Fréttasafn



13. maí 2020 Almennar fréttir

Hefur tröllatrú á íslensku atvinnulífi

Rætt er við Árna Sigurjónsson, formann SI, í Markaðnum í dag um tilurð þess að hann tók að sér formannshlutverkið og stöðuna í efnahagslífinu. Árni segist hafa tröllatrú á atvinnulífinu en að staða fyrirtækja sem eru í Samtökum iðnaðarins verði afar misjöfn þegar kórónaveiran er á bak og burt. „Okkar félagsmenn reikna með 20-40% samdrætti á árinu og sumir horfa á jafnvel svartari stöðu. Mikill samdráttur í tekjum rýrir mjög eigið fé og getur kallað á aukna skuldsetningu. Sum fyrirtæki hafa blessunarlega borð fyrir báru. Önnur ekki og eiga því erfitt um vik að takast á við skyndilegt tekjufall. Þau munu þurfa að bregðast við með verulegu aðhaldi í rekstri. Ég er bjartsýnn að eðlisfari og hef tröllatrú á íslensku atvinnulífi, að því gefnu að ástandið muni vara í tiltölulega skamman tíma. Ef það dregst langt fram á haust eða vetur fækkar þeim aðgerðum sem hið opinbera getur gripið til við að aðstoða atvinnulífið og óvissan verður meiri og kreppan dýpri. Ef okkur tekst að komast í gegnum skaflinn tiltölulega hratt verður staða Íslands sterk til langs tíma litið.“

Leiðin fram á við er nýsköpun

Árni segir í viðtalinu að íslenskt atvinnulíf vanti fleiri stoðir. „Við höfum einblínt á eina atvinnugrein í einu til að bæta okkur, eins og sjávarútveg, fjármálaþjónustu og ferðamennsku. Nú þurfa allar atvinnugreinar landsins að taka höndum saman og vinna að því að þessi áratugur verði áratugur nýsköpunar. Það er leiðin fram á við. Við höfum mikla trú á að Ísland geti staðið framarlega í nýsköpun. Mikilvægt skref í þá átt var sú ákvörðun stjórnvalda að hækka hlutfall endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði úr 20 í allt að 35% og heildarþak á greiðslur til hvers fyrirtækis fór úr 600 í 1.100 milljónir króna.“ 

Þegar Árni er spurður hvað þurfi að gera til að ná árangri í nýsköpun þegar fjölmenn láglaunalönd eins og Kína og Indland hafi metnað til að láta til sín taka á þessu sviði. „Þau hafa fólksfjöldann fram yfir okkur en við höfum aðra kosti. Smæðin getur reynst sóknarfæri. Taka má Marel sem dæmi. Fyrirtækið náði árangri vegna náinnar samvinnu við viðskiptavini að þróun lausna. Nándin og samvinnan er mikil hér á landi. Til að koma sprotum á legg þarf að skapa umhverfi sem er samkeppnishæft við önnur lönd. Við eigum í samkeppni við allan heiminn á þessu sviði. Þess vegna þurfa lög og reglur að vera skynsamleg, styrkjaumhverfið þarf að vera gagnsætt, aðgengilegt og styðja við fyrirtækin. Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði skiptir hér til dæmis miklu máli og auknir hvatar til nýsköpunar sem urðu að veruleika nú í vikunni geta gert það að verkum að hér verði til þrjú til fimm alþjóðleg fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP á hverjum áratug í stað þess að eitt eða jafnvel ekkert slíkt félag verði til. Ég segi óhikað að samfélagsgerðin og samstöðumátturinn geri það að verkum að við eigum möguleika á að standa okkur vel á þessu sviði. Hér skiptir líka máli þolgæði landsmanna og þetta reddast hugfar. Það nýtist vel þegar hrinda á nýjum hugmyndum í framkvæmd.“

Á vef Fréttablaðsins er hægt að lesa viðtalið við Árna í heild sinni.

Fréttablaðið, 13. maí 2020.