.